Ingvar ræsir í dag – Veðrið gæti orðið áhrifavaldur í dag
Ingvar Ómarsson, Íslands- og bikarmeistari í tímatöku í götuhjólreiðum, hefur leik á heimsmeistaramótinu í götuhjólreiðum í Imola á Ítalíu klukkan rúmlega 1 í dag. Hann ræddi í morgun við Hjólafréttir um verkefnið framundan.
Í tímatöku er einn ræstur í einu og keppir við klukkuna. Í gær var tímatökukeppni kvenna þar sem þær Margrét Pálsdóttir og Ágústa Edda Björnsdóttir tóku þátt. Á morgun og sunnudaginn fara svo fram hefðbundnar götuhjólakeppnir, þar sem ræst er í einum stórum hóp og keppnin gengur út á sæti frekar en einstaka tíma.
„Stemningin er góð, afslöppuð,“ segir Ingvar fyrst þegar hann er spurður hvernig honum líði.
Brjálað rok úti
Ljóst er að veður gæti haft talsverð áhrif á keppnina í dag, en Ingvar segir í raun brjálað rok úti. „Það var vindur í gær, en það er miklu meira í dag,“ segir hann og bætir við að gefin hafi verið út appelsínugul viðvörun vegna roks. Þetta muni væntanlega hafa áhrif á öryggi í brautinni og þar af leiðandi á hraða keppenda.
Eins og í gær verður að öllum líkindum mótvindur fyrri hluta brautarinnar út að snúningi, en svo blússandi meðvindur til baka.
Býst við allt að 70 km á leiðinni til baka
Ingvar segir að hann búist við að á bakaleiðinni, sem sé líka aðeins undan fæti, megi búast við allt að 70 km/klst hraða hjá keppendum, á meðan meðalhraði út eftir verði líklega ekki nema helmingur þess, eða þrjátíu og eitthvað kílómetra hraði.
„Ég er ekki viss hversu stemmdur ég er í 70 kílómetra hraða,“ segir Ingvar, en í lok þess hluta brautarinnar kemur tæknilegi kaflinn sem liggur að Imola kappakstursbrautinni og svo tæknilegir kaflar á brautinni sjálfri. Rétt fyrir brautina er meðal annars beygjan þar sem Chloe Dygart, fyrrverandi heimsmeistari, fór út af í gær.
„En á móti veltir maður fyrir sér hversu góðir hinir eru í þessum aðstæðum,“ segir hann. Í tímatöku er sem fyrr segir einn ræstur í einu og segir Ingvar að í slíkri keppni geti veður haft enn meiri áhrif en í keppnum þegar hópræsing sé. Þannig geti veðrið verið talsvert öðruvísi hjá fyrsta keppenda en hjá síðasta keppenda, en bestu keppendurnir eru venjulega ræstir síðastir. „Þetta gæti haft áhrif á morgun,“ segir Ingvar.
Undir 40 mín og topp 30 væri draumur
Hjólafréttir ræddu við Ingvar fyrr í vikunni áður en ljóst varð að veðrið gæti orðið mikill áhrifavaldur og þá talaði hann um að innst inni væri hann með markmið að ná að vera á undir 40 mínútur með þessa 31,7 km. Þá væri draumur að ná að vera í topp 30, en samtals ræsa 57 keppendur á eftir.
Ingvar segir að þetta sé enn markmið hjá sér og draumur, en að það verði að ráðast af aðstæðum. „Maður fer örugglega hægara í dag en maður hefði farið í gær, en maður getur enn stefnt á þetta,“ segir hann. „Topp 30 væri alveg ruglað gott, mér myndi líða eins og ég hefði unnið þetta,“ segir hann og hlær.
Varðandi Wattatölur segir Ingvar að hann stefni 100% á að halda 390W að meðaltali. Það myndi jafna Íslandsmótið fyrr í haust. Hins vegar er þetta nokuð önnur braut en þá, bæði tæknilegri beygjur og meiri brekkur, þannig að búast má við að hraðinn verði ójafnari og meira um að gefa þurfi í. Ingvar segir það reyndar eiga að spila með sér, enda hafi hans æfingar alla jafna miðað í þá átt þar sem hann sé í grunninn fjallahjólreiðamaður og búi yfir miklum sprengikrafti frekar en endilega að hafa æft jafnan hraða.
Ingvar mun hefja leik klukkan 13:01:30 að íslenskum tíma og má fylgjast með útsendingunni hér.