„Þarna horfði maður bara niður á malbikið og hjólaði“
Margrét Pálsdóttir var önnur þeirra Íslendinga sem tók þátt í tímatöku kvenna á heimsmeistaramótinu í götuhjólreiðum í Imola á Ítalíu á fimmtudaginn. Hnökrar með aflmælinn trufluðu hana frá upphafi í keppninni og þrátt fyrir tölurnar þar gefi til kynna að hún hafi verið langt frá sínu besta gefa hjartsláttartölur og upplifun í lokin það til kynna að Margrét hafi gefið allt sitt í keppnina. Í samtali við Hjólafréttir á föstudaginn fór hún yfir undirbúninginn fyrir þátttöku á heimsmeistaramótinu, dagskrá á keppnisdegi og hvernig tókst til.
En fyrst, hvernig líður Margréti eftir að hafa tekið þátt á stóra sviðinu? „Þetta var alveg ótrúlegt,“ segir hún og bætir við „Þetta var geggjuð upplifun, mig langar strax aftur.“
Mættu snemma og skoðuðu tæknilega kafla
Íslenski hópurinn flaug í gegnum Amsterdam til Zurich á sunnudaginn og þurfti svo að keyra í sex klukkustundir til Imola. Á mánudaginn var tímatökubrautin tékkuð, en Margrét segir að þau hafi verið með þeim fyrstu sem komu á svæðið. Allavega hafi þau aðeins séð örfáa keppendur. Rúlluðu þau brautina alla fyrir utan hlutann á Imola kappakstursbrautinni sem var lokuð fram á miðvikudag. Spottuðu þau meðal annars hvar tæknilegir kaflar voru og hvar þyrfti að passa sig. Margrét segir að meðal annars hafi þau strax tekið eftir brekkunni og beygjunni þar sem Chloe Dygert fór út af. „Það var mjög trikkí beygja,“ segir Margrét, en þar sem komið er niður brekku er hraðinn mikill.
Á þriðjudaginn var svo götuhjólabrautin farin. „Við fórum saman einn hring og það var algjört horror á tímatöku hjólinu,“ segir Margrét hlægjandi, en í brautinni eru tveir klifurkaflar sem eru nokkuð brattir. „Ég tók fyrsta klifrið standandi í léttasta gír og svo var niðurleiðin ekkert betri,“ segir hún og bætir við að á tímatökuhjólinu hafi hún sleppt síðara klifrinu.
Margrét skildi svo aðeins við hópinn og æfði síðasta kaflann aftur, en þar eru tvær 90 gráðu beygjur, tæknilegur kafli áður en komið er inn á kappakstursbrautina. Þegar hún ætlaði svo að finna hópinn aftur hafði Ágústa fallið á hjólinu og var farin upp á spítala til skoðunar, en það hafðist allt að lokum að sögn Margrétar.
„Þarna var allt liðið mætt“
Á miðvikudeginum var svo komið að því að skoða kappakstursbrautina. „Þá var ég orðin smá stressuð. Venjulega hvíli ég daginn fyrir keppni,“ segir Margrét, en þarna hafi verið nauðsynlegt að skoða aðstæður á kappakstursbrautinni.
„Þarna var allt liðið mætt og þarna sá maður stóru keppendurna á flottu hjólunum og maður fékk smá hnút í magann,“ segir hún. Annars hafi verið nokkuð hvasst á miðvikudaginn og það hafi verið nokkuð „scary“ að æfa þar enda mikið af kröppum beygjum á brautinni. „En við fórum 2-3 hringi og svo alla brautina einu sinni. Aðeins að skoða þetta betur og leggja á minnið hvar beygjurnar eru og hvar maður þarf að hægja á sér,“ segir Margrét. Þá hafi þau einnig prófað hvernig best væri að gíra sig upp og niður á ákveðnum köflum, í gegnum beygjur og upp brekkur.
Á miðvikudaginn var einnig lokahönd sett á dagskrá fyrir keppnisdaginn en Margrét segir að þær hafi verið búnar að skrifa niður allt sem þær ættu að gera þann dag, hvenær ætti að borða og drekka, hvað ætti að taka með og hvenær ætti að vera kominn á upphitunarsvæðið o.s.frv.
Keppnisdagurinn skipulagður frá A-Ö og aðstoðarmenn á kantinum
Á keppnisdag var vaknað snemma og svo klukkan 9:15 var á dagskránni að fá sér jógúrt. Klukkan 11 var það hafragrautur og smá electrolyte og klukkan 11:30 var farið með hjólin þeirra fyrir þær niður á upphitunarsvæði í tékk.
Ekki nóg með að hafa sett upp dagskrá fyrir allan daginn voru þær Ágústa einnig með aðstoðarmenn þennan daginn, því þær Hafdís Sigurðardóttir og Bríet Kristý Gunnarsdóttir, sem tóku þátt tveimur dögum síðar í götuhjólakeppninni, fylgdu þeim eftir og pössuðu vel upp á dagskránni væri fylgt. „Það minnkar stressið að hafa slíkt og var vel pro. Ég var búin að hugsa hvernig dagurinn yrði og svo að hafa einhvern sem elti mann og minnti á hvað ætti að gera og taka með,“ segir Margrét.
Ný styttist í keppnina og Margrét segir að hún hafi alveg fundið fyrir því. „Ég var orðin vel stressuð á þessum tíma. Ég vissi vel að maður væri ekki að fara að vinna neina stórsigra, en það var samt ákveðinn frammistöðukvíði. Umgjörðin þarna er svo mikil og maður er búinn að eyða tíma í að hugsa allar beygjurnar og svona. Maður spyr sig: Á þetta eftir að ganga?“ segir Margrét.
Í sama pitt og hollenska liðið
Þegar hún mætti á upphitunarsvæðið var þar trainer í boði, en upphitunarsvæðið eru pittirnir við formúlubrautina og deildu þau pitti með hollenska liðinu. Þegar á svæðið var komið fór Margrét að hita upp. „Strax og ég byrjaði að hjóla róaðist ég. Var komin í það sem maður þekkir.“ Þegar 20 mínútur voru í ræsingu fór hún svo í biðhólfið þar sem hjólið var aftur athugað. Þar var hægt að halda upphitun áfram á trainer og rúllum en Margrét segi rað hún hafi ekki viljað gera það, enda væri óþægilegt að setja hjólið á trainer fyrir 10 mínútur og vera þá í meira stressi yfir einhverju tæknilegu.
„Ég settist því niður og var að sjá fyrir mér brautina og hvernig ég færi í gegnum hana. Svo þegar maður er kominn upp á ræsingarpallinn þá er allt farið. Þá horfir maður bara á brautina og alveg komin í fókusinn.“
„Ég fann strax að það var eitthvað aðeins off“
Fljótlega eftir að farið er af stað koma tvær nítíu gráðu beygjur og svo er haldið af stað eftir nokkuð beinni braut. Það var þó eitthvað sem var ekki alveg eins og það átti að vera. „Ég fann strax að það var eitthvað aðeins off. Ég náði ekki að halda wöttunum sem ég ætlaði og fékk smá panic þá,“ segir Margrét. „Ég var að ströggla í 200 wöttum og var í byrjun að hanga í 180-200 wöttum. Það er ekki eðlilegt,“ segir hún. Fyrstu kílómetrarnir fóru því í smá panic. „Er ég gjörsamlega að skíta á mig í dag, er það hitinn eða klúðraði ég einhverju í upphitun,“ segir Margrét að hún hafi spurt sig að, en hún hafði áætlað út frá fyrri árangri að geta haldið um 240 wöttum.
Eftir nokkra km og þegar hún sér að hjartslátturinn er þar sem hann á að vera þá kemst hún á þá skoðun að mælirinn sé ekki að virka sem skildi. Segir hún að líðan hennar á hjólinu, áreynsla o.fl. hafi allt bent til þess að hún væri nær eðlilegum wattatölum en 180-200w. Þetta hafi samt truflað hana umtalsvert enda hafi hugsunin að hún væri ekki að gera sitt allra besta leitað ítrekað á hana í keppninni. „Og það er það eina sem maður vill ná út úr svona keppni.“
Á leiðinni út eftir í brautinni var vindurinn í fangið, en eftir snúninginn var vindurinn kominn í bakið. Þá segir Margrét að hún hafi farið að fíla sig betur og sætt sig við að wattatölurnar væru í ruglinu. Baka leiðin gekk vel að brekkunni fyrir Imola. Þar er farið í gegnum hringtorg og upp nokkuð bratta brekku. Þar hafði hún æft og ætlað að skipta fyrir brekkuna niður á neðra tannhjólið til að halda snúningi upp. Það klikkaði og því hélt hún sig á efra tannhjólinu, en lækkaði að aftan og keyrði standandi upp brekkuna til að byrja með. Svo var komið að brekku upp að kappakstursbrautinni sem hafi einnig gengið vel, en einnig er þar í kjölfarið talsvert um beygjur, sem ekki eru sterkast hlið Margrétar. Hún sagði samt skemmtilegt að fá að koma inn á svona braut. Beygjurnar væru erfiðar, en malbikið væri geggjað og vegurinn breiður.
Algjört spennufall í markinu
Margrét kom að lokum í mark í 46. sæti, 9:39 á eftir Önnu van der Breggen frá Hollandi sem var fyrst. Það er ágætt að hafa í huga að þarna eru bestu hjólreiðakonur heimsins mættar og vel flestar hafa að atvinnu að keppa og hafa frá unga aldri æft og keppt á meðal hinna bestu í heiminum.
Eftir að komið var í mark var algjört spennufall að sögn Margrétar. „Ég stóð varla í lappirnar fyrst. Það var reyndar góðs viti. Ég kláraði mig alveg og það er staðfesting á að mælirinn var í rugli,“ segir hún.
Margrét segir að fyrir utan að hafa fengið tækifæri að keppa meðal þeirra bestu hafi það verið frábær tilfinning að vera á lokaðri braut þar sem engir bílar voru. Hægt hafi verið að nýta allan veginn til að skera beygjur o.s.frv. „Þarna horfði maður bara niður á malbikið og hjólaði.“ Þá hafi starfsmenn verið á hættulegum stöðum og veifað flöggum og flautað þannig að hægt væri að passa sig á að hægja vel á.
Hún segir leiðinlegt að hafa ekki raunhæfar tölur eftir keppnina til að skoða og miða við keppnirnar á Íslandi og líka samkeppnina sem var þarna úti. Þó það séu ljósár á milli hennar og Ágústu og svo þeirra sem voru alveg í efstu sætunum, þá væri ekkert mjög langt niður á næstu sem voru fyrir ofan þær á listanum. Margrét segir að tæknin hamli henni einnig nokkuð. Þær sem séu mun sterkari hafi einnig mun betri tækni og græði mikið á því.
Væri gaman að sjá guidelines frá HRÍ fyrir komandi HM
Eins og fyrr segir segist Margrét strax eftir keppnina hafa orðið spennt fyri rað fara aftur ef hún næði einnig góðum árangri heima á næsta ári. „En það væri gaman að sjá HRÍ setja guidelines hverjir fái að fara og hvort eigi að stefna að því að fara á hverju ári. Þannig að fólk geti sett þetta sem markmið,“ segir Margrét.