Stefnir á 40 mót á árinu, þar af 16 erlendis

Ingvar Ómarsson hefur undanfarin ár verið fremsti hjólreiðamaður Íslands og sá eini sem hefur reglulega keppt á erlendum mótum og getur flokkast sem atvinnumaður. Hann keppir í nánast öllum greinum og er framarlega á Íslandi í þeim flestum. Á komandi keppnisári verður árangur í erlendum fjallahjólakeppnum hans helsta markmið, en til viðbótar koma götuhjólakeppnir, tímataka, fjallahjólreiðar og fleira hér heima. Þá stefnir hann einnig á þátttöku í nokkrum öðrum mótum erlendis. Stærsta áskorunin verður líklega þátttaka í 9 daga fjöldaga fjallahjólamaraþon keppni á Spáni, en þetta er lengsta slíka keppnin sem er í boði í heiminum.

Ingvar er núverandi Íslandsmeistari í ólympískum fjallahjólreiðum, maraþon fjallahjólreiðum, tímatöku og cyclocross. Þá varð hann í öðru sæti á Íslandsmótinu í götuhjólreiðum og þurfti að sjá á eftir þeim titli til Birkis Snæs Ingvasonar.

Ingvar ætlar að taka þátt í 16 erlendum keppnum á árinu, þar af 13 UCI mótum.

Færir sig til innan fjallahjólreiðanna

Síðustu ár hafa fjallahjólreiðarnar verið fremst á dagskrá hjá Ingvari, hvort sem það eru ólympískar keppnir (styttri keppnir með stuttum hringjum) eða í maraþon keppnum (lengri vegalengdir og minna tæknilegar). Hann segir að erlendu fjallahjólakeppnirnar verði áfram í forgrunni, en hann hafi á síðustu árum gefið sér góðan tíma til að finna hvar hans helstu styrkleikar liggi og í fyrra hafi það komið vel í ljós. „Ég er betri í lengri keppnum og skilaði góðum árangri í nokkrum fjöldægra keppnum,“ segir hann við Hjólafréttir.

Í þessu ljósi ætlar hann í auknum mæli að horfa til maraþon keppnanna og fjöldægra keppna. „Þegar maður setur allan tíma og peninga í þetta sport er gott að fá nokkra daga í staðinn fyrir 60 mínútur og vera jafnvel hringaður út. Það er gaman að fá að klára og það er ekki hægt að hringa mann í maraþon keppunum,“ segir Ingvar.

9 daga fjallahjólakeppni á Spáni

Samtals ætlar Ingvar sér að taka þátt í 40 keppnum á árinu, þar af 16 erlendis og af þeim 13 UCI keppnum. Hann segir tímabilið hefjast strax núna í febrúar og klárast 11. október. Samtals er þetta því orðið 9 mánaða keppnistímabil hjá honum, þó einhverjir mánuðir séu rólegri en aðrir.

Meðal helstu erlendu keppnanna sem Ingvar stefnir á eru:

  • Belgian mountainbike challege – Fjögurra daga fjallahjóla maraþong í Belgíu dagana 7-10 maí.
  • Dirty Kanza 100  – 100 mílna malarkeppni í Kansas í Bandaríkjunum 30. maí.
  • Evrópumeistaramót í maraþon fjallahjólreiðum – Spánn 27. júní
  • MMR Asturias Bike race – Fjögurra daga fjallahjóla maraþon keppni á Spáni 2-5. júlí
  • Espana Bike Race – Ný fjöldægra fjallahjóla maraþon keppni á Spáni 3-11. október. Níu dagar, þar af átta keppnisdagar gerir þetta að lengstu svona keppni í heimi.
Brekkurnar taka vel á.

Ingvar tók þátt í Belgian mountainbike challenge í fyrra og gekk þar ágætlega og segist hann spenntur að skella sér þangað aftur. Þá tók hann þátt í Dirty Kanza 200 keppninni í fyrra, en það er 200 mílna keppni sem teygist yfir einn sólarhring. Þrátt fyrir að hafa klárað sagðist Ingvar hafa lent á vegg í þeirri keppni, sérstaklega vegna hitans yfir daginn. „Ég er búinn að prófa hitt, var gaman en mér finnst ég ekki þurfa að gera það aftur og velti því fyrir mér hvort ég geti staðið mig betur í 100 mílna vegalengdinni,“ segir Ingvar og bætir við að kosturinn við hana sé að þá sé hann kominn í mark fyrir hádegi og þar með sleppi hann við hita og sólina að mestu.

Vill ná RR bikarnum aftur

Varðandi keppnirnar heima segir hann að markmiðið sé að ná eins mörgum titlum og hann mögulega geti. „Markmiðið er að ná Íslandsmeistaratitlinum í götuhjólreiðum aftur,“ segir Ingvar. „Það er erfiðasta titillinn að vinna hér heima.“ Vísar hann til þess að í fjallahjólreiðum og cyclocross hafi krafturinn og styrkur einstaka hjólara mest að segja. „En í götukeppnunum er þetta öðruvísi. Þar hefur þú ekki stjórn á öllu,“ segir hann, en götuhjólreiðarnar eru frábrugðnar meðal annars á þann hátt að þar spilar keppnisplan og samvinna með öðrum hjólurum, ekki síst liðsfélögum, stóra rullu.

Á léttum nótum segir Ingvar að helsta vandamálið sem komi í veg fyrir að hann nái að fullkomna safnið sé fjallabrunið. Það komi kannski að því einn daginn að hann rifji upp gamla takta þar. „Ég á skráðar 30-40 keppnir í downhill á ferlinum en ég hef aldrei unnið slíka keppni. En ég á margar silfur á eftir Helga Berg. Þannig að það er klárlega eitthvað eftir,“ segir hann og hlær.

Ingvar og Ágústa Edda eru núverandi Íslandsmeistarar í tímatöku.

Stefnir á að vinna Riftið í ár

Í fyrra prófaði Ingvar malarhjólreiðar bæði með þátttöku í Dirty Kanza og Riftinu hér á Íslandi. Hann segist aftur ætla í Riftið, en í þetta skiptið til að vinna. Varðandi aðrar íslenskar keppnir segir hann að þar gildi regla sem hann hafi unnið eftir undanfarin ár. „Ef ég er heima og það er keppni þá er ég með. Ég reyni að vera með í eins mörgu og ég get.“ Hann segir að í öðrum keppnum en hann hafi áformað fyrir tímabilið taki hann væntingarnar hins vegar nokkuð niður. Segir hann að sigur í slíkum keppnum skipti hann minna máli en erlendu keppnirnar. Að því sögðu segist hann vilja vera meira með í götuhjólakeppnunum hér á landi en hann náði í fyrra, en þá tók hann þátt í þremur.

Spurður út í Símann Cyclothon segir Ingvar að það sé ekki á planinu, en ef keppnin hitti vel á æfingar og aðrar keppnir þá sé aldrei að vita. Þannig hafi hann hoppað með í keppnina í fyrra því tímasetningin passaði vel. Þá segist hann heldur ekki horfa sterkt á bikarmeistaratitlana hér heima, en muni að sjálfsögðu mæta ef hann sé heima.

Ingvar í fyrstu fjallahjólakeppni ársins á Íslandi í fyrra, Morgunblaðshringnum.
Previous Article
Next Article

One Reply to “Stefnir á 40 mót á árinu, þar af 16 erlendis”

Leave a Reply

Hjólafréttir

Markmið hjólafrétta er að auka veg og vanda hjólreiða sem sports og samgöngumáta. Við vonum að þú lesandi góður hafir gagn og gaman af lestrinum. Um vefinn.

Samstarfsaðilar