Í djúpu lauginni með Íslandsmót á nýrri braut á skíðagöngusvæði
Það er nýtt hjólreiðafélag, Vestri – hjólreiðar, á Ísafirði sem stendur fyrir Íslandsmótinu í ólympískum fjallahjólreiðum í ár, en keppnin fer fram sunnudaginn 21. júlí í nýrri braut sem félagið hefur unnið að því að leggja undanfarnar vikur á skíðagöngusvæðinu á Seljalandsdal, en á sama svæði hefst og endar meðal annars Fossavatnsgangan.
Til skýringa felast ólympískar fjallahjólreiðar í því að hjóla nokkra hringi á styttri brautum (4-6 km) þar sem heildartími keppninar er í um 90 mínútur. Brautirnar eru tæknilegar og krefjandi og þurfa keppendur að hjóla yfir erfiða stíga, hindranir og brattar brekkur bæði upp og niður. Maraþonfjallahjólreiðar (XCM) eru hinsvegar hjólaðar á lengri leiðum, 60 – 160 km sem getur tekið yfir þrjár klukkustundir að klára. Íslandsmótið í XCM fer einmitt fram daginn áður við Þingeyri, en keppnin sem ber nafnið Vesturgatan hefur verið haldin þar mörg undanfarin ár.
Umfjöllun Hjólafrétta um Vesturgötuna
HRÍ leitaði til forsvarsmanna félagsins í vor varðandi að halda mótið, en Vestri – hjólreiðar var einmitt stofnað í upphafi árs og segir Heiða Jónsdóttir keppnisstjóri að félagsmenn hafi ákveðið að slá til og stökkva út í djúpu laugina og það hafi verið mikið lærdómsferli að koma að keppnishaldinu og að byggja upp nýja braut,sem hefur fengið heitið Dalurinn.
Brautin sjálf er 4,3 km löng og er á Seljalandsdal fyrir ofan Ísafjörð. Eins og fyrr segir er miðað við 90 mínútna keppni og segir Heiða að miðað við það fari elite flokkur karla fimm hringi og elite flokkur kvenna og mastersflokkur karla fjóra hringi. Er því um að ræða sama hringjafjölda að ræða og var t.d. í Morgunblaðshringnum í vor.
Hér fyrir neðan eru birtar nokkrar myndir frá brautinni og vinnu við að setja brautina upp.
Heiða segir að notaður sé hluti af gönguskíðabrautinni þar sem séu vegaslóðar til þess að hjóla upp. „Þetta er góð lúppa upp og niður með allskonar krúsídúllum,“ segir Heiða hlægjandi þegar hún er beðin um að lýsa leiðinni betur. Hún segir brautina liggja um lynggróið grjótasvæði þannig að keppendur munu fá að kljást við vestfirska grjótið á leiðinni. Þar sem brautin er um skíðagöngusvæðið segir Heiða að aðgengi fyrir áhorfendur sé gott og að keppnin ætti að verða mjög áhorfendavæn.
Fjallahjólreiðar hafa verið í mikilli sókn fyrir vestan undanfarið og segir Heiða mjög gott fyrir fjallahjólafólk á svæðinu að fá svona viðburði til sín með öllu helsta fjallahjólafólki landsins. Slíkt ýti undir áhuga heimamanna og þá segist hún vona að gestir sem komi muni uppgötva svæðið betur sem fjallahjólasvæði.
Vestri hefur undanfarið unnið að því að byggja upp fleiri fjallahjólabrautir að sögn Heiðu. Þannig fékkst leyfi frá sveitarfélaginu til að leggja nokkra stíga, meðal annars tvær enduro brautir; Hnífana sem var lögð fyrir tveimur árum og Bununa sem var lögð í vor. „Svæðið fyrir vestan er geggjað fyrir þetta sport, fullt af vegum upp á heiðarnar,“ segir Heiða og bætir við að líklega fái Íslandsmótsbrautin að standa áfram og þar með fjölgi enn frekar í flóru fjallahjólreiða á svæðinu.
Þá hafa verið sett upp single track og margt annað spennandi í gangi. „Við erum ótrúlega spennt að fá fólk vestur að hjóla og hjóla leiðirnar til,“ segir Heiða og vonast til að þeir sem kíki á Íslandsmótið njóti þess einnig að uppgötva fleiri fjallahjólaleiðir á svæðinu.
Auk Íslandsmótsins mun Vestri standa fyrir opnu Vestfjarðarmóti barna og unglinga í fjallahjólreiðum sama dag og Íslandsmótið. Frekari upplýsingar um það má finna á vef HRÍ.