HM í Cyclocross um helgina

Fyrir áhugamenn um keppnishjólreiðar getur tímabilið frá nóvember til febrúar loka verið erfitt. Eftir Il Lombardia fer heimstúrinn og götuhjólatímabilið í dvala þar til Tour Down Under fer fram í Ástralíu í lok janúar ár hvert. Fyrir flesta er þó stóra biðin eftir vorkeppnunum (e. spring classics) sem fara fram í mar/apríl í Belgíu, Ítalía, Hollandi og Frakklandi.

Blessunarlega er hið frábæra cyclocross tímabil til staðar til að skemmta hjólreiðaþyrstum á meðan götuhjólreiðarnar eru í dvala. Það besta er að flestar útsendingar frá CX keppnum hafa verið ókeypis þar sem GCN racing hefur streymt frá keppnum á Youtube undanfarna mánuði. Dagana 1-2. febrúar fer svo fram stærsta keppni ársins í cyclocross, sjálf heimsmeistarakeppnin í Swiss. Hjólafréttir vilja að sjálfsögðu hvetja lesendur til að horfa á þennan viðburð, CX keppnir eru ekki langar og alltaf á fullu gasi.

Streymt verður frá keppninni á facebook síðu UCI (Sjá hér) en keppni í kvennaflokki verður kl 14 á laugardag, á íslenskum tíma. Keppni í karlaflokki verður svo á sunnudag kl 13:30 í Elite flokki karla. Á undan báðum þessum viðburðum fer fram keppni í u23 flokki.

En hvað er cyclocross ?

Þó mörg cyclocross hjól séu í umferð á Íslandi hefur lítið farið fyrir greininni innan keppnishjólreiðanna. Cyclocross fer fram á hjólum sem svipar til götuhjóla, en með breiðari dekkjum en á götuhjólum og mjórri dekkjum en á malarhjólum. UCI reglur segja 33mm dekk að hámarki í cyclocross keppnum. Cyclocross keppnir fara fram á stuttum brautum 2,5 – 3,5 km löngum þar sem hjólað er í um klukkustund. Landslagið getur verið fjölbreytt, möl, gras, mold, drulla, sandur en gjarnan þannig að hjólreiðamaður þarf að geta stokkið hratt af hjólinu og borið það yfir hindranir eða erfiða kafla, t.d. stuttar og brattar brekkur.

mvdp

Van Der Poel er sigurstranglegastur í karlaflokki

Þó keppnir ársins hafi verið skemmtilegar verður ekki sagt að þær hafi allar verið spennandi. Í karlaflokki hefur Mathieu Van Der Poel sýnt fáheyrða yfirburði, svo mikla að fréttnæmt þótti þegar hann lenti í öðru sæti á eftir Toon Aerts  í síðasta mánuði. Hafði MVdP þá ekki verið sigraður í CX keppni í 408 daga. Síðasta heimsbikarmót tímabilsins fór fram um síðustu helgi og ef marka má úrslitin verður að teljast ólíklegt að nokkur nái að veita MVdP harða samkeppni.

Einnig er líklegt að brautin muni vinna með MVdP. Svisslendingarnir munu bjóða upp á hraða braut með fáum hindrunum, mestmegnis flata og  mest verður hjólað á mold, grasi og stígum. Á slíkri braut verður mun auðveldara fyrir MVdP að slíta þegar honum hentar, og klára einn eins og hann hefur áður gert í vetur. Samkvæmt veðurspá gæti rignt en það gæti gert brautina tæknilegri yfirferðar.

Það mæta margir sterkir til leiks og því verður gaman að sjá hverjir ná að komast á verðlaunapallinn. Þar er lesendum meðal annars bent á að fylgjast með sterku liði Belga, og hvort þeir geti veitt MVdP og liði Hollands mótstöðu. Í Belgíska hópnum eru m.a. Toon Aerts og Eli Iserbyt sem hafa verið sterkir í vetur en þar er einnig Wout Van Aert, fyrrverandi heimsmeistari en hann er að jafna sig eftir alvarleg meiðsli sem hann hlaut í Tour De France og hefur notað cyclocross tímabilið til að hjóla sig í stand. Í Belgíska hópnum er einnig Quinten Hermans en hann mætti Ingvari Ómarssyni í Belgium MTB Challenge á síðasta ári. Fyrrum u23 meistarinn Thomas Pidcock frá Bretlandi er líka skráður til leiks en hann hefur verið sterkur á keppnum vetrarins.

Mikil spenna framundan í kvennaflokki

cant

Búast má við mikilli spennu í Elite flokki kvenna. Um síðustu helgi sigraði Lucinda Brand síðustu heimsbikarkeppni ársins en Annemarie Worst endaði sem heimsbikarmeistari, stigahæst á bikarröðinni. Töluverð dramatík varð þegar Ceylin del Carmen Alverado (Alpecin Fenix) féll af hjólinu seint í keppninni, en það varð til þess að hún varð ekki nógu stigahá til að enda sem heimsbikarmeistari.

elitekvk

Líkt og í karlaflokki, beinast augun að baráttu Belga og Hollendinga, en Brand, Worst og Alverado munu allar keppa fyrir Holland. Þær munu því reyna að skáka núverandi heimsmeistara, Sanne Cant sem keppir fyrir Belgíu. Hollenska liðið nýtur því miður ekki krafta Marianne Vos þetta árið, en heimsmeistarinn fyrrverandi er frá keppni um þessar mundir og glímir við meiðsli.

Previous Article
Next Article

Leave a Reply

Hjólafréttir

Markmið hjólafrétta er að auka veg og vanda hjólreiða sem sports og samgöngumáta. Við vonum að þú lesandi góður hafir gagn og gaman af lestrinum. Um vefinn.

Samstarfsaðilar