TT númer 1,2 og 3 og langar aftur á heimsmeistarmótið

Rúnar Örn Ágústsson er núverandi bikarmeistari í tímatöku og fyrrverandi Íslandsmeistari í sömu grein. Í haust fór hann á heimsmeistaramótið í Yorkshire og keppi þar í greininni. Ásamt hjólreiðum hefur hann undanfarin ár verið framarlega í þríþraut og átti meðal annars um tíma besta tíma Íslendings í járnkarli.

Í ár, eins og í fyrra, segist Rúnar ætla að fókusa á hjólreiðarnar og „þar verður tímatakan númer 1,2 og 3.“ Rúnar er hluti af liði Kríu og segist hann einnig munu taka þátt í götuhjólreiðamótum, en þar verða ásamt honum þeir Eyjólfur Guðgeirsson og Davíð F. Albertsson.

Rúnar Örn Ágústsson keppir með liði Kríu eins og í fyrra.

„Aðalmarkmiðið verður að ná í bæði Íslands- og bikarmeistaratitilinn. Mér finnst það mikilvægast,“ segir Rúnar. Hann vill ekki gera upp á milli titlanna og segir erfitt að gera upp við sig hvor sé mikilvægari. Framhaldsmarkmið gangi vel á mótum ársins er svo að taka aftur þátt á heimsmeistaramótinu, en í ár fer það fram í Sviss. „Ef ég næ bæði bikar- og Íslandsmeistaratitli langar mig til Sviss og núna reynslunni ríkari,“ segir hann.

Þá telur Rúnar að heimsmeistaramótið í ár passi sér betur en í Yorkshire. „Brautin þar er flöt og það passar mér mjög vel.“ Sjálfur hefur Rúnar hjólað á þessum slóðum, en hann fór þangað í æfingarferð árið 2017 með íslenska landsliðshópnum. „Þetta er eins og íslensku tímatökumótin, marflatt.“ Segist Rúnar vera mjög spenntur að taka þátt í slíkri keppni ef allt gangi upp, en Ísland er með öruggt eitt sæti karlameginn í tímatöku á mótinu.

Á fullri ferð í Yorkshire í fyrra.

Tímatökumótum hefur verið fjölgað milli ára samkvæmt mótaskrá HRÍ og verða nú fimm bikarmót auk Íslandsmótsins. „Það er alveg frábært og sérstaklega þegar þetta eru keppnir sem telja,“ segir Rúnar og ætlar að reyna að ná þeim öllum í sumar.

Með auknum vinsældum malarhjólreiða hafa margir tekið hliðarskref í þá átt og er Rúnar engin undantekning. Hann segist spenntur að prófa sig áfram þar og er skráður í Riftið. Segist hann einnig vera að skoða maraþon fjallahjólakeppnir eins og Rangárþing ultra og Bláa lóns þrautina. „Þetta er eitthvað sem mér finnst spennandi,“ segir hann um keppnir sem ekki séu endilega of tæknilegar.

Previous Article
Next Article

Leave a Reply

Hjólafréttir

Markmið hjólafrétta er að auka veg og vanda hjólreiða sem sports og samgöngumáta. Við vonum að þú lesandi góður hafir gagn og gaman af lestrinum. Um vefinn.

Samstarfsaðilar