Fókusinn á götuhjólreiðar, en prófar líka mölina

Í fyrra landaði Birkir Snær Ingvason bæði Íslands- og bikarmeistaratitli karla í götuhjólreiðum. Hann ætlar áfram að setja allan fókus á þá grein með það að markmiði að verja titlana milli ára, en því til viðbótar segist hann vilja prófa mölina. Nú í byrjun árs hafa Hjólafréttir rætt við nokkra einstaklinga sem voru framarlega í sportinu í fyrra til að athuga hvar áherslan verður á komandi tímabili.

Í samtali við Hjólafréttir segir Birkir að hann stefni á að halda sér mest á malbikinu og að hans helsta markmið sé að halda titlunum tveimur sem hann náði í fyrra. Birkir keppir með Airport direct liðinu sem hefur verið sýnilegt í fremstu röð götuhjólakeppna síðustu ár. Birkir segir að þeir verði áfram undir þeim merkjum í ár, en auk hans eru meðal annars í liðinu þeir Óskar Ómars, Kristófer Gunnlaugsson, Hörður Ragnarsson, Thomas Skov og Ragnar Adolf Árnason.

Félagarnir í Airport Direct stefna á að vera áfram í sumar framarlega í götuhjólakeppnum hérlendis.

Segist Birkir spenntur fyrir því að sjá hvernig liðamál þróist í ár, en auk Airport direct hafa til dæmis lið frá Erninum, Cube og Kríu verið áberandi. Segist Birkir eiga von á því að þeir Hafsteinn, Kristinn og Ingvar hjá Erninum verði þeirra helstu keppinautar í ár, en að hann voni að Cube mæti til leiks sterkir. Segir hann að þegar lið keppi á móti hvort öðru sé möguleiki á allskonar taktík og slíkt auki fjölbreytni og geri mótin hér heima mun skemmtilegri.

Sem smá hliðarskref segir Birkir að hann ætli sér einnig að setja áherslu á malarhjólamótið The Rift, sem fram fer í lok júlí. Er hann kominn á Trek Checkpoint hjól til að prófa sig áfram á þeim slóðum. „Þetta stækkar aðeins rammann og bætir við fleiri möguleikum,“ segir hann og bætir við að vonandi verði fleiri malarkeppnir í boði í ár þar sem um stækkandi grein sé að ræða.

Birkir segist ekki hafa horft sérstaklega á önnur mót á árinu, en hann viti að hann eigi fullt inni í fjallahjólreiðum, til dæmis í Bláa lóns þrautinni. „Ég á eftir að hitta á það þar. Ég hef lent í hremmingum þar undanfarin ár en það er alltaf gaman að gera vel þar,“ segir hann, en fyrir um fjórum árum síðan lenti hann í topp 10 í keppninni, en hefur síðan ávallt lent í vandamálum ýmisskonar.

Birkir ásamt tveimur af helstu keppinautunum í götuhjólakeppnum, þeim Ingvari og Eyjólfi. Ljósmynd/Smári Þrastarson

Í ár er samkvæmt mótaskrá HRÍ mikill metnaður settur í mótaröð með níu Critkeppnum. „Þetta er skemmtileg viðbót og ég mun líklega taka þátt í henni,“ segir Birkir. „Svona hálftíma eða klukkutíma döfulgangur. Það er um að gera ða mæta og vera með læti.“

Að lokum segist Birkir ætla að reyna að mæta í einhverjar fjallahjólakeppnir í sumar. Það sé þó meira upp á skemmtanagildið að gera og að komast heill frá þeim. „En maður hefur gott af því að læra betur að hjóla og það gerir maður á fjallahjólinu, bæði að beita hjólinu og líkamanum,“ segir hann að lokum.

Previous Article
Next Article

Leave a Reply

Hjólafréttir

Markmið hjólafrétta er að auka veg og vanda hjólreiða sem sports og samgöngumáta. Við vonum að þú lesandi góður hafir gagn og gaman af lestrinum. Um vefinn.

Samstarfsaðilar