Planið að reyna að verja titlana
Ágústa Edda Björnsdóttir hefur verið ein skærasta stjarnan í íslensku hjólasenunni undanfarin ár og verið valin hjólreiðakona ársins síðustu þrjú ár. Árið í fyrra var eitt af hennar öflugustu árum þar sem hún varð bæði Íslandsmeistari í götuhjólreiðum og tímatöku, auk þess að lenda í öðru sæti í cyclocross. Þá tók hún einnig bikarmeistaratitilinn í tímatöku og vann þar öll mót ársins. En hvað áformar hún á komandi tímabili?
Í samtali við Hjólafréttir segir Ágústa að planið á þessu ári sé að reyna að verja alla titlana. Hún segist hins vegar gera sér grein fyrir að það verði ekki auðvelt verk. „Þetta verður erfitt, það er fullt af stelpum að styrkja sig og æfa vel,“ segir hún og bætir við að hún sjái fram á mjög harða samkeppni á komandi keppnistímabili.
Ágústa segir að Íslandsmeistaratitlarnir í götuhjólreiðum og tímatöku séu aðalmarkmið ársins, en auk þess setur hún mikla áherslu á að taka þátt í eins mörgum bikarmótum og völ er á. Það er hins vegar ljóst að hjólasumarið er ansi þétt skipað í ár og segir Ágústa að áherslan verði á stóru mótin.
Í fyrra tók Ágústa þátt í heimsmeistaramótinu í Yorkshire á Bretlandi, bæði í tímatöku og götuhjólreiðum. Hún segist aftur vilja halda í slíkt ævintýri. „Markmiðið er að standa mig nógu vel í sumar til að geta tekið þátt á heimsmeistaramótinu,“ segir hún, en Ísland mun eiga þátttökusæti bæði í tímatöku og götuhjólreiðum kvennamegin. Þá hafi hún einnig verið að skoða með möguleika á að taka þátt á Evrópumótinu, en það getur oft reynst erfiðara að fá sæti þar.
Sem fyrr segir hefur Ágústa verið gríðarlega sterk í götuhjólreiðum og tímatöku undnafarin ár, sem og í cyclocross. Hún segir götuhjólreiðarnar líklega það sem togi mest í hana, en tímatakan sé þar rétt á eftir. Hún ætlar svo að halda áfram að horfa í kringum sig í öðrum greinum í ár og nefnir þar sérstaklega malarhjólreiðar. Segist hún vera skráð í Riftið og ætli sér að æfa sig talsvert á möl í ár til að vera vel undir það búin. Þá sé ekki ólíklegt að hún taki þátt í einhverjum fjallahjólakeppnum, en tekur fram að það sé alltaf sem aukagrein hjá sér. Hefur hún bæði prófað ólympískar og maraþon fjallahjólreiðar, en segir að maraþon keppnirnar hennti sér betur. „Það er ekki jafn mikil tækni þar,“ segir Ágústa og hlær.
Spurð út í almenningskeppnir segir Ágústa að það verði eiginlega bara að fá að ráðast af tíma, æfingum og öðrum keppnum. Þannig sé hún meðal annars ekki búin að taka ákvörðun um fyrstu mót ársins sem eru hluti af RIG leikunum, en þar er meðal annars keppt í hinni árlegu Uphill keppni á Skólavörðustíg.
Að lokum nefnir Ágústa að hún stefni á að taka aftur þátt í Haute Route móti á Ítalíu í júní, en þangað fór hún líka í fyrra. Segir hún að þarna sé nóg um klifur sem passi sér einstaklega vel. „Þetta er algjör brekkuveisla.“
Á næstu dögum munu Hjólafréttir taka stöðuna á hluta þess hjólreiðafólks sem skaraði fram úr í fyrra og athuga hvaða markmið og plön það er með fyrir komandi tímabil.
Forsíðumynd/Hari