Þriggja daga malarhjólaferð um Fjallabak

Glampandi sólskin, margir tugir lækja- og árvaða, 240 km á möl og sandi, þoka og rigning, ægifagurt Fjallabakið sem á fáa sína líka, sandstormur þannig að maður sá varla úr augum, snjóbrekka, gisting í skálum og krefjandi malarhjólreiðar, bæði á nokkuð sléttu undirlagi, en líka mjög grýttu, auk fjölda brattra brekka sem reyndu vel á lappirnar. Þetta var hluti af þeirri upplifun sem maður fékk að njóta á þriggja daga solo-ferðalagi um Fjallabak sem ég fór í í síðustu viku, en lengi hafði ég haft augastað á ferð sem þessari. Þegar ég festi nýlega kaup á mínu fyrsta malarhjóli, True Grit frá snillingunum í Lauf, var ekki annað hægt en að láta verða af þessum draumi, sérstaklega í ljósi þess að ég skráði mig fyrr á árinu í The Rift og ekki seinna vænna en að fá smá aukna þjálfun á mölinni.

Hugmyndin var sem sagt að taka allt Nyrðra Fjallabakið (Landmannaleiðina) og eins stóran hluta af Syðra Fjallabaki og mögulegt var. Ferðast með allan farangur og mat sem nauðsynlegt var að hafa með sér, en ég leyfði mér þó að gista í skálum, þannig að dýna og tjald var ekki nauðsynlegt. Síðast en ekki síst setja nýja hjólið í alvöru test, en það er búið sérstaka demparagafflinum frá Lauf. Þess skal getið að undirritaður hefur ekki mikla reynslu af malarhjólreiðum né fjallahjólreiðum, en hefur þó farið í eina malarferð áður fyrir um tveimur árum og nokkrum sinnum niður Jaðarinn fyrir nokkrum árum. Reynslan er annars öll á götuhjólum.

Setupið sem farið var með. Reyndar er þessi mynd tekin í lok ferðar, en sýnir vel hvað var sett á bakið og 10l bakpokann.

Á hjólið setti ég „frame-bag“ og „cockpit-bag“ frá Revalate, auk þess að vera með litla „saddle-bag“ á hnakknum með verkfærum og einni auka slöngu. Í töskunni ofan á topptúbunni var ég með gel og bars dagsins, en í neðri töskuna setti ég mat hinna daganna, auka slöngur og batterí. Þá var eitthvað örlítið af öðru smádóti þar líka. Að lokum var ég með 10 lítra Osprey bakpoka með örþunnum svefnpoka (comfort 15+)  til að gista í skálunum, föðurland (bol og buxur) til að vera í yfir kvöldið og til að sofa í, þunnan regnjakka, húfu, auka sokka, þunnan ullarbol til að geta hjólað í ef það myndi kólna og legwarmers. kort af svæðinu og þurrmat (bæði kvöld og morgunmat). Allt sem ekki mátti blotna var svo í þurrpoka. Ég gleymdi reyndar að vigta hvað allt væri þungt, en þetta var merkilega létt og auðvelta að hjóla með.

Sjálfur var ég klæddur í Bioracer galla, nokkuð þunna ullarsokka, með armwarmers, knee warmers og auðvitað með hjálm og sólgleraugu og garmin á hjólinu. Þá var ég með tvo vatnsbrúsa, en sjaldnast með báða fulla, enda talsvert um læki á leiðinni. Hjólið var á orignal dekkjum, Maxxis rambler 40mm.

Ég ákvað að byrja við Landmannahelli sem er miðja vegu inn á Landmannaleið í áttina að Landmannalaugum. Þaðan var farið fyrstu dagleið yfir í Hólaskjól sem er austan megin á Nyrðra Fjallabaki. Gist í skálanum þar, en daginn eftir haldið í átt niður af Fjallabaki og að þjóðvegi 1, en rétt áður farið Hrífunesveg og þaðan inn á Öldufellsleið, sem liggur austan megin við Mýrdalsjökul. Þaðan var upp á Mælifellssand og í Strútsskála þar sem gist var aðra nótt. Á þriðja degi var svo aftur farið niður á sandinn og yfir í Hvanngil, næst Álftavatn og yfir Markarfljót, áður en beygt var upp á Krakatindaleið, komið niður við Helliskvísl og hjólað niður Landmannaleið niður að Landvegi við Búrfell. Dagleiðirnar voru 60km og svo um 90 km báða seinni dagana, samtals um 240 km.

Frábært veður á fyrsta degi og þægilegt var að hjóla í átt að Laugum. Hér má sjá veginn við gatnamót Landmannaleiðar og Sigölduleiðar við Frostastaðavatn. Fínasta undirlag, en aðeins á undan var talsvert lausari sandur.

Fyrsti ferðadagurinn var sunnudagurinn 23. júní. Veðrið var í einu orði sagt frábært. Glampandi sól, þægilegur hiti og örlítil gola. Til að safna í „mental toughness“-sarpinn fyrir The Rift ákvað ég að ég myndi reyna við flestar eða öll vöð á leiðinni og ekki pæla neitt í blautum fótum. Fyrsta vað dagsins var Helliskvíslin eftir um 300 m  ferð. Skellti mér beint út í ánna og bjóst við að komast nokkuð auðveldlega yfir. Hins vegar gerði sandbotninn mér erfitt fyrir og ef wattamælir hefði verið á hjólinu hefði hann líklega sýnt 700+ wött í nokkrar sekúndur. En yfir komst ég og samkvæmt plani orðinn rennandi blautur í fæturna.

Umhverfi Kýlingarvatns skartar sínu fegursta.

Það góða var hins vegar að veðrið þennan dag var fullkomið til að þurrka blauta færtur. Bæði sólin og vindurinn þegar maður þaut áfram urðu til þess að ég var orðinn hálf þurr áður en ég kom yfir Dómadalshálsinn og að næsta vaði. Sjálfstraustið í að koma sér yfir vöðin var aðeins byrjað að vaxa og í þetta skiptið reyndist yfirförin ekkert vandamál.

Á leiðinni frá Landmannahelli fram yfir Frostastaðaháls var færið mjög gott. Inn á milli mátti búast við sendnu undirlagi sem gat orðið að smá bremsu þegar farið var yfir, auk þess sem stjórnun er ekki jafn auðveld þá. Fyrir óreyndan malarhjólara eins og mig hefur þetta áhrif á hraða sem maður þorir að bomba niður brekkur, en kjarkurinn óx þegar leið á ferðina. Þá komu nokkur þvottabretti, sérstaklega við Frostastaðavatn, en slíkt varð að hefðbundnu undirlagi á stórum köflum í ferðinni.

Kirkjufellsósinn var eitt af fáum vöðum sem ég rétt komst ekki yfir. Mörg voru þó bæði dýpri og víðari.

Austan við Laugar, varð undirlagið grófara á köflum, bæði við Jökulkvíslina sem og við mörg vöðin sem fylgja eftir Kirkjufellsósinn. Hins vegar reyndist það hin besta skemmtun að dúndra út í vöðin hægri vinstri og var líklega bara Kirkjufellsósinn sem reyndist of torfærinn til að ég kæmist alla leið yfir. Í mörg skipti komst maður þó tæplega yfir, en þá var mótorinn settur á fullt sem skilaði sér í að maður komst yfir án þess að þurfa að stíga af hjólinu.

Blautir fætur. Þeir voru trademark ferðarinnar.

Talsvert er um brattar brekkur þegar þarna er komið og í áttina að Hólaskjóli. Þarf oft að fara niður gil að árfarvegum og yfir vöð áður en klifrað er upp næstu brekku og svo endutekur leikurinn sig. Undirlagið gat á köflum verið örlítið gróft, en ekkert sem stoppaði mann, heldur frekar að maður reyndi að passa að fara ekki á stærstu eða hvössustu steinana.

Komið upp úr Jökulgiljunum eftir nokkrar erfiðar brekkur. Eftir þær eru verðlaunin venjulega frábært útsýni.

Umferð þennan dag var með allra minnsta móti og eftir Laugar finnst mér ólíklegt að fleiri en 7 bílar hafi orðið á vegi mínum á um 2 klst tímabili. Hins vegar hitti ég tvo hjólaferðalanga við næst síðasta vaðið (af yfir örugglega um 15 talsins) sem voru á leið inn í Laugar og tóku sér góðan tíma að skipta um skóbúnað við hvert vað. Líklegast varð þetta talsvert langur dagur hjá þeim.

Séð yfir Skaftártungurnar. Fór að sjá fyrir endann á frábærum hjóladegi í blíðunni að Fjallabaki.

Eftir rúmlega 45km fór maður að sjá niður í Skaftártungur og Eldgjá. Tók þá við talsverð lækkun, eða um 230 m á tæplega 2 km leið. Það viðurkennist alveg að þar fékk að reyna ágætlega á bremsurnar, enda nokkuð krappar malarbeygjur ekki enn orðnar að hefðbundnum hlut í minni æfingarbók. Með stuttri viðkomu í Eldgjá kláraði ég svo í Hólaskjóli þar sem hægt var að komast í sturtu og elda sér kvöldmat. Samtals 58km dagur og 666m hækkun.

Komið inn á Öldufellsleið. Mýrdalsjökull blasir við fram veginn.

Á degi tvö var haldið áfram að fara niður af Nyrðra Fjallabaki. Þrátt fyrir nokkrar brekkur upp á við var ég kominn úr rúmlega 300m í um 50 m hæð eftir 30 km. Í stað þess að beygja hefðbundna leið upp á Syðra Fjallabak (F210)  við Snæbýli hélt ég áfram niður að hringvegi, en beygði svo til vesturs yfir Tungufljót og fór Hrífunesveginn, áður en stefnan var tekin upp Öldufellsleið. Vegagerðin var á þessum tíma ekki búin að formlega opna veginn, en akstursbann var heldur ekki í gildi. Það þýddi að ekki var búið að hefla hann eða þjappa þar sem það átti við og umferð var greinilega nokkuð takmörkuð þótt vel mætti greina nokkur hjólför bíla.

Undirlagið var á köflum mjög gróft og var víða ekki hægt að fara í kringum kafla eins og þennan. Stundum gat reynst erfitt að hjóla upp slíka kafla.

Á Öldufellsleiðinni tók við alveg nýr kapítuli. Leiðin var mjög gróf, bæði var talsvert um sand sem hjólið gat sokkið smá í og þá voru reglulega steinabreiður þar sem þurfti að passa mjög vel að koma hjóli í gegn án þess að eiga of mikla hættu á að sprengja dekk.

Mýrdalsjökull í baksýn.
Grófur kafli upp í mót.
Slakað á við Hólmsárfoss.

Ég má þó til með að mæla þó með þessari leið, enda á köflum gríðarlega falleg. Þannig gat verið mjög tignarlegt að hjóla um Atleyjarmela í átt að Mýrdalsjökli og taka svo að lokum beygju yfir Bláfellsárnar og koma að Hólmsárfossi og skálanum í Álftaveri. Það var hinn fullkomni staður til að taka stuttan hádegismat. Við Öldufell sjálft og í Öldudal er svo gríðarlega fallegt, meðal annars eitt af fallegri vöðum sem ég hef farið yfir með litlum fossi aðeins um 5 metrum neðar en vaðið. Læt fylgja hér nokkrar myndir frá því svæði.

Farinn að nálgast Öldufellið og Öldudal. (Hjólið snýr þarna mót ferðastefnu)
Öldudalur.
Vaðið þegar farið er meðfram Öldudal. Gríðarlega fallegt að koma þarna eftir að hafa hjólað í gegnum gróðursnauða sanda rétt áður.
Önnur mynd af Öldudalnum.

Norðan við Öldudalinn tók svo við sendinn kafli áður en komið var út á hinn eiginlega Mælifellssand. Fyrst um sinn var mjög þægilegt að fara þarna um, jafnvel sléttur og þjappaður sandur, en inn á milli var sandurinn mjög laus sem orsakaði að hjólið sökk létt í sandinn og stoppaði mann. Þarna tók við örlítill barningur þar sem þurfti að gefa aukalega í til að komast í gegnum lausu sandkaflana.

Ferðalagið þennan dag hafði alveg tekið örlítið á, enda talsverð hækkun eftir að komið var inn á Öldufellsleiðina. Ég var samt lítið undirbúinn fyrir síðustu rúmlega 10 km frá gatnamótunum inn á Mælifellssand. Um 6 km leið er yfir sandinn frá gatnamótunum þangað til maður er kominn fyrir Mælifellið og getur haldið inn að Stútsskála, síðustu 4-5 km.

Mælifellssandurinn var meira í að taka en að gefa í þessari ferð enda vegurinn ekkert þjappaður og sandurinn mjög laus í sér.

Þá bætti ekki úr skák að maður fékk mótvind í andlitið á sandinum. Mér fróðari menn segja að sandurinn sé mun þægilegri yfirferðar seinni partinn í júlí og ágúst þegar talsverð umferð hefur verið um sandinn.

Eins og sjá má skefur vel yfir veginn og ómögulegt var að sjá hvar sandurinn var aðeins þjappaðri eða hvar hann var mjög laus.
Það komu nokkrar gusur af sandfoki, en þær fóru allar fram hjá mér.

Þar sem sandurinn hafði ekkert þjappast af ráði af umferð reyndist hann einstaklega torfær, þar sem hjólið sökk endalaust í lausan sand og gríðarleg orka fór í að reyna að komast úr slíkum aðstæðum eða leggja af stað aftur í lausum sandinum. Að lokum gekk ég líklegast með hjólið um 2 km, en síðustu 5 km inn að Strútsskála voru nokkuð einfaldir, ef frá er talið grýttur kafli næst skálanum og vegna þess hversu þreyttur maður varð á sandinum.

Loksins kominn að Mælifellinu og Brennivínskvísl.
Kominn af sandinum og hálfa leið upp að Strútsskála. Mælifellið er líklega photogenískasta fjall landsins ef Kirkjufellið er ekki talið með.

Eftir góða næturgistingu í Strútsskála fór ég aftur niður á Mælifellssand og ætlaði að halda í átt að Hvanngili. Ekki gerði ég mér þá grein fyrir hversu svakalega erfiður þessi dagur ætti eftir að reynast, sérstaklega fyrstu 10-15 km.

Fyrst um sinn gekk nokkuð vel að hjóla í vegslóðanum á sandinum. Hins vegar bætti vel í vindinn og innan skamms var skollinn á heljarinnar sandstormur þar sem skyggni varð mjög takmarkað. Þarna var hver 50m kafli á hjólinu að mikilli þrekraun þar sem maður barðist við laust sandundirlagið, sandfokið í andlitið og lélegt skyggni. Eftir að hafa sett gríðarlega orku í að komast rúmlega 5 km, eða hálfa vegalengdina á sandinum, varð færið alveg ómögulegt og ekki hægt að hjóla nema að sökkva strax á fyrsta metranum.

Skyggnið var ekkert rosalega gott fljótlega eftir að komið var niður á Mælifellssand að nýju.

Á sama tíma hurfu vegurinn og stikurnar mér sjónum og fljótlega hafði maður týnt veginum. Það var ekkert rosalega spennandi tilhugsun að vita að maður væri að fara framhjá Slysaöldu við þessar aðstæður, en þar urðu jú menn úti á 19. öld.

Veginn fann ég svo ekki aftur fyrr en um 5 km seinna eftir að hafa reitt hjólið langleiðina út af sandinum. Á þessum tíma var ég líklega búinn að borða meiri sand en mér tókst nokkurn tímann að gera í sandkassa á leikskólaaldri og var sandurinn búinn að troða sér allsstaðar. Það versta er að þarna er ekki um hefðbundinn sand að ræða, heldur frekar jökulruðning sem er orðinn að sandi. Eins og sjá má á einni myndinni sem fylgir greininni var sá sandur í raun orðinn að leðju sem festi sig t.d. við drykkjarbrúsann og aðra hluti. Þá var orðið mjög erfitt að skipta um gíra sem líklega mátti rekja beint til þess að sandur var búinn að troða sér undir skiptana.

Útlitið á manni var heldur skrautlegt þegar ég kom loksins að Kaldaklofskvísl, en þar notaði ég tækifærið og þreif bæði mig og hjólið. Gírskiptingin datt þá að mestu í samt lag og ég náði sandbragði úr munninum. Erlent par sem sat á hinum bakkanum og borðaði nestið sitt skildi lítið í aðförum mínum þarna við ána og sérstaklega hvernig í andskotanum útgangurinn á mér gat verið svona svaðalegur, en það var alveg haf og himinn á milli þess hvernig vindurinn var þegar komið var út af sandinum og inn á honum miðjum. Við kvíslina var til dæmis næstum því logn og smá sól.

Inn á milli rofaði aðeins til og þá var hægt að sjá mikilfengleikann í þessu hrikalega landslagi.
Fyrir utan að ómögulegt var að hjóla í gljúpum sandinum, þá var inn á milli að finna svona grjótbelti.
Sandurinn á Mælifellssandi er í raun jökulruðningur og leðja og festist við allt sem hann gat fest sig við.
Kominn inn á Laugaveginn við Köldukvísl, vel sandblásinn og þreyttur. Næsta skref var að skola af sér í kvíslinni.

Það hafði tekið mig rúmlega 3 klst að komast um 18 km og þar sem stærstur hluti dagleiðarinnar var eftir fór ég alvarlega að pæla í að stytta daginn og athuga með gistipláss í Hvanngili eða Álftavatni.Eftir hádegismat og talsverðan vökva ákvað ég hins vegar að halda áfram og klára daginn, jafnvel þótt ljóst væri að ég yrði langt fram á kvöld að þessu ævintýri.

Eins og fyrri daga voru vöðin ekki af skornum skammti þennan daginn, en munurinn var að sólin var ekki lengur á stjá, heldur var nokkuð skýjað stærstan hluta dagsins og inn á milli úði eða jafnvel rigning og þoka. Leiðin frá Hvanngili framhjá Álftavatni, yfir Markarfljót og að Laufafelli reyndist grófari en ég hafði búist við. Talsvert var um stuttar upp og niður brekkur á þessum kafla og voru margar þeirra vel brattar. Vöðin voru mörg hver mjög krefjandi og skemmtileg, en Markarfljótið var eina vaðið þar sem upplýst ákvörðun var tekin um að reyna ekki að hjóla yfir, enda áin á allt öðru kaliberi en önnur vöð og tók mikið á að fara yfir hana. Leiðin frá Markarfljóti og upp að Laufafelli fannst mér sérstaklega erfið yfirferðar, en líklega spilar þar þreyta eitthvað inn í, en leiðin var engu að síður nokkuð grófari en flestir aðrir kaflar á þessu ferðalagi. Lítið gekk því að auka meðalhraða dagsins eftir ævintýrið á sandinum.

Markarfljótið var eina vaðið þar sem ég ákvað að sleppa því að bruna út í. Áin tók vel í og ekki fyrir óreynda að vaða þar án aðstoðar.
Markarfljótið er í raun í nokkrum kvíslum við vaðið þannig að í heild þurfi að vaða 4-5 sinnum að mig minnir.

Þegar komið var að beygjunni við Laufafell, þar sem keppendur The Rift munu koma upp frá Keldum og beygja inn á Krakatindaleið batnaði hins vegar undirlagið til muna. Við tók mun sléttari kafli og þó að inn á milli væri smá krefjandi staðir, þá gekk þessi kafli betur en allt fram að því þennan dag.

Aftur fór skyggnið að skemma fyrir mér þegar hækkunin upp Krakatind tók við, en í þetta skiptið var það þoka og úði sem tók á móti mér. Reyndar var talsverð snjóbrekka niður af hæsta punkti sem gaman var að fara niður, en stuttu eftir hana tekur við leiðin í gegnum hraunið, sem er líklega fallegasta leiðin sem farið verður í Riftinu. Gríðarlega skemmtilegt að fara þar í gegnum, en á nokkrum stöðum þarf að passa sig á litlum jarðföllum sem hafa orðið.

Yfir Krakatind var útsýnið ekki upp á marga fiska, enda þoka og úði og frekar kalt. Vegurinn var þó að mestu fínn yfirferðar.
Snjóbrekkan sem gaman var að skauta niður.

Við og eftir Krakatinda eru þrjár vel brattar brekkur sem munu líklega reynast flestum keppendum The Rift ofviða, en þær eiga það allar sammerkt að vera vel sundurskornar eftir vatn í leysingum. Til viðbótar giska ég á að halli í þeim fari yfir 20%. Það til viðbótar við semi lausan jarðveg munu ekki auðvelda neinum að fara upp þessar brekkur.

Vegna bleytu og móðu á linsu er þessi mynd nokkuð óskýr, en á Krakatindaleiðinni eru þrjár mjög brattar brekkur sem allar eru sundurskornar eftir vatnsflaum. Líklega munu þær reynast flestum keppendum Rift of erfiðar til að komast hjólandi upp, enda er bæði við bratta að etja sem og sundurgrafna leið.

Á leiðinni niður af Krakatindum niður að Landmannaleið er svo ágætt að hafa varann á, því leiðin þar niður er ekki síður sundurskorin en brekkurnar þrjár. Bremsurnar munu án efa þurfa að sinna sínu hlutverki vel á þessum kafla.

Þegar loks sást yfir Landmannahelli og Landmannaleið skellti sólin sér auðvitað fram úr skýjunum, en það var kærkomið eftir þungbúna veðrið á hæsta kaflanum. Fékk ég því kvöldsólina meðan lækkunin niður Landmannaleið var tekin. Sá kafli er fínasta hjólaleið með föstu undirlagi, en á köflum geta þvottabrettin þar verið hræðileg og þarf maður á köflum að velja hvort maður vilji reyna að fara aðeins hraðar og sætta sig við hristinginn, eða halda sig við kantinn og vera í lausari sandi sem hægir á. Ég allavega gerði mitt ítrasta til að finna þægilegustu leiðina í gegnum verstu kaflana, enda líkaminn orðinn þreyttur eftir daginn.

Þegar búið er að fara hálfa leið niður Krakatinda fer að sjást inn í Landmannahelli og á Löngusátu. Slóðinn þarna niður er hins vegar sundurskorinn og tæknilegur yfirferðar. Gera má ráð fyrir að bremsur verði í aðalhlutverki á þessum kafla.

Að lokum var komið í bílinn niðri við gatnamót Landmannaleiðar og Landvegar (sem hafði verið skutlað þaðan úr Landmannahelli), eftir um 10,5 klst ferðalag, en farnir voru um 91 km og 800m hækkun. Þarna er þó inni talsverður tími sem ég var gangandi með hjólið.

Niður Landmannaleið þarna um kvöldið blasti svo Hekla við í öllum sínum skrúða og var hin fínasta sýning á frábærri ferð.

Allt í allt var þetta frábær ferð sem gekk að mestu upp. Gljúpur sandurinn á Mælifellssandi og sandstormurinn voru í raun það eina sem ég hafði vanmetið af einhverju ráði. Hinir hlutarnir gengu upp, en auðvitað hefði hraðinn getað verið meiri. Hins vegar var hugmyndin aldrei að þjóta í þessari ferð, heldur miklu frekar að njóta og það tókst heldur betur. Mæli hiklaust með Fjallabaki fyrir malarhjólara, hvort sem farinn er svipaður hringur og ég gerði, eða aðrar leiðir. Nema veður sé þeim mun verra er alltaf eitthvað að sjá á svæðinu og náttúrufegurðin er fáum lík á þessum slóðum.

p.s. tókst að fara í gegnum alla ferðina án þess að sprengja dekk, sem kannski segir manni að hægt hefði verið að fara hraðar yfir.

Previous Article
Next Article

Leave a Reply

Hjólafréttir

Markmið hjólafrétta er að auka veg og vanda hjólreiða sem sports og samgöngumáta. Við vonum að þú lesandi góður hafir gagn og gaman af lestrinum. Um vefinn.

Samstarfsaðilar