Drangeyjarmótið – upphitun
Bikarmót 2 í götuhjólreiðum fer fram á laugardag í Skagafirðinum og verður að mestu hjóluð sama braut og í Íslandsmeistaramóti síðasta árs þegar Ágústa Edda Björnsdóttir og Birkir Snær Ingvason voru krýnd meistarar. Ein breyting verður á leiðinni hvað varðar A flokk kvenna og Master karla, en í fyrra endaði brautin á endarsprett á Sauðárkróki hjá þeim flokkum. Núna munu þessir flokka enda upp í Tindastól. Þessi hjólaleið er af betri gerðinni, frábær náttúra og fjallatindsendir en endamarkið er staðsett við skíðasvæðið á Tindastól. Veðurspáin er jafnframt mjög góð og því ekkert til fyrirstöðu að hér verði frábær keppni. Lesa má upphitun okkar fyrir mótið í fyrra hér og hér má enn skrá sig á mótið.
Drangeyjarmótið er kvöldmót í HRÍ flokkum, og ræsing upp úr 19:00 og því upplagt að keyra úr bænum á Sauðárkrók og taka þátt móti við kjöraðstæður.
Skagafjörðurinn í allri sinni dýrð
A flokkur karla, A flokkur kvenna (ásamt Master karla) hjóla 124 km leið sem byrjar á Sauðárkróki. Hjólað er suður að Varmahlíð yfir í Blönduhlíð og þar alla leið að Hofsósi þar sem snúið er við. Nú er hjólað aftur í suðurátt þar til beygt er að Sauðarkróki. Síðasti kaflinn er svo klifur frá bænum alla leið upp að skíðasvæðinu í Tindastóli.
Við skrifuðum aðeins um leiðina í samantekt okkar í fyrra:
„Brautin er að mestu nokkuð flöt, ef frá er talin lokabrekkan, en þó er þar að finna nokkrar styttri brekkur sem gætu sprengt upp keppnina. Þá er ljóst að vindur gæti haft talsverð áhrif á keppnina, en ef hann kemur að vestan eða austan verða nokkuð langir kaflar með hliðarvind sem lið sem vinnur saman gæti nýtt sér.
Fyrst ber að nefna kaflann við Reynistað, en þar er farið niður frá Staðarrétt og framhjá Reynisstað áður en stutt brekka tekur við sem gæti reynst góður staður til að gera fyrstu árás. Stuttu síðar þegar búið er að hjóla Langholtið kemur beygja upp til vinstri meðfram Reykjarhólnum við Varmahlíð. Þar er einnig mögulegt svæði til að gera árás, en strax í kjölfarið kemur svo niðurkafli að Varmahlíð og beygjan í átt að Blönduhlíð.
Í Blönduhlíð er svo ein brekka sem hægt er að vinna með, en hún kemur eftir tæplega 45 km af heildarleiðinni. Eftir að snúið er við frá Hofsósi er svo haldið í átt að Sauðárkróki yfir Hegranesi. Þar gefst annað tækifæri til árásar á góðum tímapunkti, eða þegar rúmlega 20km eru eftir. Ekki er um mikið meira en 40-50m hækkun að ræða, en nokkuð brattan kafla í hluta brekkunnar. Slétt er í gegnum Sauðárkrók, þar sem flestir flokkar klára, en Elite KK heldur svo áfram í lokaraunina. [Ath. að í ár fara fleiri flokkar þessa lengri leið eins og nefnt er hér að ofan]
Hvað lokabrekkuna varðar mun hækkunin í raun byrja strax þegar hjólað er úr bænum upp á Þverárfjallsveg en fyrstu 12 kílómetranna er ekki um mikla hækkun að ræða, einungis um 250m. Eftir afleggjarann upp á Skíðasvæði munu hinsvegar flugeldarnir byrja, þegar um 1800 metrar eru eftir, þá eykst brattinn verulega og nær um 19% á köflum.“
Veður
Veðurspáin fyrir keppnina er góð og útlit fyrir að það verði að mestu logn í Skagafirðinum miðað við núverandi spá. Hiti verður þokkalegur ef spáin gengur eftir og einnig þurrt. Spurningin verður þó hvort norðanáttin nái að hafa áhrif á keppendur þegar þeir færa sig upp á heiðina síðasta spölinn upp að skíðasvæðinu.
Leiðir fyrir alla í boði
B-flokkar , Masters konur, U17 karlar og konur, Junior karlar og konur hjóla styttri leið og sleppa leiðinni út að Hofsósi og til baka. Leiðin er 82 km frá Sauðárkróki, suður að Varmahlíð yfir í Blönduhlíð, vestur yfir að Sauðárkróki og upp að skíðalyftu þar sem endamarkið er. U15 flokkar hjóla 46km leið, að Varmahlíð og aftur til bara að Sauðárkróki.
Að lokum er það almenningsflokkurinn, fyrir þá sem vilja taka þátt í hjólaviðburði án þess að keppa innan HRÍ flokkana. Almenningsflokkurinn er ræstur um morguninn á laugardeginum, kl 09:00 og byrjar almenningsflokkurinn í Varmahlíð. Leiðin sem hjóluð er liggur frá Varmahlíð yfir í Blönduhlíð, vestur yfir að Sauðárkróki og suður aftur að Varmahlið, alls 65 km hringur.