Snýst um að koma upp landsliðshóp og sækja reynslu erlendis

Bjarni Már Svavarsson formaður HRÍ og Mikael Schou skrifa undir samning um starf Mikaels sem afreksstjóra HRÍ.

Í dag var Mikael Schou kynntur sem nýr afreksstjóri HRÍ. Stöðunni svipar í grunninn til landsliðsþjálfara og markmiðið er að koma upp landsliðshóp frá U17 og upp í elite og sækja reynslu í keppnir erlendis. Næst á dagskrá er að setja upp æfingahelgi fyrir yngri flokka og mögulega elite-hóp og fá þannig yfirsýn yfir stöðuna og í kjölfarið vinna í samsetningu á landsliðshópum.

„Við getum ekki bara verið hér heima“

Hjólafréttir hitti þá Mikael og Bjarna Má Svavarsson, formann HRÍ, í dag við undirritun hálfs árs samnings við Mikael. Þeir taka báðir fram að aðstæðurnar í ár séu mjög sérstakar og erfitt sé að skipuleggja sumarið. „Það er ekkert bókað miðað við stöðuna nema kannski helst EM og HM,“ segir Bjarni. „En okkur langar meira að fara í fleiri verkefni eins og mót erlendis með ákveðna hópa.“ Þar vísar hann til erlendra hjólakeppna líkt og kom fram í afreksstefnu HRÍ sem kynnt var eftir aðalfund sambandsins fyrr í mánuðinum.

„Við ætlum að byggja upp einhvern kjarna sem eru okkar bestu hjólarar og yfir í okkar efnilegustu hjólara. Kalla þá svo saman fljótlega með vorinu og reyna að byggja til framtíðar,“ segir Bjarni. Mikael segir að þó að stóru mótin séu alltaf skemmtileg (HM og EM), þá skipti önnur mót ekki síður máli. „Við þörfnumst keppnisreynslunnar til að taka skrefið áfram í þessari íþrótt. Við getum ekki bara verið hér heima,“ segir hann.

Skrifað undir.

Fimm ár með conti-liði og fimm ár sem liðstjóri

Mikael ætti að þekkja ágætlega til í þessum heimi, því eftir að hafa kynnst hjólreiðum hér heima á Íslandi og keppt m.a. á Norðurlandamótum þá hafi hann ákveðið að flytja til Noregs, láta drauminn rætast og stefna á atvinnumennsku í hjólreiðum. Sótti hann nám við framhaldsskóla sem jafnframt var afreksskóli fyrir allskonar íþróttir og í tengslum við ólympíu- og afreksdeildir í Noregi. Þar var Mikael á hjólabraut, en til gamans má geta að þetta er sami skóli og Matthías, bróðir Mikaels, stundar nú nám við, en Hjólafréttir ræddu ítarlega við hann í fyrra. Samhliða náminu er full keppnisdagskrá og æfingar eins og æft sé fyrir afreksferil.

Mikael hóf svo að keppa fyrir UCI continental lið í fimm ár, bæði í Noregi og um alla Evrópu. Eftir það tók hann við sem liðstjóri hjá öðru keppnisliði í fimm ár og ferðaðist með því um alla Evrópu þar sem hann sá um skipulag liðsins í kringum keppnir. Á þessum tíma fór hann meðal annars með unglingalandslið fyrir hönd Noregs á nokkrar keppnir. Fyrir nokkru flutti hann svo aftur heim til Íslands og hefur meðal annars komið að þjálfun hér heima auk þess að fara með U17 landsliðið á ólympíuleika Evrópu æskunnar í Aserb­aísjan. „Ég hef alltaf verið að róta í þessu og kemst aldrei út úr þessum hjólaheimi sem mér þykir svo vænt um,“ segir Mikael og hlær.

Mikael Schou, nýr afreksstjóri HRÍ.

„Snýst meira um að senda hópa út“

Götuhjólreiðar eru nokkuð sérstök íþrótt því á sama tíma og þær eru liðaíþrótt eru þær jafnframt einstaklingsíþrótt. Í afreksstefnu HRÍ er líka nokkuð þrögn skilgreining á afreksfólki. Spurður hvort afreksstarfið verði miðað að hópnum eða þeim allra sterkustu segja þeir báðir skýrt að horft verði til hópanna. „Þetta snýst meira um að senda hópa út. En það að finna nægjanlega stóran og stöðugan hóp getur verið áskorun,“ segir Mikael og bætir við að meta þurfi styrkleika hvers og eins og hvenær eigi að nýta þá eftir keppnum. „Hlutverk afreksstjóra er að vera til staðar, vita hvað er í gangi hverju sinni og fylgjast með. Það eru ekki bara úrslitin sem ráða. Þau eru mikilvæg en þegar maður sendir hóp nægir ekki að horfa til úrslita. Það þarf að þekkja keppendur og þeirra styrkleika og hvernig þeir geta hjálpað liðinu. Mitt hlutverk verður að vera með yfirumsjón með þessu og taka út liðin.“

Megin reynslan úr minni mótum, en stærri mótin bónus

Spjallið færist aftur yfir til þeirra erlendu keppna sem horft er til þess að taka þátt í. Bjarni bendir á að allar keppnir séu mikilvægar og stórmótin séu ákveðið viðmið til að sjá hvað þurfi til að taka frekari skref áfram. Nefnir hann að þegar Íslendingar hafi í fyrstu skiptin tekið þátt í hjólreiðum á Smáþjóðleikunum í kringum 1995 hafi Íslendingar ekki átt neitt erindi þangað. „En í dag eigum við fullt erindi þangað og ef við byrjum ekki einhvers staðar t.d. með að fara á HM og EM þá vitum við ekki hvað við þurfum til að koma okkur ofar.“ Bætir hann við að minni mót séu þó ekki síður mikilvæg og undir það tekur Mikael. „Megin reynslan kemur úr þeim mótum [minni mótunum]. Hitt er bónus og meira fyrir keppendur og stjórnendur að öðlast reynslu. En það er hægt að afkasta miklu meiru í litlu keppnunum og vera meira með og fá tilfinningu fyrir hvers er krafist af hverjum og einum þegar kemur að enda keppninnar,“ segir Mikael og vísar þar aftur til þeirrar hugsunar að byggja upp landsliðshóp sem byggi sig upp sem lið frekar en einstaklinga.

Samningurinn við Mikael Schou sem afreksstjóri HRÍ.

„Við þurfum ungu kynslóðina sem er framtíðarvonin okkar í þessu“

Eins og fyrr segir verður afreksstjóri með yfirumsjón með landsliðsmálum niður í U17 (15-16 ára krakkar). Spurður um áform yngri flokka segir Bjarni að HRÍ vilji reyna að fjölga í þeim hópi. Þrátt fyrir að keppendur séu enn nokkuð fáir í yngri flokkum segist Bjarni ekki hafa áhyggjur af framtíðinni. Vísar hann til þess að mikill fjöldi fólks á miðjum aldri stundi hjólreiðar og það muni með tíð og tíma smita út frá sér til barnanna.

Mikael segir að þegar komi að yngri hópunum sé aðalábyrgðin hjá hjólreiðafélögunum og að þau séu með gott barna- og unglingastarf. „Og það eru þau að gera. Félögin hér eru flott og það er mikið fjármagn til staðar, sem og húsnæði, tæki og tól og þjálfarar,“ segir hann. „Við þurfum að vinna vel með þessum félögum og styðja við bakið á þeim því við þurfum ungu kynslóðina sem er framtíðarvonin okkar í þessu.“

Bjarni segir að með því að fjölga vel í yngra starfinu takist að byggja upp pýramída sem vel sé þekktur úr íþróttastarfi. Þeim fækki eftir því sem ofar dragi, en með því að byggja upp mikinn fjölda neðst hækki pýramídinn.

Einnig hugsað fyrir fjallahjólreiðar

Mikael segir að fyrstu verkefni hans verði að kynnast starfsemi allra hjólreiðafélaganna hér á landi og sjá hvað er í gangi. „Við þurfum að sýna okkur og koma þessari afreksstefnu út til félaganna. Við erum hér fyrir ykkur og við erum að vinna til framtíðar að byggja upp kynslóð af keppendum,“ seigr hann og bætir við að það verði gert í samstarfi við félögin. Þá tekur hann fram að hlutverk sitt sé ekki að vera þjálfari einstakra keppenda og ætlunin sé ekki að rífa fólk út úr núverandi æfingaplani, heldur að ná hópnum saman. „Þjálfun er einstaklingsbunidn og við munum ekki tengjast henni almennt.“

Bjarni Már Svavarsson, formaður HRÍ.

Það skal tekið fram að þó að Mikael komi aðallega úr götuhjólreiðum er staða afreksstjóra ekki einskorðuð við götuhjólreiðar eða tímatöku. Mikael segir að einnig verði horft til XC fjallahjólreiða og þá tekur Bjarni fram að komi fram mögulegir hópar í fjallabruni verði afreksstjóri þeim til aðstoðar, m.a. með erlend samskipti og fleira.

Beint í vinnu við að finna út landsliðshópa

Spurður hvenær búast megi við að landsliðshópar verði tilkynntir segir Mikael að of snemmt sé að segja um það núna, en að eftir bæði æfingahelgi fljótlega og þegar hann sé búinn að taka stöðuna á félögunum og þeim keppendum sem hafa verið efst síðustu ár muni sú niðurstaða liggja fyrir.

Previous Article
Next Article

Hjólafréttir

Markmið hjólafrétta er að auka veg og vanda hjólreiða sem sports og samgöngumáta. Við vonum að þú lesandi góður hafir gagn og gaman af lestrinum. Um vefinn.

Samstarfsaðilar