HM – Götuhjólakeppnin fer fram á morgun
Tímatökukeppninni er lokið á HM í hjólreiðum en í gær kepptu Margrét Pálsdóttir og Ágústa Edda Björnsdóttir og svo kláraði Ingvar núna síðdegis. Þau áttu öll góða keppni, Margrétt hjólaði á um 38 km / klst meðalhraða og ágústa á rétt tæplega 40 km / klst þrátt fyrir meiðsl fyrr í vikunni.
Á morgun fer svo fram götuhjólakeppnin á HM í hjólreiðum en við höfðum fyrr í vikunni tekið upphitun sem lesa má hér. Allir sem fylgst hafa með hjólreiðamótum í sumar vita að íslensku stelpurnar eru í góðu formi. Ágústa hjólar nú í annað skipti á HM í götuhjólreiðum en ásamt henni keppa svo Bríet Kristý og Hafdís og fá þær nú fá eldskírn á stærsta sviði hjólreiðanna. Segja má að framtíðin sé björt í íslenskum hjólreiðum.
Krefjandi braut og aðstæður
Hjólafréttir heyrðu í Thomas Skov Jensen, directeur sportif liðsins og svar Íslands við Brian Holm og Eusebio Unzue. Liðið hefur hjólað brautina undanfarna daga og segir Thomas að hópnum bíði gríðarlega krefjandi verkefni. Brautin er hröð þar sem tvær erfiðar brekkur munu slíta hópinn og þynna hann í hverjum hring. Að hjóla brekkurnar upp er ekki eina áskorunin heldur en niðurferðin tæknileg og krefjandi. Thomas benti á að hér sé um næstum 200 kvenna peloton að ræða og það verði afar mikilvægt fyrir íslenska hópinn að vera vel staðsettar á lykilköflum í keppninni. Þar bendir Thomas á að þó öllum elite hjólurum landsins væri safnað saman, næði fjöldinn ekki 200.
Fyrir lesendur er gott að átta sig á að hér er ekki um samhjól með endasprett að ræða heldur verður mikil barátta um stöðu í pelotoninu þar sem íslenski hópurinn mætir atvinnukonum og hjólreiðakonum með reynslu frá barnsaldri. Séu keppendur illa staðsettir þegar göt myndast í hópnum gæti orðið erfitt fyrir þá að vinna sig aftur í keppnina.
Ekki er um mikinn reynslubanka að ræða þegar horft er á reynslu Íslendinga á stærsta sviði götuhjólreiðanna í Elite flokki. Ísland hefur átt keppendur á smáþjóðaleikunum en í stærstu keppnum eru það einungis Ágústa Edda sem tók þátt í sömu keppni á síðasta ári svo Anton Örn Elfarsson sem tók þátt Evrópumeistaramótinu í götuhjólreiðum árið 2017.
Ein strategía sem einhver af íslensku stelpunum gæti reynt er að fara strax í breik í byrjun. Þó það sé ávísun á erfiðan dag, þá færðu meiri tíma í sjónvarpinu og getur haft forskot upp og niður brekkurnar og losnað við lætin í pelotoinu. Ljóst er að sá sem fer í breikið mun líklega ekki klára keppnina og verða hringaður úr keppni þegar pelotonið keyrir upp hraðann. Hjólafréttir ákváðu að heyra í Antoni til að fá hugmynd um hvað sé í vændum fyrir kvennaliðið en líklega hefur enginn Íslendingur sömu reynslu af götuhjólreiðum á hæsta leveli og Anton.
Hvaða strategíu er hægt að vinna með ?
Þegar Anton tók þátt í Evrópukeppninni fór hann inn í keppnina með breik í huga. Evrópukeppnin 2017 var haldin í Danmörku og upphaflega hafði verið stefnt að því að senda hóp hjólara frá Íslandi en á endanum hafi Anton verið einn fyrir hönd Íslands í Elite KK. Þar voru einnig íslenskir keppendur í Junior og U23 og þar keppti Ágústa einnig í Elite kvenna. Anton var í toppformi fyrir Evrópukeppnina, ríkjandi Íslandsmeistari og æfði á efsta leveli í Danmörku með keppnisliði Amager Cykle Ring. Hann hafi metið að valkostirnir væru annað hvort að rétt hanga í pelotoninu í mark eða gera eitthvað skemmtilegt og fara í breik.
Á 240 km langri flatri braut, byrjuðu þreifingar strax á fyrsta hring, einhverjir reyndu strax breik en þeim tilraunum var skjótt lokað. Þá fór Anton einn af stað og á eftir honum komu tveir aðrir, einn frá Swiss og einn frá Hvíta Rússlandi.
“Stóru liðin hafa metið þetta sem þægilegt breik (enginn sem var að fara að hjálpa hinum stóru þjóðunum seinna í raceinu) og leyfðu okkur að fara. Þetta var svo bara þétt keyrsla, unnum vel saman og held að við höfum verið með um 10 mínútna bil þegar mest var.”
Eftir um 100 km í breikinu byrjaði pelotonið að auka hraðan og þá minnkaði bilið og segir Anton að það hafi gerst mjög hratt. “heyrði eftir á að ítalska liðið hefði gert árás í hliðarvindi og allt hefði farið á fullt. Minnir að peletonið hafi náð mér eftir um 150km, ég náði að hanga með þeim ca. 20km, en ég var alveg grillaður eftir átökin í breikinu og þegar ég missti af peletoninu þá hætti ég keppni um eftir 170km. En ég fékk nákvæmlega það út úr þessu sem mig langaði og var geggjuð reynsla.”
„Fyrst og fremst geggjuð reynsla“
Anton telur að kvennakeppnin verði erfiðari en hjá körlunum þrátt fyrir styttri braut og að löng braut hjá körlunum geri það að verkum að keppnin þar verði rólegri til að byrja með. „Vegna þess að leiðin hjá konunum er bara 144 km, gerir það að verkum að þetta verður GO frá byrjun“.
Aðspurður um hvernig baráttan verður um stöðu í pelotoninu segir hann að það verði krefjandi, enda skipti reynsla miklu máli þegar hjólað er í svona stóru keppnis pelotoni. „Maður þarf í raun alltaf að vera að vinna sig framar og passa að skilja ekki eftir glufu fyrir framan sig því þá er einhver búinn að stinga sér í hana, og maður er orðinn aftastur á örstundu”
“ef maður er ekki allan tímann að vinna sig framar, vinna sig framar, vinna sig framar þá er maður bara síðastur, þegar maður er síðastur þá hægist miklu meira á manni í öllum beygjum (teygjueffect) sem gerir allt miklu erfiðara”
“Þetta er ekki bara líkamlega erfitt, heldur líka mjög mentally krefjandi, því þú ert aldrei bara eitthvað að rúlla í peletoninu”
Anton segir að mikilvægt sé að liðið vinni saman. “Maður er alltaf að taka vind þegar maður er að færa sig framar, og þá getur maður klárað sig” Þar sé þá mikilvægt að liðið tali saman og hreyfi sig í sameiningu innan hópsins. Þar verði þær að nýta öll tækifæri til að ná góðri stöðu, ekki bara stuttu fyrir brekkurnar því þá munu allir vera að gera það sama.