Samantektin

Nóg hefur verið um að vera undanfarnar vikur. Nokkur mót hafa farið fram í fjölmörgum greinum hjólreiða. Morgunblaðshringurinn fór fram mánudaginn 15. júní, Tímataka Tinds þann 18. júní og svo fyrsta bikarmót í götuhjólreiðum, Skjálfandamótið þann 20. júní. Íslandsmeistaramót í downhill fór svo fram 27. júní í Úlfarsfelli og annað stigamót í Crit mótaröð Bjarts var nú á þriðjudaginn 30. júní.

Morgunblaðshringurinn

Fyrsta stigamót ársins í fjallahjólreiðum fór fram 15. júní, eins og venjan er við Rauðavatn og í nágrenni Hádegismóa, en um er að ræða Morgunblaðshringinn. 72 keppendur voru skráðir til leiks, en vegna Covid var mótið nokkuð seinna en almennt hefur verið þegar mótið er haldið í lok apríl eða byrjun maí. Í karlaflokki fóru þeir Ingvar Ómarsson og Hafsteinn Ægir Geirsson af stað af krafti og voru frestir eftir fyrsta hring. Á öðrum hring náði Ingvar forskoti og hélt því til loka og kom fyrstur í mark. Hafsteinn var annar og Kristinn Jónsson þriðji.

Í kvennaflokki var María Ögn Guðmundsdóttir fyrst, en hún var fremst í kvennaflokki eftir fyrsta hring og hélt forskotinu til loka. Karen Axelsdóttir var önnur og Kristín Edda Sveinsdóttir þriðja.

Tímataka Tinds – bikarmót #2

Annað bikarmót í tímatöku fór fram í Þorlákshöfn og þar var hjóluð 25 km leið á Suðurstrandavegi. Alls voru yfir 100 skráðir og ljóst að tímatakan er vinsæl þetta sumarið. Í A flokki kvenna sigraði Ágústa Edda með nokkrum yfirburðum, en næst á eftir henni kom Margrét Pálsdóttir og svo Hrefna Jóhannsdóttir í þriðja. Meiri spenna var í A flokki karla en í fyrsta bikarmótinu stóð Ingvar Ómarsson uppi sem sigurvegari þar Rúnar Örn Ágústsson hafnaði í öðru sæti. Þeir mættust aftur í bikarmóti tvö og var lítill munur á milli þeirra þegar brautin var hálfnuð þar sem Ingvar var 2 sekúndum sneggri. Rúnar vann upp muninn á leiðinni til baka og kom í mark á besta tímanum, 28 mín og 07 sek, alls 22 sek á undan. Spennandi verður að fylgjast með þessu einvígi í sumar en í þriðja sæti var Hákon Hrafn Sigurðsson.

Skjálfandamótið

Í upphitun okkar fyrir Skjálfandamótið fórum við yfir mótið og frábæra brautina sem liggur frá Akureyri til Húsavíkur. Þegar kom á daginn stóð Skjálfandamótið undir væntingum og rúmlega það. A flokkur kvenna (ásamt B flokki Karla, Masters karla og Junior KK) hjólaði 104 km og var viðbúið að það myndi sjást strax í Víkurskarðinu hverjar myndu geta gert sig líklega til að ná á verðlaunapall. Svo var raunin, Ágústa Edda setti strax hátt pace upp Víkurskarðið sem varð til þess að hópurinn slitnaði. Í fremsta hóp urðu Ágústa Edda og Hafdís Sigurðardóttir úr Hjólreiðafélagi Akureyrar ásamt hjólurum úr Masters karla. Sá hópur átti eftir að haldast saman fram að síðustu brekku á Hvammaveginum þegar Ágústa nær loks að slíta Hafdísi frá sér og sigraði að lokum með 2 mín forskoti og 45 sek. Hafdís kom önnur í mark en í þriðja sæti og sú fyrsta úr næsta hóp var Silja Rúnarsdóttir með einnar sekúndu forskot á Bríeti Kristý Gunnarsdóttur.

A flokkur karla byrjaði á Eyjarfjarðarhring áður en farið var í Víkurskarðið og líkt og í kvennaflokki átti Víkurskarðið eftir að sía út marga úr fyrsta hóp. Ingvar Ómarsson fór yfir þróun keppninnar á facebook síðu sinni en þar lýsir hann því hvernig tvær árásir Stefáns Orra Ragnarssonar hafi þynnt hópinn töluvert við Víkurskarðið. Einungis voru því 6 hjólarar eftir í fyrsta hóp eftir Víkurskarðið, þeir Ingvar Ómarsson og Hafsteinn Ægir úr Erninum-Trek, Óskar Ómarsson og Birkir Snær úr Airport Direct og svo Stefán Orri og Eyjólfur Guðgeirsson. Óskar og Hafsteinn bjuggu til nýtt bil á niðurleiðinni í Fnjóskadalinn, bil sem Ingvar og Birkir gátu brúað upp Fljótsheiðina. Fremsti hópur var því orðinn fjögurra manna fyrir síðasta klifrið á Hvammaveginu, þar sem Ingvar náði loks að setja nokkrar sekúndur á Birki, bil sem dugði honum heim í mark. Birkir kom því annar í mark og Óskar Ómarsson þriðji.

Íslandsmeistaramót í Downhill

Fyrsta Íslandsmeistaramót ársins í hjólreiðum fór fram á laugardaginn í fjallabrunbrautinni í Úlfarsfelli. Samtals tóku 35 þátt, en í elite flokki karla var það Gestur Jónsson úr Brettafélagi Hafnarfjarðar sem landaði sigri og var tæplega hálfri sekúndu á undan Bjarka Sigurssyni í HFA. Bjarki Jóhannsson, einnig úr HFA , var svo í þriðja sæti.

Í kvennaflokki var Emilia Niewada úr HFA í fyrsta sæti og var Katarína Eik Sigurjónsdóttir, úr BFH, önnur.

Crit – Bikarmót #2

Annað Crit bikarmótið fór fram á Völlunum í Hafnarfirði um helgina. Eins og venjulega er það Bjartur sem stendur á bak við mótaröðina. 64 voru samtals skráðir til leiks að þessu sinni.

Hörður Ragnarsson tók þetta skemmtilega myndband saman frá keppninni.

Í kvennaflokki var það Elín Björg Björnsdóttir úr Tindi sem bar sigur úr bítum, en hún hefur hingað til verið þekktari fyrir árangur í fjallabruni og enduro. Í ár hefur hún þó tekið þátt í crit mótunum og tímatöku og náði í þetta skiptið gullinu, en Ágústa Edda Björnsdóttir varð önnur. Rannveig Anna Guicharnaud varð svo þriðja

Í karlaflokki tók Eyjólfur Guðgeirsson gullið eftir sprett við þá Kristófer Gunnlaugsson og Óskar Ómarsson sem komu annar og þriðji. Þrír aðrir voru í lokasprettnum auk þeirra.

Framundan

Fyrir utan Drangeyjarmótið sem verður nú um helgina og við höfum þegar sagt frá á Hjólafréttum, verður bikarmót #3 í Crit mótaröðinni næsta þriðjudag.

Laugardaginn 11. júlí fer svo fram stóra almenningsmótið KIA Gullhringurinn, en það hefur fyrir löngu fest sig í sessi sem eitt af stórmótum ársins. Þegar eru á fjórða hundrað keppendur skráðir til leiks, en mótið fer sem fyrr fram í nágrenni við Laugavatn. Fullkomin kvöldstund í uppsveitum Suðurlands.

Annað

Reykjavíkurborg hélt fund í síðustu viku vegna rammaskipulagsvinnu um útivistarsvæðið sem kallað er Austurheiðar (meðal annars þekkt fyrir Vöfflumixið hennar Maríu Agnar)

Þetta svæði er notað fyrir hestafólk, hjólafólk, göngu, ferðaþjónustu, fisflug og gönguskíði svo eitthvað sé nefnt.

Hægt er að horfa á upptöku af fundinum hér fyrir neðan, auk þess sem hér eru nokkrir linkar:

Upplýsingavefur um svæðið
Frétt um fundinn
Tillaga um landmótun Austurheiðar

Previous Article
Next Article

Leave a Reply

Hjólafréttir

Markmið hjólafrétta er að auka veg og vanda hjólreiða sem sports og samgöngumáta. Við vonum að þú lesandi góður hafir gagn og gaman af lestrinum. Um vefinn.

Samstarfsaðilar