Vesturgatan – Hitað upp fyrir Íslandsmótin í fjallahjólreiðum

Áður en lengra er haldið er rétt að minna á að enn er hægt að skrá sig, bæði í Vesturgötuna (Skráning hér) og Íslandsmótið í fjallahjólreiðum (Skráning hér).

Nú þegar Íslandsmótin í götuhjólreiðum og tímatöku eru að baki þá eru næstu viðburðir Íslandsmótin í fjallahjólreiðum, annarsvegar maraþonfjallahjólreiðum og hinsvegar í hefðbundnum fjallahjólreiðum. En hver er munurinn?

Fjallahjólreiðar (XCO) felast í því að hjóla nokkra hringi á styttri brautum (4-6 km) þar sem heildartími keppninar er í um 90 mínútur. Brautirnar eru tæknilegar og krefjandi og þurfa keppendur að hjóla yfir erfiða stíga, hindranir og brattar brekkur bæði upp og niður. Maraþonfjallahjólreiðar (XCM) eru hinsvegar hjólaðar á lengri leiðum, 60 – 160 km sem getur tekið yfir þrjár klukkustundir að klára.

Unnendur hjólreiða munu geta tekið þátt í báðum greinunum eða horft á dagana 20-21. júlí á Vestfjörðum þegar Vesturgatan (55 km XCM) er ræst frá Þingeyri þann 20. júlí og svo þann 21. júlí þegar Íslandsmótið í fjallahjólreiðum (XCO) fer fram á fjallahjólabraut Ísafjarðar á Seljalandsdal.

Þótt Vesturgatan nái ekki viðmiðunarvegalengd UCI er keppnin á undanþágu og gild sem landsmót Íslands.

Vesturgatan – Íslandsmótið í Maraþonfjallahjólreiðum

Íslandsmótið í Maraþonfjallahjólreiðum verður hjólað frá Þingeyri þann 20. júlí. Vesturgatan eins og keppnin er kölluð hefur verið haldin mörg undanfarin ár og er hluti af Hlaupahátíð á Vestfjörðum. Vegaslóðin sem kallast Vesturgatan er mögnuð leið sem hefst á Þingeyri í Dýrafirða, liggur yfir Álftamýraheiði yfir í Arnarfjörð og svo er skaginn hjólaður að nýju til Þingeyri.

Leiðin er krefjandi, fljótlega eftir ræsingu tekur við klifrið upp á Álftamýraheiði en það er tæplega 4 km langt í 11% meðalhalla á erfiðum vegi. Til að átta sig á erfiðleikastiginu er hægt að líta á Strava segmentinn hér, en þar má sjá að víða fer hallinn yfir 20%. Einungis tveir hafa klárað klifrið á yfir 10 km/klst, þeir Ingvar Ómarsson sem á KOMið og Hafsteinn Ægir Geirsson. Besta tímann setti Ingvar í Vesturgötunni 2017 og til þess að þurfti hann að halda 373w í 22 mín og 16 sek og náði þar með að bæta besta tíma Hafsteins um 2 sek en það met hafði staðið frá árinu 2013. Þegar klifrið er búið tekur við leiðin niður en Vesturgötunni er þá ekki lokið heldur eru 35 kílómetrar eftir í mögnuðu umhverfi.

Ingvar Ómarsson hefur sigrað Vesturgötuna undanfarin þrjú ár en hann hefur alls sigrað hana fimm sinnum, en einnig hafa Hafsteinn Ægir Geirsson og Bjarki Bjarnason sigrað hana, Hafsteinn tvisvar (2011-2012) og Bjarki árið 2015. Í kvennaflokki hefur María Ögn Guðmundsdóttir verið sigursæl, en hún hefur sigrað keppnina fjórum sinnum. María og Ingvar eiga einnig brautarmetin, en hraðast hefur María hjólað Vesturgötuna á 2 klst og 38 mín árið 2013. Hraðast hefur Ingvar hjólað á tímanum 2 klst, 9 mín og 52 sek þegar hann sigraði árið 2017 en þar munaði einungis sekúndu milli hans og Hafsteins í endaspretti.

Ljóst er að hvort sem fólk er að leita sér að spennandi keppnishjólreiðum eða vill fara fallega og skemmtilega fjallahjólaleið með hóp fólks, þá er Vesturgatan rétta keppnin.

Previous Article
Next Article

One Reply to “Vesturgatan – Hitað upp fyrir Íslandsmótin í fjallahjólreiðum”

Leave a Reply

Hjólafréttir

Markmið hjólafrétta er að auka veg og vanda hjólreiða sem sports og samgöngumáta. Við vonum að þú lesandi góður hafir gagn og gaman af lestrinum. Um vefinn.

Samstarfsaðilar