Staðreyndir í stóra löggumálinu

Lögreglan á höfuðborgarsvæðinu deildi í morgun færslu á Facebook-síðu sinni sem hefur vakið gríðarlega mikil viðbrögð. Deilir lögreglan þar mynd sem hún fékk senda frá ökumanni sem ók Eiðsgrandann og var fyrir aftan hjólreiðafólk. Spurt er hvort löglegt sé að hjóla á miðri götu og valda umferðartöfum á vegi þar sem 50 km/klst hámarkshraði er leyfður.

Færslan umdeilda sem lögreglan deildi.

Lögreglan svarar því svo til að það sé ekki leyft og í athugasemdum sem fylgja fljúga fjölmörg fúkyrðin út í hjólreiðafólk og í raun má segja að þar birtist það mikla hatur sem hjólreiðafólk finnur oft fyrir frá þeim sem það deilir umferðarými með.

Komið hefur fram mikil gagnrýni á framsetningu og túlkun lögreglunnar út frá þessari mynd  og eru hér tekin saman helstu atriðin í málinu.

  • Fólkið á myndinni er keppnisfólk í hjólreiðum og samkvæmt GPS gögnum hjólar það Eiðsgrandann á 44 km/klst hraða. Á þessum punkti sem þarna er tekinn er það líklega á um 49 km/klst hraða. eins og áður kom fram er hámarkshraði þarna 50 km/klst og hjólreiðafólkið því á umferðahraða.
  • Lögreglan tiltekur sérstaklega í athugasemd sinni að það sem geri þetta bannað sé að „hjóla á miðri akrein“, en í umferðalögum, 42. grein, kemur fram að „Hjólreiðamaður skal að jafnaði hjóla í akstursstefnu á hjólastíg eða hjólarein eða hægra megin á akrein þeirri sem lengst er til hægri á akbraut sem er ætluð almennri umferð.”
  • Vert er að benda á að í lagatextanum hér að ofan stendur “að jafnaði” en ekki að bannað sé að gera annað. Miðað við aðstæður er því um mjög þrönga eða einfalda ranga túlkun lögreglunnar að ræða halda því fram að umrædd hegðun sé bönnuð.
  • Í umferðalögum, 23. grein er  tiltekið að 1,5 m skuli vera að lágmarki milli bifreiðar sem tekur fram úr og reiðhjóls. Á myndinni má sjá að framundan er þrenging. Ómögulegt væri þar að taka fram úr nema að brjóta þessa reglu og stefna hjólreiðafólkinu í hættu.
  • Líkt og lögreglan hefur sjálf bent á í myndböndum um hjólreiðar í umferðinni er rétt fyrir hjólreiðafólk að taka ríkjandi stöðu við ýmiss tækifæri þar sem hættulegt getur verið að vera á hægri akrein eða að gefa kost á framúrakstri.
  • Talsverðar framkvæmdir hafa verið á hjólastígnum við Eiðsgrandann eftir mikinn veðurofsa á síðasta ári og var hluti stígsins blandaður. Ítrekað hafa komið athugasemdir frá gangandi vegfarendum þar sem óskað er eftir því að hjólreiðafólk sé ekki á miklum hraða á blönduðum stígum. Það að hjólreiðafólk sem er á 40 km/klst+ færi sig yfir á göturnar er því ákveðið öryggisatriði.
  • Af ummælum við Facebook færslu lögreglunnar mætti ráða að flest hjólreiðafólk sé klætt í latex. Undirritaður hefur enn ekki rekist á hjólreiðafólk í latex-galla, en marga í spandexi.

Umferðalög

Previous Article
Next Article

One Reply to “Staðreyndir í stóra löggumálinu”

Comments are closed.

Hjólafréttir

Markmið hjólafrétta er að auka veg og vanda hjólreiða sem sports og samgöngumáta. Við vonum að þú lesandi góður hafir gagn og gaman af lestrinum. Um vefinn.

Samstarfsaðilar