Hverju lofa flokkarnir í tengslum við hjólreiðar?

Ljósmynd/Kristinn Magnússon

Í dag eru kosningar. Stóru málin eru líklegast heilbrigðismál, efnahagsmál, menntamál, umhverfismál o.fl. En fyrir mörg okkar skiptir afstaða stjórnmálaflokkanna til hjólreiða og annarra virkra samgöngumáta talsverðu máli. Má færa fyrir því góð rök að hjólreiða tengist einmitt inn á alla helstu málaflokkana og oft með umtalsverðum hætti.

Þannig eru virkar samgöngur lýðheilsumál, minni notkun bíla og jarðefnaeldsneytis skiptir máli bæði fyrir efnahag landsins og heimilanna, virkar samgöngur koma einnig inn á umhverfismál í tengslum við að draga úr kolefnislosun og innan menntamála´ráðuneytisins heyra jú keppnishjólreiðar.

Svör frá fimm flokkum

Til að ná aðeins utan um þetta skoðuðum við á Hjólafréttum málefnaskrár flokkanna sem eru aðgengilegar á heimasíðum þeirra og sendum fyrirspurnarlista á öll framboðin.

Fyrirspurnarlistinn var í átta liðum og náði til fyrri verka, framtíðarmála, tollamála, vangavelta um hlutverk Vegagerðarinnar í tengslum við virka ferðamáta og fleiri tengdra atriða. Fljótlega kom þó í ljós að flokkarnir höfðu komið sér saman um að vegna fjölda fyrirspurna í aðdraganda kosninga væri æskilegt að spurningarnar væru ekki fleiri en þrjár. Reyndum við að ná eins vel utan um hugmyndirnar í fyrri átta spurningunum og kostur var á.

Samtals svöruðu fimm flokkar. Þeir voru Píratar (sem reyndar kláruðu að svara öllum 8 spurningunum áður en þær voru fækkaðar niður í þrjár), Viðreisn, Vinstri græn, Samfylking og Sjálfstæðisflokkur.

Hvað segja flokkarnir í málefnaskrá sinni?

Við byrjum á að renna yfir það sem kemur fram í málefnaskrá flokkanna og tengist hjólreiðum, samgönguhjólreiðum, virkum samgöngum eða öðru sem flokka má með því. Raðað er í stafrófsröð miðað við listabókstafi.

Framsóknarflokkur: „Framsókn vill tryggja framgang Samgöngusáttmálans til að liðka fyrir umferð á höfuðborgarsvæðinu og vinna að kolefnishlutlausu Íslandi.“

Viðreisn: „Til að orkuskipti geti orðið þarf að tryggja nægt framboð endurnýjanlegrar orku og öfluga innviði. Samhliða orkuskiptum er nauðsynlegt að auka fjölbreytni í samgöngum og nýta hagræna hvata til að styðja við virka ferðamáta og almenningssamgöngur.”

Sjálfstæðisflokkur: „Uppbyggingu hjólreiða-, göngu- og reiðstíga í og við þéttbýli þarf að vinna heildstætt og tryggja samvinnu milli sveitarfélaga. Efla þarf almenningssamgöngur og gera þjónustuvænni svo að þær verði raunhæfur valkostur fyrir fleiri.“

Flokkur fólksins: Ekkert að finna í málefnaskrá.  

Sósíalistaflokkurinn: „Að vinna markvisst að umhverfisvænum lausnum í samgöngumálum svo sem með aukinni notkun rafvæddra ökutækja, strætó/borgarlínu og að hvetja til samnýtingar á bílum.“ og „Að styrkja nýsköpun í útfærslu nýrra farartækja.“ og „Að byggja upp innviði fyrir fjölbreyttar samgöngur um land allt þar sem tenging milli staða á landi, lofti og sjó sé tryggð.“

Miðflokkurinn: Ekkert að finna í málefnaskrá.

Frjálslyndi lýðræðisflokkurinn: Ekkert að finna í málefnaskrá.

Píratar: „Við viljum skilvirkar og umhverfisvænar samgöngur með öflugri og fullfjármagnaðri samgönguáætlun þar sem hver landshluti hefur miklu meiri áhrif á forgangsröðun samgangna á sínu svæði og þar sem almenningssamgöngur og virkir ferðamátar eru skilgreindar sem hluti af grunnneti samgangna.”

Samfylking: „Byggja upp Landlínu……heildstætt almenningsvagnanet um allt landið, svo að það verði einfaldur og raunhæfur kostur að ferðast um Ísland án einkabíls. Koma upp stoppistöðvum í helstu þéttbýliskjörnum nærri þjónustu, sem eru þægilegar óháð veðri, tengdar göngu- og hjólastígum og með aðgengi að örflæðislausnum á borð við reiðhjól, rafmagnshjól og rafskutlur.“ og „Gera hjólreiðaáætlun fyrir allt Ísland og gera átak í lagningu hjólastíga um allt land.“

Vinstri græn: „Efla þarf almenningssamgöngur á landinu öllu og flýta uppbyggingu Borgarlínu. Aukin fjarvinna og efling virkra ferðamáta, sér í lagi göngu- og hjólreiða, auk orkuskipta, eru mikilvægar aðgerðir í að ná markmiðum Íslands. Slíkar aðgerðir stuðla einnig að betri loftgæðum og efldri lýðheilsu.“

Svör flokkanna við fyrirspurnum Hjólafrétta

Eftirfarandi eru spurningarnar þrjár sem lagðar voru fyrir flokkana:

 1. Síðasta ríkisstjórn felldi niður tolla af reiðhjólum og rafmagnsreiðhjólum upp að ákveðnu marki. Teljið þið rétt að breyta þessu hámarki eitthvað og þá hvernig? Ætti niðurfellingin t.d. að ná líka til vsk á varahluti? (https://www.tollur.is/embaettid/frettir/frett/2020/05/19/Virdisaukaskattur-felldur-nidur-af-lettu-bifhjoli-eda-reidhjoli-sem-knuid-er-rafmagni-og-reidhjoli-med-stig-eda-sveifarbunadi-asamt-odrum-tegundum-reidhjola/)
 2. Teljið þið skynsamlegt og raunhæft til árangurs að ríkisvaldið ýti undir virkar samgöngur og ef svo er hvaða atriði viljið þið fara í og undir hvaða stofnanir ætti það að heyra?
 3. Að því er við komumst næst er ekkert stöðugildi innan ríkisvaldsins sem fæst við hjólreiðar sem fyrsta forgang. Miðað við upptalninguna hér í innganginum dreifast þessi verkefni á fjölmörg ráðuneyti, en ekkert eitt ráðuneyti eða stofnun hefur beint með málaflokkinn að gera. Viljið þið gera eitthvað í því og þá hvað?

Viðreisn:

 1. Viðreisn hefur ekki myndað sér stefnu sérstaklega í þessu máli en telur almennt að beita ætti grænum hvötum til að styðja við aukin kaup á reiðhjólum og rafhjólum. Þá er mikilvægt að koma á kerfi, með efnahagslegum grænum hvötum og merkingum, þar sem stutt er sérstaklega við viðgerðir á hjólum.
 2. Viðreisn telur nauðsynlegt að auka fjölbreytni í samgöngum og ríkið ætti að nýta græna hvata til að styðja við virka ferðamáta og almenningssamgöngur. Mikilvægt er að ryðja lagalegum hindrunum úr vegi sem hamla framgang virkra samganga á borð við hjólreiðar og gefa málaflokknum meira vægi hjá þeim stofnunum sem fara með málið. Þá er einnig mikilvægt að ráðuneyti og opinberar stofnanir sýni gott fordæmi og ýti undir virkar samgöngur með því að styrkja sérstaklega starfsfólk sem notar virkar samgöngur.
 3. Hjólreiðar og fjölbreyttur ábati þeirra fyrir samfélagið, umhverfið og lýðheilsu eru þannig að það er ekki óeðlilegt að um þær sé fjallað í ýmsum stofnunum og ráðuneytum. Þar má t.d. nefna Samgöngustofu, Umhverfisstofnun, Landlækni og Vegagerðina. Til að tryggja samræmi í vinnu og nálgun til málaflokksins hjá ríkinu er skynsamlegt að höfuðábyrgð liggi á einum stað, t.d. hjá starfsmanni á skrifstofu samgangna í samgönguráðuneytinu.

Sjálfstæðisflokkur: (svör flokksins komu ótölusett)

Að frumkvæði Bjarna Benediktssonar fjármála- og efnahagsráðherra var ákveðið að fella niður virðisaukaskatt af rafmagnsreiðhjólum upp að vissu hámarki. Við umfjöllun þingnefndar kom fram það sjónarmið að skynsamlegt sé að auka enn frekar ívilnanir og styrkja þannig virkar samgöngur. Á nýju kjörtímabili hlýtur sú endurskoðun að fara fram.

Sjálfstæðisflokkurinn hefur ekki ályktað sérstaklega um skipulag virkra samgangna eða hvort setja eigi þann málaflokk undir eitt ráðuneyti. Sjálfstæðisflokkurinn hefur hins vegar lagt áherslu á að tryggja fólki raunverulegt valfrelsi í samgöngum og að uppbygging eins samgöngumáta sé ekki á kostað annars. Í stjórnmálaályktun flokksráðsfundar í september síðastliðnum er það undirstrikað að bæta verði allar samgöngur og tryggja „frelsi einstaklinga þegar kemur að samgöngumáta, hvort sem um er að ræða almenningssamgöngur, almenna bifreiðaumferð, gangandi eða hjólandi“. Einn samgöngumáti á ekki að þrengja að öðrum.

Í þessu sambandi er einnig vert að benda á róttæka stefnu Sjálfstæðisflokksins í loftlagsmálum og orkuskiptum. Þar skipta vistvænar samgöngur miklu, þar á meðal virkar samgöngur. Í flestu er staða Íslands öfundsverð og gefur ómetanleg tækifæri til að vera leiðandi í grænni orkubyltingu, hverfa frá jarðefnaeldsneyti og taka upp umhverfisvænni orkugjafa. Græna orkubyltingin kallar á aukna notkun á bæði raforku og rafeldsneyti sem Ísland er í kjörstöðu til að framleiða.

Efnahagslegur ávinningur af grænni orkubyltingu er mikill en árlega verja Íslendingar um 80-120 milljörðum króna í eldsneytiskaup frá útlöndum. Sjálfstæðisflokkurinn vill að Ísland stígi skrefið til fulls, sé leiðandi í orkuskiptum á heimsvísu með metnaðarfullum aðgerðum og verði fyrst þjóða óháð jarðefnaeldsneyti.

Samfylking

 1. Samfylkingin hefur ekki sett sér sérstaka stefnu í málefnum er varða niðurfellingu á tollgjöldum vistvænna farartækja. Þingfulltrúar flokksins greiddu atkvæði með málinu, en settu þó þann fyrirvara á í umræðu í nefnd að ganga mætti lengra í þessum stuðningi við vistvæna fararmáta.

  Rafknúin reið- og hlauphjól hafa valdið byltingu í samgöngum á Íslandi og gert fólk fært að draga úr notkun einkabílsins. Íslenskt landslag er hæðótt á mörgum stöðum á landinu, auk þess áhrif vinds og veðurs eru talsverð á virka vegfarendur. Með rafstuðningi dregur mjög úr þessum áhrifum, sem hvetur fólk til að nýta sér virka ferðamáta á leiðum og dögum sem það myndi kannski annars ekki gera. Þá dregur þetta úr kröfum um líkamlegt ásigkomulag og gerir þannig fleira fólki mögulegt að ferðast á þennan máta. Það er því mjög mikilvægt fyrir ríkið að styðja við þessa þróun, til að mynda með niðurfellingu á tollum. Skoða mætti hvort mörkin ættu ekki að vera hærri, þar sem dýrari hjól endast lengur, henta breiðari hópi og draga lengra. Þá má sérstaklega taka fyrir innkomu nytjahjóla á markaðinn, sem auka möguleikana á að flytja börn og búnað og henta því mörgum sem annars myndu þurfa að nýta sér einkabíla, en eru dýrari en meðalrafhjól.
 2. Samfylkingin hefur það að stefnu sinni að það verði einfalt, aðgengilegt og þægilegt að ferðast um Ísland, innanbæjar og utan-, án þess að eiga eða leigja einkabíl, enda er það eitt að lykilatriðunum í baráttunni við loftslagsvána. Til þess að það megi verða, á ríkisvaldið að stíga inn í og huga að innviðum og öryggi, ásamt því að styðja við þá vitundarvakningu sem stendur yfir í málaflokknum. Hér eru nokkur atriði sem vert er að huga að:
  • Samfylkingin vill gera hjólreiðaáætlun fyrir allt Ísland og setja aukinn kraft í uppbyggingu göngu- og hjólastíga um allt land til að efla fjölbreyttari fararmáta.
  • Samfylkingin vill flýta Borgarlínu og ráðast í uppbyggingu á Landlínu, sem yrði heildstætt almenningsvagnanet um allt land með rútum sem knúnar eru vistvænum innlendum orkugjafa og nema staðar við helstu þéttbýliskjarna landsins. Þannig er hægt að ferðast um land og borg með blönduðum samgöngumátum án einkabíls.
  • Stoppustöðvar þurfa að vera þægilegra óháð veðri, tengdar göngu- og hjólastígum og með aðgengi að örflæðislausnum á borð við reiðhjól, rafmagnshjól og rafskutlur.
  • Samfylkingin lagði fram, og fékk samþykkta, þingsályktunartillögu um græna atvinnubyltingu í vor. Þar var kveðið á um 1,5 milljarða kr. viðbótarframlag sem veitt yrði til uppbyggingar stofnleiða fyrir hjólreiðar á næsta ári

Til þess að þessi uppbygging megi verða sem hröðust þurfa Samgönguráðuneytið, Vegagerðin og bæjaryfirvöld að vinna vel saman, ásamt því að ráðfæra sig við notendur kerfisins. Ríkið þarf að taka sér Reykjavíkurborg til fyrirmyndar, þar sem markvisst hefur verið unnið í því að bæta hjólastígakerfið og auka öryggi – og þannig lyft grettistaki í að styðja betur við virka vegfarendur, þó enn sé nóg eftir. Það skiptir nefnilega máli hver er við stjórnvölinn.

3. Samgöngur eru stór þáttur í lífi fólks og málaflokkurinn snertir, eins og þið lýsið, marga þætti stjórnkerfisins. Svo margþættur málaflokkur hlýtur alltaf að kalla á þverfaglega nálgun, þvert á ráðuneyti og stofnanir. Lykilatriðið er þó að í ríkisstjórn veljist flokkar sem eru samstíga í því að leggja áherslu á málaflokkinn, svo ráðuneyti og stofnanir geti lagst á eitt í því að tryggja örugga innviði, öflugan stuðnings og framþróun í málaflokknum.

Vinstri græn

 1. Vinstrihreyfingin – grænt framboð er reiðubúin að skoða frekari fjárhagslega hvata til að hvetja fólk enn fremur til virkra og umhverfisvænna samgöngumáta, enda heilsu og umhverfi til heilla.
 2. [svar við 2 og 3] Já VG telur bæði skynsamlegt og raunhæft til árangurs að ríkisvaldið hvetji til virkra samgöngumáta. Málið snertir ekki einvörðungu loftslagsmálin, heldur getur sú hvatning verið fjárhagslegs eðlis og taka þarf tillit til skipulagsmála. Þá er einnig sterkur lýðheilsuvinkill. Það að hvetja til virkra samgöngumáta á því marga ólíka snertifleti hjá hinu opinbera en það er mikilvægt að samhæfing sé á milli þessara verkefna. Það gæti verið vænlegt til árangurs að þessi verkefni væru samhæfð af hálfu ráðuneytis loftslagsmála eða samgöngu- og svietarstjórnarmála enda mikilvægur liður í að gera samgöngumáta loftslagsvænni.

Píratar (eins og fyrr sagði svöruðu Píratar öllum átta spurningunum og látum við þau fylgja með öll hér að neðan ásamt upphaflegu spurningunum):

 1. Hvað hafa verið helstu stefnumál flokksins á síðustu árum þegar kemur að hjólreiðum og virkum samgöngum? Hefur eitthvað af þeim hugmyndum skilað sér í framkvæmd?

Píratar í Reykjavík hafa á undanförnum árum sýnt greinilega hver afstaða flokksins er til virkra samgöngumáta og hvernig flokkurinn kemur þeim til framkvæmda þegar tækifæri gefst til þess í meirihluta. Undir stjórn Pírata hefur skipulags- og samgönguráð Reykjavíkur lagt allt kapp á að byggja upp borg þar sem virkum ferðamátum er forgangsraða efst, í skipulagi, hönnun og framkvæmd; hvort sem það eru hjól, rafhlaupahjól eða tveir jafnfljótir.

Undanfarna áratugi hafa stjórnvöld lagt alla áherslu á að Íslendingar þurfi að eiga bíl og borga rúma milljón á ári fyrir vikið í margvíslegan kostnað og gjöld. Í dag vitum við hins vegar að sífellt fleiri vilji ferðast með öðrum hætti og eyða milljóninni í eitthvað annað.

Við viljum svara þessari eftirspurn og auðvelda fólki að ferðast eftir sínu höfði. Það styður jafnframt við áherslu Pírata um breyttar ferðavenjur og orkuskipti í samgöngum, en loftlagsmálin setja mark sitt á alla stefnu Pírata fyrir þessar kosningar.

2. Síðasta ríkisstjórn felldi niður tolla af reiðhjólum og rafmagnsreiðhjólum upp að ákveðnu marki. Teljið þið rétt að breyta þessu hámarki eitthvað og þá hvernig? Teljið þið rétt að niðurfellingin nái líka til niðurfellingar vsk. á varahlutum m.a. með tilliti til hringrásarhagkerfis? https://www.tollur.is/embaettid/frettir/frett/2020/05/19/Virdisaukaskattur-felldur-nidur-af-lettu-bifhjoli-eda-reidhjoli-sem-knuid-er-rafmagni-og-reidhjoli-med-stig-eda-sveifarbunadi-asamt-odrum-tegundum-reidhjola/

Píratar eru með gríðarlega metnaðarfulla stefnu í umhverfis- og loftslagsmálum, sem Ungir umhverfissinnar tilkynntu á dögunum að væri sú besta meðal stjórnmálaflokka landsins. Þar er sérstaklega fjallað um mikilvægi hringrásarhagkerfisins, leiðir Pírata að því og þá skýru stefnu flokksins um að innleiða réttinn til viðgerða.

Að sama skapi segir í loftslagsstefnu Pírata að kolefnisgjaldinu af mengun verði varið í þágu almennings, t.d. til verkefna sem auðvelda orkuskipti í samgöngum og styðja við uppbyggingu innviða fyrir ferðamáta sem ekki eru háðir jarðefnaeldsneyti. Í samræmi við áherslu Pírata á réttlát umskipti falla lægri álögur á vistvæna faramáta og varahluti undir þá stefnu.

Ívilnanir fyrir virka ferðamáta eru í dag skornar við nögl, sérstaklega þegar þær eru bornar saman við þær háu fjárhæðir sem varið er til ívilnana í þágu orkuskipta í bílaflotanum. Hámarksupphæðir endurspegla ekki kostnaðinn við reiðhjól og rafmagnsreiðhjól sem eru nógu vel útbúin til að hægt sé að stunda hjólreiðar allt árið, hvað þá að þær nái utan um kostnað við sérhæfðari hjól eins og nytjahjól eða hjól fyrir hreyfihamlaða. Þessu þarf að bæta úr. Jafnframt er rétt að skoða breytingar á samgöngustyrkjum vinnustaða, til að auðvelda fólki á vinnumarkaði að verða sér úti um dýrari samgönguhjól. Þá er rétt að taka fram að fyrrnefnd ákvörðun ríkisstjórnarinnar um að fella niður tolla og reiðhjólum og rafmagnsreiðhjólum var tekin eftir fyrirspurn frá Andrési Inga Jónssyni, þingmanni Pírata, sem sýndi hvað það væri eðlilegt og jákvætt skref.

3. Teljið þið skynsamlegt og raunhæft til árangurs að ríkisvaldið ýti undir virkar samgöngur? Ef svo, hvaða atriði viljið þig fara í?

Já, það er nauðsynlegt ætli Ísland sér að ná Parísarsáttmálanum. Ríkið þarf að setja mun meiri pening í lagningu hjólastíga, endurhönnun gatna og alla innviðauppbyggingu fyrir virka ferðamáta ef ætlunin er að standast alþjóðlegar skuldbindingar Íslands í loftslagsmálum. Einnig er mikilvægt að ríkið komi að rekstri þessara innviða með virkari hætti. Þetta getur ríkið gert í samvinnu við sveitarfélögin í þéttbýli og t.d. með lagningu lengri hjólastíga milli landshluta. Við viljum að virkir ferðamátar verði efst í forgangsröðun ríkisins við draga úr losun CO2 frá samgöngum því það er skilvirkasta leiðin, og við vitum að orkuskipti ein og sér duga ekki til. Það þarf mun róttækari aðgerðir.

Fyrsta skref er að skilgreina almenningssamgöngur og virka ferðamáta sem hluta af grunnneti samgangna. Þá telja Píratar að það væri þjóðráð að leggja fleiri hjólaslóða, ekki síst meðfram hringveginum. Hjólaferðamennska mun aðeins aukast á næstu árum og það myndi auka öryggi akandi og hjólandi ef virkir ferðamátar fengju sitt eigið rými á hringferð sinni um landið.

4. Þegar kemur að hlutfalli virkra samgangna í heildarferðum íbúa hafa sum sveitarfélög sett sér markmið að ná hlutfallinu í ákveðna prósentu. Viljið þið setja slík markmið til að ýta undir virkar samgöngur? Er eitthvað hlutfall sem þið hafið sett fram?

Slík markmið eru góð hvatning fyrir stjórnmálafólk sem láta sig virka samgöngumáta varða. Þannig hefur lengi verið stuðst við slíkt hlutfall í Reykjavík sem hefur hvatt okkur Pírata áfram í baráttu okkar fyrir virkum ferðamátum – og undir forystu Pírata í Reykjavík var markmið um hlutdeild einkabílsins sett undir 50% sem er í fyrsta skipti í sögu borgarinnar. Við teljum eðlilegt að ríkið setji sér slíkt markmið líkt sem myndi tryggja að Ísland nái að standast Parísarsáttmálann. Samgönguáætlun og aðrar áætlanir ríkisins myndu svo taka mið af því markmiði. 

5. Hvað ætti að vera hlutverk og markmið Vegagerðarinnar varðandi virka samgöngumáta? Ætti að byggja hjólastíga meðfram þeim vegarköflum sem eru lagðir á ný/endurgerðir?

Í loftslagsstefnu Pírata setjum við markið á gera vistvæna ferðamáta raunhæfan valkost um allt land. Píratar ætla því að styðja við virka og græna ferðamáta um land allt með kröftugri uppbyggingu innviða og þjónustu í þeirra þágu og auka þannig hlutdeild gangandi og hjólandi umferðar auk notkunar almenningssamgangna. Þá ætla Píratar að tengja saman landshluta með hjólaleiðum og skipuleggja net hjólaleiða fyrir ferðamenn og íbúa í öllum landshlutum. Í dag sinnir Vegagerðin slíkum framkvæmdum engan veginn nógu vel, en hún er í grunninn stofnun sem sérhæfir sig í að byggja vegi fyrir bíla. Því þarf að breyta og Píratar munu beita sér fyrir því að markmið og hlutverk Vegagerðarinnar nái betur utan um alla ferðamáta, sérstaklega í ljósi þess hversu mikilvægt það er að stjórnsýslan rói öllum árum að því að draga úr losun gróðurhúsalofttegunda. Hjólastíga á að byggja þar sem heppilegast er að hafa þá með tilliti til öryggis og umhverfisþátta. Stundum er það samhliða nýjum vegarköflum og stundum er það ekki. 

6. Ef ekki er pláss fyrir bætt aðgengi virkra ferðamáta, meðal annars víða í þéttbýli, teljið þið í lagi að draga úr plássi fyrir akandi umferð til að bæta aðgengi þess fyrrnefndu?

Já, ekki aðeins er aukin áhersla á virkra ferðamáta til þess fallin að auka heildarumferðarflæði heldur er vel hægt „draga úr plássi fyrir akandi umferð“ án þess að það hafi ein einustu áhrif á bílaumferð. Í dag er mikið misrétti í því plássi sem úthlutað er til ferðamáta í þéttbýli. Einkabíllinn hefur fengið nánast allt plássið undir vegi, gatnamót, bílastæði og önnur veghelgunarsvæði. Þetta misrétti verður ekki lagað nema með því að minnka plássið sem akandi umferð fær og auka plássið sem virkir ferðamátar fá. Það líkt og fyrr segir er líka mikið skilvirkari leið til að flytja fólk á á milli staða. 

7. Mikið hefur verið kvartað yfir aðgerðaleysi lögreglunnar þegar kemur að reiðhjólaþjófnaði. Meðal annars hefur einstaklingur tekið að sér að finna og skila til eigenda hjólum sem hefur verið stolið, líkt og fjölmiðlar hafa ítrekað fjallað um. Munið þið beita ykkur fyrir því að sett verði aukin hjá lögreglunni að rannsaka slík mál?

Píratar telja að umrætt „aðgerðaleysi“ lögreglunnar að þessu leyti skýrist ekki síst af manneklu og skorti á andrými til að sinna rannsókn þessara mála. Píratar vilja þess vegna nægjanlegt og fyrirsjáanlegt fjármagn til lögreglu, til þess að hún geti sinnt þeim fjölda mála sem lögreglan fær inn á sitt borð – eins og tilkynningum um hjólaþjófnað.

8. Að því er við komumst næst að er ekkert stöðugildi innan ríkisvaldsins sem fæst við hjólreiðar sem fyrsta forgang. Miðað við upptalninguna hér í innganginum dreifast þessi verkefni á fjölmörg ráðuneyti, en ekkert eitt ráðuneyti eða stofnun hefur beint með málaflokkinn að gera. Viljið þið gera eitthvað í því og þá hvað?

Þessi spurning setur puttann á vanda í kerfinu í dag – að vistvænar samgöngur eru staðsettar víða án þess að einhver ákveðinn sjái til þess að koma málum í framkvæmd. Þetta er í raun í takt við stöðu umhverfis- og loftslagsmála almennt í stjórnarráðinu. Þó að umhverfis- og auðlindaráðuneytið (UAR) sé með „boltann“ þá eru verkfærin dreifð um önnur ráðuneyti án þess að UAR geti hreyft við þeim. Þessu vilja Píratar breyta. Í loftslagsstefnunni okkar tölum við um að umhverfis- og auðlindaráðuneytið fái sterkari stöðu og að stofna miðlæga skrifstofu loftslagsmála sem hafi umboð til að skipta sér af áætlunum ólíkra ráðuneyta.

Hér hafa Píratar í Reykjavík talað fyrir því að hafa eina stofnun á höfuðborgarsvæðinu sem myndi sjá um allar samgöngur og alla samgöngumáta, sambærilegt því sem heitir Transport for London og hefur einmitt það hlutverk í höfuðborg Bretlands. Danir eru með svokallað Cycling Embassy og Hollendingar hafa einnig gefið hjólreiðum aukinn sess í stjórnsýslunni, bæði í innra skipulagi og mannafla. Þetta gæti til dæmis verið möguleiki á Íslandi ef að Vegagerðin yrði lögð niður í núverandi mynd og hún sett upp sem stofnun sem vinnur að því að þjónusta íbúa landsins í að komast á milli staða (og vöruflutninga) með loftslagsmarkmið ríkisins að leiðarljósi. Þannig myndi engin framkvæmd vinna gegn því markmiði og „Vegagerðinni” yrði skipt upp eftir ólíkum fararmátum. 

Previous Article

Hjólafréttir

Markmið hjólafrétta er að auka veg og vanda hjólreiða sem sports og samgöngumáta. Við vonum að þú lesandi góður hafir gagn og gaman af lestrinum. Um vefinn.

Samstarfsaðilar