„All in í gravel í ár“
María Ögn Guðmundsdóttir er ein þekktasta hjólreiðakona landsins, enda er varla til sá geiri hjólreiða sem hún hefur ekki komið nálægt, hvort sem það er við þjálfun, keppni eða að beita sér í umræðu um samgönguhjólreiðar og reglugerðir. Eftir að hafa verið framarlega í flestum keppnum í góðan tíma tók hún að eigin sögn ákvörðun fyrir fjórum árum að taka keppnispásu. Það má reyndar deila um hvort hún hafi alveg verið í pásu, en hún hefur á þessu tímabili engu að síður náð nokkrum Íslandsmeistaratitlum og er meðal annars núverandi Íslandsmeistari í tveimur greinum. Nú er hins vegar komið að vatnaskilum hjá henni og hefur hún æft á fullu frá því í haust og stefnir á stór markmið á þessu ári og því næsta.
Hjólafréttir halda áfram að ræða við hjólreiðafólk í fremstu röð um markmið og plön þeirra fyrir komandi sumar. María er núverandi Íslandsmeistari í ólympískum fjallahjólreiðum (XCO) og cyclocross og var Íslandsmeistari í maraþon og ólympískum fjallahjólreiðum árið áður.
Síðustu fjögur ár farið í þjálfun
„Fyrir fjórum árum tók ég ákvörðun um að sleppa að keppa, en þá veiktist ég illa. Ég stýrði mér í að taka keppnispásu og fór að setja markmið og krafta í þjálfun,“ segir María og bætir við að það hafi verið andlega erfitt að taka þessa ákvörðun, enda hafi hún þarna verið í fremstu röð í nokkur ár á undan. Á þessu tímabili varð hún einnig ófrísk og eignaðist barn með manninum sínum og hjólreiðakappanum Hafsteini Geir Ægissyni.
Hún segist hafa ætlað að jafna sig fljótt á þessu tímabili, en þá hafi einnig risið upp metnaðurinn í þjálfuninni. Um tveimur árum áður hafði hún byrjað að þjálfa, fyrst í Erninum og svo í Crossfit Reykjavík, en síðustu fjögur ár hefur hún verið með eigin þjálfun undir merkjum Hjólaþjálfunar ásamt Hafsteini.
Þjálfa nokkur hundruð á hverju ári
Yfir vetrartímann hafa þau verið að þjálfa um 200 manns, en við það bætast fyrirlestrar hjá fyrirtækjum, stofnunum og á ráðstefnum, útiþjálfun yfir sumarið o.fl. „Við snertum á svakalega mörgum yfir árið,“ segir María og segir næstum ómögulegt að setja beina tölu á hvað margir fái þjálfun að einhverju leyti hjá Hjólaþjálfun á hverju ári. Þá hafa þau Hafsteinn séð um tvær hjólaferðir á ári, eina að hausti og hina að vori, síðustu fimm ár, en í það eru nokkrir tugir sem mæta á hverju ári í slíkar ferðir. Til viðbótar við þetta hefur hún verið einskonar ráðgjafi hjá Samgöngustofu varðandi fræðslu og reglugerðarmál þegar kemur að málefnum hjólreiða og öryggisatriða. Hún segir það þó allt vera í sjálfboðavinnu, en að hún hafi viljað koma að þeirri vinnu, enda sjálf komið ítarlega að því að þjálfa mikinn fjölda fólks upp í hjólreiðum, bæði færni og til að keppa.
Komið að vatnaskilum og margt spennandi framundan
„Síðustu fjögur ár, ég hef mikið verið að þjálfa aðra, en ekki ná að sinna sjálfri mér. Allur tíminn hefur farið í þjálfun, en það hefur verið mjög gaman,“ segir María. Í fyrra hafi þetta svo aðeins breyst þegar hún hafi ákveðið að koma sér í form fyrir malarhjólreiðakeppnina The Rift. Samhliða því segist hún hafa sett sér markmið fyrir árið 2020 og sé að æfa mjög vel fyrir komandi tímabil. „Ég er mjög spennt fyrir árinu, marg skemmtilegt í bígerð,“ segir María og eftirvæntingin leynir sér ekki.
Fimm stórar malarkeppnir á árinu
„Ég hef sett mér ákveðin markmið varðandi það sé ætla að keppa í, en svo þarf vinnan fjölskyldan að ganga fyrir varðandi annað,“ segir hún. Það er heldur ekkert lítið sem hún ætlar að demba sér út í. „Ég ætla að keppa í fimm gravel keppnum, fjórum erlendis og svo Riftið hér á Íslandi. Ákvað að stökkva eiginlega á stærstu keppnirnar,“ segir hún.
Fyrsta keppnin sem hún ætlar í er núna í apríl, en það er Dirty Reiver, 200 km malarkeppni á mörkum Englands og Skotlands. Næst er það drottningin sjálf, Dirty Kanza, en þar áformar María að fara 200 mílur (321 km) í maí. Keppnin er ein stærsta malarkeppni ársins og líklega sú þekktasta. Í júlí er svo komið að Riftinu hér á Íslandi, 200 km um Fjallabak og 16. ágúst er það Steamboat Gravel í Colorado í ágúst. Er það 230 km keppni, en byrjar í 2200 m hæð og er krefjandi eftir því að sögn Maríu. Helgina eftir, eða 22. ágúst er svo komið að Gravel World í Nebraska, en það er óformlegt heimsmeistaramót í malarhjólreiðum. Brautin er 240 km.
„Ég er all in í gravel í ár,“ segir María og bætir við að auk þessara móta sé hún með örfá önnur verkefni á teikniborðinu. „Þarf bara að sjá til hvað það er mikið til af seðlum í veskinu fyrst,“ segir hún skellihlægjandi.
Þarf að gefa Íslandsmeistaratitilinn eftir
Hún segir að raunar hafi tímabilið hennar byrjað strax í október þegar hún náði Íslandsmeistaratitlinum í cyclocross og svo hafi hún viljað reyna að krækja líka í titilinn í maraþon (xcm) og ólympískum fjallahjólreiðum (xco). Það er hins vegar óvíst hvort hún nái þeim mótum. Þegar þetta er skrifað er enn óvíst hvenær Íslandsmótið í xcm verður og Íslandsmótið í xco verður á Akureyri, rúmlega 12 klst áður en ræsing er í Riftinu. „Ég er mjög svekkt yfir því. Uppáhaldið mitt eru ólympískar, en ég ætla að velja Riftið. Verð því að skila bikarnum án þess að ná að reyna við hann,“ segir María.
„Brjálæðislega spennt að taka stöðuna á því hvar ég stend “
Miðað við þær malarkeppnir sem María ætlar að taka þátt í er ljóst að hún verður að keppa við allar helstu malarhjólreiðastjörnur heims. „Ég er brjálæðislega spennt að taka stöðuna á því hvar ég stend miðað við þessar stelpur,“ segir María. Hún segist fara svolítið blint í keppnirnar, en sé þó byrjuð að kynna sér helstu keppinautana. „Það verður gaman að sjá hvar maður stendur og svo veit maður ekki hvort það komi einhverjar stelpur úr götuhjólreiðunumo g hoppi inn. En ég hef á tilfinningu fyrir því að ég eigi eftir að standa mig og legg upp með það,“ segir María og ljóst er að keppnisskapið er heldur betur til staðar.
Ætlar ekki að elta neinn, heldur hjóla út frá wöttum og púls
Þegar kemur að keppnisáætlunum í svona löngum keppnum segir María að hún ætli sér ekki að reyna að halda í neinn sérstakan, heldur treysta á eigið form og hvernig hún stýri því. Hún tekur fram að hiti, hæð og aðrar hliðarbreytur geti auðvitað spilað stóran þátt, en þess fyrir utan horfi hún til þess að hjóla eftir wöttum og læra betur inn á púlsinn til viðbótar við að undirbúa sig vel varðandi næringarinntöku. „Ég treysti á að þó einhver fari fram úr mér þá séu þetta langar keppnir, jafnvel yfir 12 klst, og ég eigi inni á seinni partinum. Ég er alveg nógu mikil keppnismanneskja svo ég sé ekki að fara í einhvern rúllrúnt og mun halda dampi ef ég fer eftir sjálfri mér og treysti á það,“ segir hún.
Hún segist alla tíð hafa verið meira fyrir fjallahjólamennsku en götuhjólreiðar og sé núna að færa sig yfir í þann hluta. Þegar kemur að malarhjólreiðum er venjulega um að ræða lengri keppnir en hefðbundnar fjallahjólakeppnir eða götuhjólakeppnir, en María segist hafa verið dugleg í lengri vegalengdum og að vera lengi á hjólinu. „Svo hef ég hjólað á Z2 í fjögur ár, ætti að vera góð í þessu,“ segir hún kímin.
Andlega þjálfunin ekki síður mikilvæg
Eftir að hafa sett inn langar æfingar í haust segist hún núna vera komin í minni tíma en hærra álag og meiri gæði í æfingum. Til viðbótar segist hún hafa lagt mikla áherslu á andlega þjálfun og að þjálfa hausinn meðan hún sé á æfingum. Hún hafi þar grunn úr sálfræðinni, en þegar keppnir taki svona langan tíma þurfi andlega hliðin ekki að vera síðri en sú líkamlega.
Horfir til BLC en sleppir götuhjólreiðum
Spurð út í aðrar keppnir í sumar segir María að á eftir þessum fimm stóru malarkeppnum horfi hún til Bláa lóns þrautarinnar, auk þess sem hún muni taka stöðuna á öðrum keppnum þegar líði á sumarið. Hún segist þó aðallega vera að horfa til fjallahjólreiða- og malarkeppna. „Ég geri ekki ráð fyrir að ég sé að fara í götuhjólreiðarnar í sumar,“ segir hún. „Ég mæti í bikarkeppnirnar [fjallahjólreiða] ef það passar. En ég ætla ekki að stefna á bikartitil eða annað slíkt,“ segir hún.
Þannig segir María að mikilvægt sé að vera skynsamur eftir stórar keppnir eins og hún stefni á. Passa þurfi að koma líkamanum rétt út úr slíku álagi. Aðrar keppnir muni því að miklu ráðast af því hvernig recovery sé og tímasetningum. Þá þurfi auðvitað að púsla saman vinnunni við þjálfunina og fjölskyldulífinu og láta allt smella saman. Framundan sé hins vegar stór keppnisár og segist hún ætla að horfa til þess að sauma keppnisárið 2021 við þetta ár ef allt gangi að óskum.
One Reply to “„All in í gravel í ár“”