Lauf upplýsir um nýja afturfjörðun

Íslenski hjólaframleiðandinn Lauf cycling hefur sótt um einkaleyfi á þremur mismunandi gerðum af afturdempurum og bætist þetta við fyrri uppfinningar þeirra með Lauf framhjólagafflinum og Smoothie stýrinu.

Meðal þess sem fram kemur í einkaleyfaumsókninni er að í einni hönnuninni verði hægt að stilla stífleika eða sveigjanleika dempunarinnar á ferð.

Flestir þekkja eflaust framhjólagaffal Lauf, en hann sker sig út frá öðrum dempurum með því að vera byggður á fjaðurfjöðrun í stað teleskópískra dempara (þessir hefðbundnu demparar á öllum fjallahjólum). Fjöðrunin fæst með því að setja nokkrar stuttar samsíða glertrefjafjaðrir sem taka í sig hristing sem kemur frá dekki og upp í gaffal.

Afturdempararnir sem nú er sótt um einkaleyfi á byggja allir á einhverskonar fjöðrun við sætistúpu niður í afturhjólið.

Fyrsta hönnunin og sú sem hefur minnstu fjöðrunina, eða allt að 10-15 mm, byggir á því að ákveðinn hluti sætistúpunnar beygist inn í stellið. Benedikt Skúlason, annar stofnanda og hönnuður Lauf, segir að með þessari hönnun sé jafnvel horft til fjöðrunar fyrir svokölluð tímatökuhjól eða þríþrautahjól. Þannig breytir hönnunin litlu um loftmótstöðueiginleika hjólsins. Einkaleyfisumsóknin með frekari skýringarmyndum.

Næsta hönnun byggir á n-laga hönnun frá sætistúpu niður í afturhjól. og ætti að ná um 30 mm fjöðrun. Umsóknin með frekar skýringamyndum.

Þriðja hönnunin byggir á því að fjörðin liggi frá efri hluta sætistúpunnar og niðurhallandi niður að afturhjóli. Auk einfaldrar hönnunar er þar einnig gert ráð fyrir því að hægt verði að setja færanlega nibbu eða skrúfu sem myndi breyta stífleika fjöðrunarinnar, jafnvel þegar verið er að hjóla. Umsóknin með frekari skýringarmyndum.

Lauf hefur þegar fengið tilraunaútgáfuhjól með þessari fjöðrun og segir Benedikt að eftir að hafa prófað þetta hér á landi fyrir nokkrum vikum hafi hann fyrst í alvöru farið að trúa því að þeir væru komnir með eitthvað sérstakt í hendurnar.

Samkvæmt Benedikt þá mun afturdemparinn bæta mjög takmarkaðri þyngd við hjólið auk þess að vera að mestu viðhaldsfrír. Þá lofar hann því að ekki verði mikill sjónrænn munur á þessari útfærslu miðað við hefðbundin götuhjól, en ein helsta gagnrýnin á framhjólademparann hefur einmitt verið hversu öðruvísi hann sé í útliti.

Benedikt segir að prófun á þessari hönnun muni taka nokkur ár og ekki sé að vænta fyrsta hjólsins á almennan markað fyrr en að þeim tíma liðnum.

Meðal erlendra hjólamiðla sem hafa fjallað um þessa nýjung hjá Lauf eru meðal annars Bike rumor og Road bike action. Umfjöllun Bike rumor er sérstaklega ítarleg og áhugaverð.

Previous Article
Next Article

Leave a Reply

Hjólafréttir

Markmið hjólafrétta er að auka veg og vanda hjólreiða sem sports og samgöngumáta. Við vonum að þú lesandi góður hafir gagn og gaman af lestrinum. Um vefinn.

Samstarfsaðilar