Mjög sáttur með árangurinn – Gíravandræði síðustu 20 km
Rúnar Örn Ágústsson kláraði tímaþraut karla á heimsmeistaramótinu í tímaþraut í gær, fyrstur Íslendinga, en daginn áður hafði Ágústa Edda Björnsdóttir leikið það sama eftir í kvennaflokki. Rúnar segir að hann hafi náð markmiðum sínum í keppninni, þó alltaf hefði verið gaman að gera enn betur. Rúnar lenti í vandamálum með hjólið síðustu 20 kílómetrana af 54 í brautinni og segir að gaman hefði verið að skoða brautina betur fyrir keppnina til að geta látið vaða í sumar beygjurnar. Þetta fari hins vegar allt í reynslubankann.
Rúnar ræddi við Hjólafréttir um keppnina og gefur smá innsýn á bak við tjöldin, aðstæður á staðnum, keppnina sjálfa og framhaldið. Þegar Hjólafréttir náðu á hann var hann að fylgjast með götuhjólakeppni unglinga í karlaflok og var staddur á pakkfullri krá við endamarkið og fá sér þar langþráðan öl eftir strangt agatímabil undanfarna mánuði.
Rosaleg stemning í Yorkshire
„Þetta er miklu skemmtilegri upplifun en maður bjóst við, rosalega margir að horfa og pubbinn er stútfullur og fólk klætt í fánaliti og allskonar,“ segir Rúnar og bætir við: „Þetta eru alvöru die-hard aðdáendur.“ Það er ekki ofsögum sagt að fréttaritari hafi aðeins komist í gírinn við að heyra þessar lýsingar, en pelotonið fer nokkra hringi um bæinn Harrogate áður en komið er í mark og því fullkomin aðstaða að sitja inni á krá og fylgjast með í sjónvarpinu og hoppa svo út og fagna þegar allir hjóla framhjá.
Mjög sáttur með árangurinn
En að keppninni í gær. „Já, ég er mjög sáttur með minn árangur, markmiðið var vel innan skekkjumarka,“ segir Rúnar, en hann hafði áður sagt að hann vildi helst vera efstur meðal þeirra sem ekki eru atvinnumenn, en í keppni sem þessari þýðir það að vera ekki í neðstu 10%.
Samtals tóku 57 þátt í tímaþrautinni í ár og var Rúnar í 49 sæti, eða vel innan þessara 10% viðmiða sem hann setti sér. Rúnar bendir þó á að einn keppandi, Daninn Martin Toft Madsen, hafi verið ofar en hann, en Madsen er í fullri vinnu heima fyrir samhliða því að keppa. Hins vegar ætti Madsen líklega heima í atvinnumannaflokki ef hann vildi og varð til dæmis í fyrra næst hraðasti maður heims í klukkustundarþraut (e. one hour record).
„Nú þarf bara að halda áfram“
„Það er gaman að fá að brjóta ísinn,“ segir Rúnar og vísar þar til þess að hann og Ágústa eru fyrst Íslendinga til að taka þátt á heimsmeistaramóti í götuhjólreiðum. „Nú þarf bara að halda áfram,“ bætir hann við og segir að vinna þurfi markvisst að því að koma hjólaíþróttinni á hærra plan á Íslandi þannig og senda fólk reglulega á stórmót út í heimi. Einungis með því nái Íslendingar árangri á alþjóðavettvangi.
Sem fyrr segir var brautin í ár 54 kílómetrar. Það er nokkuð lengra en farið er hefðbundið í keppnum sem þessum. Þá var brautin nokkuð tæknileg, bæði með stuttum bröttum brekkum og þröngum götuköflum með kröppum beygjum. Rúnar náði sjálfur ekki að hjóla brautina áður en hann tók þátt, en keyrði hana á bíl. Hann segir að það hefði gert mikið fyrir sig ef hann hefði getað hjólað brautina, því í bílnum hafi hann ekki alveg skynjað hversu brattar brekkurnar væru eða hvernig væri best að beita sér í beygjum, sérstaklega á köflum sem væru með blindbeygjur.
Hefði átt að keyra aðeins meira fyrri hlutann
Þá segir Rúnar að loka 10-15 kílómetrar brautarinnar hafi verið nokkuð falskir. Það er þá varð hún mjög hröð niður í mót og í gegnum bæinn. Þetta hefði hann betur áttað sig á ef hann hefði hjólað brautina, en braut sem þessi þýðir að það getur verið erfitt að halda jafn miklu afli þegar komið er á svo mikla ferð. „Þetta er dæmigerð leið þar sem maður á ekki að halda jöfnu afli, heldur keyra aðeins meira fyrri hlutann,“ segir Rúnar.
Fyrsti hluti brautarinnar var að hans sögn einmitt fullkominn til að halda fullu afli, en frá 15-35 kílómetrum kom svo tæknilegur kafli þar sem slík var einnig erfitt. Segir Rúnar að þar sé til dæmis erfitt að fara í blindar beygjur þegar maður sé ekki með brautina innprentaða í hausinn.
Eftir um 35 kílómetra var aftur komið á minna tæknilegan kafla þar sem hægt var að halda jöfnu afli. Bæði var vegurinn breiðari og þar með meira pláss til að skera beygjurnar. Rúnar segir að á þessum kafla hafi brekkurnar einnig verið nokkuð hraðar, aðeins hafi þurft að bæta við aflið efst í þeim á meðan á kaflanum á undan hafi þurft að hækka aflið talsvert þar sem um lengri og brattari brekkur var að ræða.
„Brautin refsar ekki mikið fyrir þá sem fara hratt af stað“
Á lokakaflanum var svo hraðasti kaflinn þar sem stórir hlutar voru niður á við, en Rúnar segir að þar hafi einnig verið nokkuð um blindbeygjur sem hann hafi ekki viljað láta sig vaða í þar sem hann þekkti brautina ekki nóg. Hins vegar hafi svo komið í ljós að flestar þeirra voru þægilega aflíðandi og þeir keppendur sem þekktu aðstæður létu sig gossa þar í gegn.
Vegna þess hvernig brautin er uppsett segir Rúnar að betra hefði verið að byrja aðeins yfir meðalafli. „Brautin refsar ekki mikið fyrir þá sem fara hratt af stað.“ Eftir á að hyggja segir hann að betra hefði verið að hjóla fyrstu 15 kílómetrana á kannski 10-20 wöttum yfir áætluðu meðaltali.
Rafmagnslaus þegar 20 km voru eftir
En það var ekki bara reynsluleysið af brautinni sem truflaði Rúnar í gær. Þegar hann var búinn með um 35 kílómetra komst hann að því að gírbúnaðurinn var batteríslaus. Segist Rúnar hafa hlaðið gírana fyrir ekkert svo löngu síðan og að hver hleðsla eigi að endast þokkalega lengi, en að auðvitað hafi hann átt að gera það aftur fyrir svona stóra keppni. „Þetta er 110% mér að kenna og svekkjandi að það gerist í þessari keppni. En maður tekur þetta bara í reynslubankann. Alltaf að fara yfir allt og tvítékka allt,“ segir hann.
Afleiðingin af rafmagnsleysinu var að hann var fastur á minna tannhjólinu, auk þess sem rafskiptarnir leyfa honum ekki að fara ofar en þriðja efsta tannhjól að aftan meðan keðjan er á minna framtannhjólinu. Því var 44-13 hæsti gírinn hans síðustu 20 kílómetrana á þeim stað þar sem brautin er hvað hröðust. Á þessum síðasta kafla var hann því á um 115-120 snúning (e. cadence) og hafði ekki gír til að keyra hraðar. „Svekkjandi, en hefði ekki farið upp um nein sæti með þessu,“ segir Rúnar.
Planið að sögn Rúnars var að hjóla á 350-360 wöttum í meðalafli. Fram að því að hann missti gírana var hann með 352 wött að meðaltali og 365 wött noramalized. „Ég var á markmiðinu þar,“ segir hann, en í framhaldinu hafi svo talan dottið niður og að endingu hafi meðalvöttin normalized verið 351.
Gríðarlegur hraði
Það vakti athygli áhorfenda bæði í kvenna- og karlakeppninni að hraðinn var gríðarlega mikill á ákveðnum hlutum leiðarinnar í bröttustu brekkunum. Hér á landi erum við ekki vön slíku í tímaþrautum og reynsla fólks af því að fara á svo miklum hraða niður brekkur því lítil. Spurður út í hröðustu kaflana og hvernig hann tæklaði þá segir Rúnar að hann hafi ekki verið í „aero-stellingunni“ niður bröttustu brekkurnar. Þá hafi hann farið mest á 83 km/klst hraða, en segist búast við því að þeir sem hafi farið hraðast og látið sig gossa í gegnum allar beygjurnar hafi líklega farið eitthvað yfir 90 km/klst. „Við upplifum þetta ekki heima á Íslandi,“ segir hann.
Aldrei upplifað neitt svona áður
Aðstæður á heimsmeistaramóti eru með þeim bestu sem gerist í hjólreiðaíþróttinni og segir Rúnar að hann hafi aldrei upplifað neitt svona áður. Í fyrsta lagi sé allt til alls og rosalega vel hugsað út í alla skipulagningu og aðstoð. Þá segir hann að ekki sé gerður neinn greinarmunur á hvaðan fólk komi, hvort það sé frá stóru hjólalandi eða litlu. Þannig hafi hann fengið sömu þjónustu og eftirlit frá starfsfólki keppninnar.
Meðal annars hafi hann komið með hjólatrainer út til að geta hitað upp. Hins vegar hafi verið risastórt tjald þar sem fólk hafði aðgang að trainerum og starfsmaður hafi komið hjólinu fyrir, stillt öllu upp, komið með handklæði og svo spurt hvað hann þyrfti meira. „Það var allt þarna frá a-ö og hugsað fyrir öllu. Eitthvað sem ég hef ekki upplifað áður.“ Segir Rúnar að það hafi alveg verið komið í veg fyrir að hann eða aðrir frá minni þjóðum gætu notað afsökunina „ef ég hefði verið með betra support þá…“ eftir keppni.Keppnin útvegaði einnig þeim liðum sem ekki höfðu liðsbíl bíl með bílstjóra til að fylgja keppandanum og notuðust íslensku keppendurnir við það.
Í nógu að snúast hjá liðstjóranum
Hann segir þetta reyndar ekki hafa komið í veg fyrir að David Robertsson, liðstjóri liðsins, hafi verið á fullu allan tímann og reddað þeim Ágústu þegar á þurfti að halda. Til dæmis hafi komið í ljós í mælingu fyrir keppnina í dag að „aerobarið“ á hjólinu hafi verið 1 sm of langt. Rúnar segir að þeir hafi verið búnir að mæla þetta heima, en dómararnir í Bretlandi notist greinilega við önnur viðmið hvar barið byrjar. David stökk þá til og var kominn með sögina á loft og stytti barið um sentímeterinn.
Ætlar sér stóra hluti á næsta ári
Rúnar segir spurður um næstu skref að núna sé tímabilið formlega búið. Við taki 1-2 vikur af góðri afslöppun. „En svo byrjar maður aftur að æfa fyrir næsta ár,“ segir hann. Á næsta ári stefnir hann á að einbeita sér að hjólreiðum áfram, en Rúnar hefur áður einnig verið framarlega í þríþraut. Segist hann stefna að því að ná betri árangri í hjólreiðunum, bæði tímaþraut, sem hefur verið hans aðalþraut, sem og í hefðbundnum götuhjólreiðum (RR).
4 Replies to “Mjög sáttur með árangurinn – Gíravandræði síðustu 20 km”
Leave a Reply
You must be logged in to post a comment.
Mér er fyrirmunað að skilja hvernig hann gat verið fyrstur íslendinga til að gera eitthvað sem íslensk kona gerði daginn áður!
Sæl Heiðrún.
Eins og kemur fram í byrjun greinarinnar var hann fyrstur í karlaflokki, en Ágústa var einmitt fyrst í kvennaflokki daginn áður.
“Rúnar Örn Ágústsson kláraði tímaþraut karla á heimsmeistaramótinu í tímaþraut í gær, fyrstur Íslendinga, en daginn áður hafði Ágústa Edda Björnsdóttir leikið það sama eftir í kvennaflokki.”
Hvernig gat hún leikið ,,eitthvað eftir ” deginum áður?
Og hann var fyrstur íslenskra karla ekki fyrstur Íslendinga!