Er þetta flottasta hjólið á Íslandi?
Flestir láta sér nægja að fara inn í hjólaverslun þegar velja á draumahjólið. Aðrir sérpanta en sumir hjólaframleiðendur bjóða upp á að fá hjólið í sérstökum litum (t.d. frá TREK, Orbea). Sumir ganga lengra í að hafa draumahjólið fullkomið og panta carbon rammann ómálaðan og láta svo handmála hjólið.
Thomas Skov Jensen, yfirþjálfari Tinds í vetur og liðsmaður Airport Direct fór af stað í slíkt verkefni sl. haust. Undanfarin ár hefur Thomas hjólað á Python Pro hjóli (http://pythonpro.dk/), en Python er danskt hjólreiðafyrirtæki sem er með framleiðslu á carbon römmum í Taiwan. Danska hjólreiðaliðið BHS Bornholm, hjólar á Python hjólum í UCI Continental keppnum en Thomas valdi rammann, þar sem hann er hannaður með með eitt í huga, þ.e. hraða.
Til að geta handmálað hjólið þurfti Thomas að fá ramman ómálaðan og ólakkaðan en það er ekki auðsótt. Sem betur fer er Thomas í ágætis sambandi við eiganda Python sem sá til þess að rammanum yrði kippt ómáluðum úr framleiðslulínu fyrirtækisins í Taiwan, en einnig þurfti hann að fá ómálað stýri, stamma og sætispípu. Í heild tekur ferlið um sjö mánuði frá pöntun rammans þar til hægt er að vígja hjólið.
Treysti Iðunni fyrir hönnuninni
Hugmyndin að sérmálun á hjóli kviknaði eftir að hafa séð hjólaskó sem sérmálaðir voru fyrir Birki Snæ Ingvason af Iðunni Jónasardóttur. Iðunn hafði fengið þá hugmynd að prófa að mála skó og hjólaskó í lok sumars 2019 og án þess að hugsa þetta of lengi, hafði hún pantað fyrstu málningarvörurnar daginn eftir. Eftir að hafa prófað sig áfram á gömlum skóm og séð hversu góð útkoman var, var næsta verkefni að mála skó fyrir Birki Snæ núverandi íslandsmeistara í götuhjólreiðum.
Hugmyndin var að nota liti og línur úr búningi Airport Direct sem hannaður var af Herði Ragnarssyni ásamt fánalitum sem landsmeistarar bera í hjólreiðum. Þegar Ágústa Edda Björnsdóttir var á leið á HM2019 í hjólreiðum fékk hún einnig Iðunni til að mála skó fyrir sig en þeir voru málaðir í fánalitunum og merkjum Kríu, stuðningsaðila hennar.
Iðunn er með nokkur verkefni í pípunum sem munu koma á yfirborðið á næstu vikum.
„Allir skór sem ég geri eru handmálaðir og taka því mislangan tíma eftir flækjustigi og þess háttar. Ferlið getur tekið frá tveimur dögum og allt upp í tvær vikur.“ En sjá má myndir af verkefnum Iðunnar og panta á instagram síðunni @byidunn
„Stuttu eftir að ég gerði skóna fyrir Birki þá hafði Thomas samband með hugmynd um að mála hjól. Ég hef smávægis reynslu því að spreyja húsgögn og aðra smáhluti, en hafði aldrei tekið jafn veigamikið verkefni og heilt hjól að mér.“
„Hugmyndavinnan fór fram og tilbaka alveg fram að sjálfri vinnunni, en það eina sem var í raun ákveðið frá upphafi voru einhverskonar línur (e. linework) í stíl við WolfPack merki Airport Direct eftir Hörð Ragnarsson.“
Útfærsla og vinna var í höndum Iðunnar. Ekki var mögulega að nota stensla, þar sem erfitt var að vinna með þá og þeir límdust illa á hjólið. Því þurfti að líma fyrir öllum línum og skera út fyrir munstri, allt gert í höndunum. Þegar undirbúningur var klár, gekk málningarvinnan hratt fyrir sig og tókst að klára hana á einni helgi.
Verður vígt á Gran Canaria í mars
Verkefninu er þó ekki lokið, þar sem nú tekur við samsetning á hjólinu. Thomas mun hafa diskabremsur á hjólinu og Shimano Dura Ace groupset. Gjarðirnar verða frá Hunt Wheels og mun Thomas keyra á 28mm dekkjum. Hann ætlar sér að setja meirihlutann saman sjálfur og mun hjólið verða tilbúið í vígslu á Gran Canaria í mars. Thomas er ánægður með ferlið og útkomuna og segir að þau Iðunn séu strax komin með hugmyndir að næsta verkefni.