Tour de France – Staðan á hvíldardegi 1
Tourinn hefur farið frábærlega af stað og full ástæða til að hrósa skipuleggjendum fyrir spennandi brautarval þetta árið. Fyrsta vikan er nú búin og línur aðeins farnar að skýrast í heildarkeppninni og vitum við áhorfendur aðeins meira um formið á keppendum. Tíu dagleiðir voru hjólaðar fyrir fyrsta hvíldardag og þar af var ein þeirra liðstímataka.
Fyrsta vikan í túrnum einkennist oft af minni baráttu í heildarkeppninni þar sem meira er um flatar eða hæðóttar dagleiðir og því meiri barátta um sigur í dagleiðum og um grænu treyjuna. Það merkir þó ekki að ekkert geti gerst í heildarkeppninni en þetta eru einmitt dagleiðirnar þar sem liðin þurfa að vera vel á verði, hafa lykilmenn vel staðsetta því þarna getur dýrmætur tími tapast ef lykilmenn lenda í slysum eða vandamálum með búnað. Bæði Jakob Fuglsang (dagleið 1) og Geraint Thomas (dagleið 8) hafa farið í jörðina en í báðum tilfellum tapaðist ekki tími.
Keppendur voru þó ekki jafn heppnir í gær þegar 10. dagleið var hjóluð. Miklir hliðarvindar splittuðu pelotoninu þegar um 40 km voru eftir en það átti eftir að gjörbreyta stöðunni í heildarkeppninni. Bil myndaðist og voru nokkrir GC keppendur illa staðsettir og óviðbúnir. Í seinni hópnum sátu nokkrir eftir þ.á.m Rigoberto Uran (EF), Jakob Fuglsang (Astana) og Thibaut Pinot (FDJ). Pelotonið ætlaði sér ekki að leyfa þeim að komast aftur til baka og nýttu Ineos sér það með að keyra upp hraðann kröftuglega og nutu stuðnings Movistar og Deceuninck Quick Step en þeirra menn Quintana og Enric Mas voru í fremsta hóp. Hetjuleg barátta seinni hópsins náði gatinu niður í 14 sek. á tímabili en nær komust þeir ekki. Þegar dagleiðin var búin höfðu menn í seinni hópnum tapað 1 mín og 40 sek degi fyrir hvíldardaginn.
Hvað hefur staðið upp úr í viku 1?
Jumbo – Visma – Skemmtilegt lið Jumbo-Visma byrjaði keppnina af krafti. Á fyrstu dagleið lentu þeir þó í því óhappi að þeirra aðal sprettari, Dylan Groenewegen fór í jörðina á lokametrunum. Engu að síður náði Mike Teunissen að klára sprettinn og sigra dagleið 1 fyrir liðið og landa Gulu Treyjunni á fyrstu dagleið. Liðið átti svo annan stóran dag strax á dagleið 2 þegar þeir sigruðu liðstímatökuna (Líkt og við spáðum í upphituninni). Þar mátti m.a. sjá mikinn styrk Tony Martin og Wout Van Aert en báðir hafa verið sýnilegir í túrnum, Tony oft að draga pelotonið og í breakum, og WVA sem var í hvítu treyjunni fram á 6. Dagleið. Jumbo Visma hafa ekki látið þar við sitja og hafa sigrað tvær dagleiðir til viðbótar, annars vegar þegar Groenewegen sigraði lokasprettinn á dagleið 7 og svo þegar Wout Van Aert kom fyrstur í mark á dagleið 10.
Alaphilippe í Gulu – Julian Alaphilippe er enn í sama frábæra forminu og í vor og strax á 3. dagleið ákvað hann að nýta síðustu brekkuna í árás sem enginn náði að elta. Alaphilippe sigraði þriðju dagleið og Deceuninck Quick Step (DQS) komnir á blað í túrnum. Alaphilippe hefur ekki verið að slaka á í Gulu, strax á fjórðu dagleið sást hann meðal annars að draga DQS lestina og skilaði það sér í sigri Viviani á lokasprettinum. Alaphilipe náði að halda treyjunni fram á erfiða 6. Dagleið en tapaði henni naumlega til Guilio Ciccone hjá Trek Segafredo en Ciccone hafði verið farið snemma í ‘breikið’ og haft forskot. Ciccone átti hinsvegar ekki eftir að klæðast treyjunni lengi þar sem Alaphilippe gerði aftur árás á hæðóttri dagleið 8 og náði sér í sekúndur (og bónus sekúndur) til að ná treyjunni að nýju, degi fyrir Bastilludaginn. Nú er hann enn í treyjunni og spurning hversu lengi hann muni klæðast henni. Það gæti reynst áskorun í næstu viku með bæði fjöllin og tímatöku framundan.
Lotto Soudal í breikum – Frammistaða fyrstu vikunnar er að okkar mati frammistaða Thomas De Gendt í breikinu á dagleið 8. Áður hafði hann verið í breikinu á dagleið 6, en Thomas reynir ávallt að komast í breikin. Dagleið 8 var hröð, hæðótt og krefjandi leið. De Gendt birti dagleiðina sína á Strava, en þar mátti sjá að til að sigra þurfti De Gendt að halda 343w í yfir 5 klst, þar af um 470w í 4 mín til að komast í sjálft breikið, og svo 460w í 5 mín í lokaklifrinu. Ótrúleg frammistaða en De Gendt, ásamt liðsfélögunum Tim Wellens og Tiesj Benoot hafa verið sýnilegir í breikum túrsins.
Loka klifrið á dagleið 6 – Við höfðum bent á dagleið 6 sem eina af þeim sem þyrfti að horfa á. Hún átti ekki eftir að valda vonbrigðum, en hún svaraði mikilvægum spurningum um hverjir séu í formi og líklegir og svo hverjir séu það ekki. Dagleið 6 var þannig fyrsta stóra prófið fyrir GC keppendur. Þeir sem féllu á því prófi voru Romain Bardet (AG2R) en hann var í 27. sæti á dagleiðinni og tapaði um mínútu á fremstu GC keppendur. Áður hafði Romain tapað meira en mínútu í liðstímatökunni og nú á hvíldardeginum er hann meira 3 mín frá efsta manni. Aðrir sem töpuðu tíma á fremstu GC menn þann daginn voru Steven Kruijswik (Jumbo-Visma), Enric Mas (DQS), Adam Yates (Mitchelton Scott) og Rigoberto Uran (EF).
Í miðju lokaklifrinu gerði Mikel Landa (Movistar) árás og Ineos og FDJ eltu en að lokum var það tilraun Alaphilippe til að verja gulu treyjuna sem virkilega kveikti í hópnum. Á síðustu metrunum var það Geraint Thomas (Ineos) sem sýndi gríðarlega styrk og kom fyrstur í mark úr pelotoninu með Thibaut Pinot (FDJ) næstan á eftir sér. Quintana (Movistar) var einnig skammt undan ásamt Jakob Fuglsang (Astana), Richie Porte (Trek Segafredo) og Egan Bernal (Ineos).
Heildarkeppnin – Geraint Thomas líklegastur
Geraint Thomas sýndi það á dagleið 6 að hann er líklegastur til að sigra Túrinn þetta árið. Efasemdir höfðu verið um form hans en þær hurfu fljótt þegar hann kláraði lokaklifrið. Hann er jafnframt líklegastur til að vera í Gulu Treyjunni eftir tímatökuna sem fer fram á föstudag. Geraint Thomas nýtur einnig góðs að því að Ineos liðið virðist vera vel staðsett og undirbúið undir krefjandi kafla. Þetta sást vel í dagleið 10 þegar hliðarvindur átti eftir að setja strik í reikninginn hjá nokkrum keppendum en lið sem ætla sér að vera í heildarkeppninni geta ekki leyft sér að vera illa staðsett á slíkum tímapunkti.
Fyrir dagleið 10 leit út fyrir að keppnin myndi vera fremur jöfn, Astana liðið sem er firnasterkt hafði látið lítið fyrir sér fara, Pinot virtist vera í frábæru formi og Movistar höfðu ekki sýnt öll spilin. Thibaut Pinot hafði náð að sækja sekúndur þegar hann elti Alaphilippe í árás á dagleið 8 og var kominn með forskot á Geraint Thomas sem hefði getað gagnast honum fyrir tímatökuna. Dagleið 10 gjörbreytti þessu og nú eru Thomas og Bernal í vænlegri stöðu fyrir tímatökuna og fjöllin, með 52 sek á Quintana og um 90 sek á Pinot. Það merkir að hin liðin munu þurfa að fara í árásir og sækja þennan tíma og Ineos gætu þurft að verjast.
Staðan í heildarkeppninni
Nafn – Lið – Sek frá efsta manni
01. Julian Alaphilippe – Deceuninck Quick Step – /
02. Geraint Thomas – Team Ineos – 01:12
03. Egan Bernal – Team Ineos – 01:16
04. Steven Kruijswijk – Jumbo Visma – 01:27
05. Emanuel Buchmann – Bora HansGrohe – 01:45
06. Enric Mas – Deceuninck Quick Step – 01:46
07. Adam Yates – Mitchelton Scott – 01:47
08. Nairo Quintana – Movistar – 02:04
09. Dan Martin – UAE Team Emirates – 02:09
10. Giulio Ciccone – Trek Segafredo – 02:32
Aðrir
11. Thibaut Pinot – Groupama FDJ – 02:33
13. Rigoberto Uran – EF Education First – 03:18
15. Romain Bardet – AG2R La Mondiale – 03:20
16. Jakob Fuglsang – Astana – 03:22
20. Richie Porte – Trek Segafredo – 03:59
Í Gulu treyjunni -> Julian Alaphilippe
Í Grænu treyjunni -> Peter Sagan
Í Doppóttu treyjunni -> Tim Wellens
Í hvítu treyjunni -> Egan Bernal
Hvað er framundan í viku 2?
Eftir hvíldardaginn tekur við ein flöt dagleið. Eftir hana eru það Pýreneafjöllin, og einstaklingstímataka. Það er óhætt að mæla með dagleiðum á því svæði, enda brattar brekkur víða. Við mældum sérstaklega með dagleiðum 14 og 15 (20 og 21. júlí) í upphitun okkar en báðar enda á fjallstoppi. Dagleið 14 er einungis 117 km og endar upp Col du tourmalet (19km klifur í 7,4%) en þar sigraði Alaphilippe í fyrra og Thibaut Pinot árið 2016. Dagleið 15 verður ekki síðri, þrjú alvöru klifur degi fyrir hvíldardag tvö. Niðurstaðan úr 10. Dagleið merkir að ákveðnir hjólarar þurfa að sækja tíma og reynslan hefur kennt manni að allt getur gerst á viku 2 og 3.