The Rift – Íþróttaviðburður á heimsmælikvarða
The Rift fór líklega ekki framhjá neinum hjólreiðamanni á síðasta ári en meðal almennings telst keppnin líklega nær óþekkt. Fyrir þá sem tóku þátt í Rift á síðasta ári, var hins vegar ljóst strax á ráslínu að eitthvað stórt væri í uppsiglingu, hér væri að fara af stað keppni sem gæti orðið ein sú stærsta innan malarhjólreiðanna, eitt af Monumentunum í þeirri grein. Það var kaldur morgun á Hvolsvelli þegar keppendur voru ræstir af stað. Það var að byrja að rigna, það var hvessa og útlit fyrir að keppendur myndu fá mikinn mótvind á sig á fyrstu 100 kílómetrum keppinnar. Stemningin var hins vegar gríðarlega afslöppuð en það er líklega eitt af megineinkennum malarhjólreiða.
Á ráslínu voru Íslendingar í minnihluta af um 250 keppendum. Stærsti hópurinn Bandaríkjamenn en þar hafa malarhjólreiðar vaxið hraðast á síðustu árum. Það voru einnig stór nöfn mætt til leiks úr malarhjólreiðunum, bæði í karla- og kvennaflokki. Alison Tetrick fyrrum sigurvegari Dirty Kanza var sigurstranglegust kvenna og átti eftir að sigra keppnina á um 8 klst og 3 mín. Í karlaflokki mættu m.a. sigurvegari Dirty Kanza 2019, Colin Strickland með Red Bull hjálminn sinn auk Ted King sem er fyrrum atvinnumaður í götuhjólreiðum með Cannondale liðinu og sigurvegari Dirty Kanza 2018. Fleiri fyrrum atvinnumenn mættu, t.d. Neil Shirley og Christian Meier, og einnig goðsögnin Tinker Juarez, 58 ára fyrrum fjallahjólakeppandi. Colin Strickland átti þó eftir að standa uppi sem sigurvegari í karlaflokki á 6 klst og 38 mín.
Árangur Íslendinga var frábær í Riftinu. María Ögn Guðmundsdóttir var önnur í mark í kvennaflokki og í karlaflokki varð Ingvar Ómarsson í þriðja sæti. Greina má vaxandi áhuga Íslendinga á malarhjólreiðum en bæði María og Ingvar ætla sér stóra hluti malarkeppnum á árinu 2020 (Sjá viðtöl okkar við Maríu og Ingvar) en í viðtali við Hjólafréttir hafa Ágústa Edda, Birkir Snær og Rúnar Örn einnig boðað þátttöku í Rift2020.
Seldist upp á hálfum sólarhring
Rift virðist koma fram á góðum tíma, þegar eftirspurn er mikil eftir nýjum viðburðum. Uppselt var í keppnina í fyrra en einhverja mánuði tók að að selja alla miðana. Mikil eftirvænting byggðist upp strax eftir fyrstu keppnina þegar myndir, umfjöllun og keppnissögur fóru að koma fram.
Skipuleggjendur ákváðu að keppendum yrði fjölgað úr um 250 í yfir 600 en það breytti litlu, það seldist upp í keppnina á um hálfum sólarhring. Hjólafréttir heyrðu í Guðbergi hjá Lauf, einum af skipuleggjendum keppninnar, en hann sagði okkur að þau hefðu ekki átt von á slíkum viðbrögðum. Guðberg nefnir að hann hafi sagt mörgum félögum að það yrði ekki þörf á því að bíða við tölvuna og að líklega hefði fólk tíma til að skrá sig til jóla. Hann segist finna fyrir gríðarlegum áhuga á að hjóla í einstöku landslagi og að Rift sé sú keppni sem fari fyrst niður á dagatal margra. Þar spili inn í að hjóla í íslenskri náttúru en ekki í kringum kornakra í Bandaríkjunum. Íslendingum mun fjölga í Riftinu, en þeir verði þó einungis um fjórðungur keppenda.
Telur keppnina geta orðið eina þá stærstu í malarhjólreiðum
The Rift mun þróast á komandi árum og segir Guðberg að þau hafi ýmsar hugmyndir um það. Á þessu ári verði hún hins vegar í sama móti og í fyrra, og sama leið verður hjóluð. Til framtíðar er þó líklegt að leiðin geti tekið breytingum og að boðið verði upp á lengri útgáfu af leiðinni. Einnig er vilji fyrir því að lengja viðburðinn Rift og að mögulega verði hjólaðar fleiri en ein dagleið. Ólíklegt er þó að veruleg fjölgun verði á keppendum til framtíðar og að þátttakendur verði því ekki fleiri en þúsund. Guðberg tekur undir með Hjólafréttum að Riftið sé að skipa sér í sess með stóru keppnum gravelsins, og geti orðið eitt af monumentum greinarinnar, sú keppni sem hjólreiðafólk stefni á að klára, og vinna.
Malarhjólreiðar vaxa hratt
Malarhjólreiðar eru líklega hraðast vaxandi grein hjólreiðanna og á síðustu árum hefur Gravel keppnum fjölgað hratt en þær þekktustu eru líklega Dirty Kanza (Byrjaði 2006), Barry Roubaix (2009), Gravel Worlds (óformleg „HM“ malarhjólreiðanna) og Dirty Reiver. Malarhjólreiðar eru stærstar í Bandaríkjunum en hafa verið að koma inn í evrópskar hjólreiðar í auknum mæli.
Allir helstu hjólaframleiðendur hafa á undanförnum árum brugðist við auknum vinsældum með því að bæta malarhjólum inn í vörulínuna sína en líkt og flestir Íslendingar þekkja hafa malarhjólin frá Lauf hlotið einróma lof. Hvað sé malarhjól er líklega opið fyrir túlkun, enda eru þau ólík og hönnuð með mismunandi þarfir í huga, sum með dempara eða einhverskonar dempun og önnur ekki og sum sækja innblástur í fjallahjól á meðan önnur virðast vera í anda götuhjóla.
Í raun er heldur ekki neitt viðmið um hvað séu malarhjólreiðar, enda er greinin ekki formlega undir UCI þó á því kunni að verða breytingar með auknum vinsældum. Það merkir að fólk fer í malarkeppnir á öllum gerðum hjóla, malarhjólum, CX og ólíkum fjallahjólum. Einnig eru brautirnar jafn misjafnar og keppnirnar eru margar, sumar stuttar, aðrar langar, sumar eingöngu á möl, sumar á blöndu af ólíkum undirlagi, sumar á grófri möl og aðrar á fínni o.s.frv. Ólíkt t.d. götuhjólreiðum, ræsa atvinnumenn gjarnan með almenningi í malarkeppnum.
Andrúmsloftið í malarhjólreiðum er því að mörgu leyti afslappaðra en í öðrum greinum hjólreiða og taka keppnirnar sig misalvarlega. Markmiðið er fyrst og fremst að njóta hjólreiða í mismunandi landslagi og sigra sjálfan sig og fyrir vikið hafa malarhjólreiðar laðað að sér marga fyrrum atvinnumenn og stóran hóp almennings.