Vöfflumix á Hólmsheiði í boði Maríu Agnar

Fjallahjólreiðar og hjólreiðar utan malbiks vaxa í vinsældum ár hvert. Fyrir marga byrjendur getur verið þreytandi að fara alltaf sömu leiðina og þekkja ekki til hvar sé að finna frábæra stíga í fallegu umhverfi. Hjólafréttir heyrðu í nokkrum af reyndari fjallahjólurum landsins og fengum þá til að segja frá sínum uppáhalds leiðum og verða þær greinar birtar á næstu vikum. Leiðunum fylgja linkar á Strava route en þar má hlaða niður leiðunum til að setja á hjólatölvuna.

Fyrsta leiðin er Vöfflumix Maríu Agnar Guðmundsdóttur og er hún þægilega löng, 17,5 km samtals og  innan borgarinnar, þ.e. upp á Hólmsheiði.

Nafn: Vöfflumix Maríu Agnar
Lengd: 17,5 km.
Staðsetning: Hólmsheiði
Erfiðleikastig: 2 / 5
Strava Route: https://www.strava.com/routes/10988899 

Uppáhalds fjallahjólaleið Maríu Agnar Guðmundsdóttur segir hún að sé í bakgarðinum sínum upp á Hólmsheiði (María er ekki í fangelsinu). Leiðin er 17,5 km langur hringur sem er með svipuðu undirlagi og Vinstri hringur í Heiðmörkinni. Reglulega koma þó inn grófir grjótakafla, þröngir stígar og snarpar stuttar brekkur. Þetta er leið sem allir komast á hvaða fjallahjóli sem er.

„Uppáhaldið mitt í hjólreiðum eru svo algjörlega cross country fjallahjólreiðar, love it! Ég bý í Grafarholtinu og Hólmsheiðin er bakgarðurinn minn, ég bjó Vöfflumixið til fyrir 3+ árum en það er ákveðin 18 km cross country leið sem sýnir þér allt það besta á Hólmsheiðinni en þú ferð aldrei sama stíginn og átt ekki á hættu að fá einhvern á móti þér ef allir hjóla í sömu átt. 

Sagan á bak við nafn leiðarinnar er einnig nokkuð skemmtileg, en fyrst átti leiðin að heita allt annað. Eða eins og María sjálf lýsir: Fyrst þegar ég bjó leiðina til þá kallaði ég hana Naríuna, í höfuðið á mér því ef þú tekur eitt strik af M í María, þá stendur eftir Naría. Félagi minn var þó snöggur að búa til segment á leiðinni sem hann skírði ýmsum nærbuxnaheitum.

Sé leiðin skoðuð á Strava má þar sjá að segmentarnir heita m.a. hinum skemmtilegu nöfnum  Síðbrókin, Brókarbrunið, G-strengurinn, Calvin Klein osfv..

Haustið 2017 bauð ég öllum sem vildu með mér í samhjól um Hólmsheiðina, að hjóla Naríuna, langaði að fólk myndi uppgötva þetta geggjaða svæði sem ég hitti aldrei neinn á. Ég ætlaði að merkja leiðina með hveiti en átti bara tvo dunka af Vöfflumixi þannig að ég hjólaði leiðina snemma um morguninn og merkti hana með Vöfflumixi áður en ég hjólaði hana síðan með hópinn. Þar með fékk þessi ákveðna leið mín nafnið Vöfflumix.

Fyrir þá sem vilja, er hægt að lengja leiðina sem María gerir oft, en þá talar hún um að bæta við sultu og rjóma inn í Vöfflumixið, en sultan er ákveðin fjallahjóla leið í kring um Úlfarsfellið og rjóminn er að hjóla upp og niður Úlfarsfellið og klára svo Vöfflumixið eftir það.

Previous Article
Next Article

Leave a Reply

Hjólafréttir

Markmið hjólafrétta er að auka veg og vanda hjólreiða sem sports og samgöngumáta. Við vonum að þú lesandi góður hafir gagn og gaman af lestrinum. Um vefinn.

Samstarfsaðilar