Tímamótakeppni hjá Ágústu í Yorkshire

Ágústa Edda Björnsdóttir varð í dag fyrst íslenskra kvenna til að taka þátt á heimsmeistaramóti í hjólreiðum og fyrsti Íslendingurinn til að taka þátt í heimsmeistaramóti í götuhjólreiðum. Vígvöllurinn var  tímaþrautsleið á milli Ripon og Harrogate í Yorkshire á Bretlandi, 32km leið og 474m hækkun.

Aðstæður voru erfiðar, en á svæðinu hellirigndi í dag og hafði það meðal annars talsverð áhrif á U23 kk keppnina sem fór fram fyrr um daginn þar sem vatnsflaumur orsakaði fall nokkurra í brautinni. Vegna þessa var keppni kvenna frestað um tæplega klukkustund. Í samtali við Hjólafréttir segir Ágústa að aðstæður hafi verið mjög erfiðara. Bæði hafi rigningin haft talsverð áhrif og þá var brautin mjög tæknileg. „Mikið um brekkur, bæði stuttar og langar og brattir kaflar niður. Þá var talsvert um krappar beygjur og þegar blautt er og malbikið sléttara en maður er vanur þá er meira en að segja það að setja hausinn niður og láta sig hafa það,“ segir hún.

Ágústa var að keppa við margar af bestu tímaþrautskonum heims á mótinu, en þær keppa með atvinnumannaliðum og ferðast vítt og breitt um heiminn til að keppa á hverju ári. Þá segir hún að mörg liðanna hafi verið mætt fyrir löngu síðan og hafi æft sig í brautinni reglulega.

Ágústa endaði í 49. sæti af 53 keppendum. Hún segist sátt við aflið sem hún hafi verið að skila en að hún hafi þó viljað gera betur. „Er sátt við aflið, en ég var að tapa á tæknilegu köflunum,“ segir hún. Þá hafi hún klúðrað málum aðeins í byrjun þegar hún hafði óvart stillt hjólatölvuna miðað við upphitunaræfingu og ekki verið með afltölurnar á fyrsta skjá. Þannig hafi fyrstu sekúndurnar niður byrjunarrampinn farið í að stilla á réttan skjá meðan hún reyndi að setja allt á fullt. „Maður er frústreraður yfir þessu og hefði viljað gera betur, en ég reyni að sannfæra mig um að ég hafi staðið mig vel,“ segir Ágústa glettin, en hennar þátttaka á heimsmeistaramótinu er ekki enn lokið þar sem hún mun keppa í götuhjólreiðakeppninni á laugardaginn.

Spurð út í tölur úr keppninni segir Ágústa að meðal normalized afl hafi verið um 250 wött sem hún sé nokkuð sátt með. Þá hafi hún reynt að halda wöttunum jöfnum í um 270 upp lengri brekkurnar þrjár.

Ágústa fékk því miður ekki mikið airtime þar sem Dygert var að setja ofurtímann sinn á sama tíma. Hér sést hún hins vegar, einmitt í mynd með Dygert. Ágústa er nr 27.

Hin 22 ára gamla Chloe Dygert frá Bandaríkjunum stóð uppi sem sigurvegari í dag, en hún átti alveg ótrúlegan dag og var 1:32 min á undan næsta keppenda, Anna van der Breggen frá Hollandi. Annemiek van Vleuten, einnig frá Hollandi var í þriðja sæti, en þær löndur eru meðal fremstu hjólreiðakonum heims og hreint út sagt ótrúlegt að Dygert hafi getað búið til svona mikið forskot á þær.

Dygert sagði eftir keppnina að einn af hennar helstu styrkleikum í keppninni hafi verið að hjóla á aflmælis. Spurð út í þessa aðferðafræði segir Ágústa að hún skilji þessa hugmyndafræði og að hún hafi sjálf prófað að keppa með aðeins púlsmæli eða bara út frá tilfinningu. „Ég skil þessa pælingu ef maður þekkir sig rosalega vel,“ segir hún. Með þessu sé hægt að koma í veg fyrir að festa sig í ákveðinni afltölu og verið ósáttur og pirraður ef maður nær ekki að halda henni, eða að maður haldi aftur af sér ef manni líði mjög vel.

Á morgun keppir Rúnar Örn Ágústsson í tímaþraut karla, en eins og fyrr segir tekur Ágústa svo þátt í götuhjólreiðakeppninni á laugardaginn. Nóg framundan fyrir hjólaþyrsta Íslendinga.

Previous Article
Next Article

One Reply to “Tímamótakeppni hjá Ágústu í Yorkshire”

Leave a Reply

Hjólafréttir

Markmið hjólafrétta er að auka veg og vanda hjólreiða sem sports og samgöngumáta. Við vonum að þú lesandi góður hafir gagn og gaman af lestrinum. Um vefinn.

Samstarfsaðilar