Stór nöfn munu mæta í Riftið
Það seldist hratt upp í Riftið 2020, eða á einungis hálfum sólarhring líkt og við fórum yfir í grein okkar á föstudag. Íslendingum mun fjölga í keppninni en þeir verða þó einungis um fjórðungur keppenda. Í keppninni mætir fjöldi keppenda með það að markmiði að njóta, klára og komast í mark. Aðrir mæta með það að markmiði að keppa og keppa um sæti.
Hjólafréttir hafa fengið það staðfest að stór nöfn muni raða sér upp á ráslínu á Hvolsvelli þann 25. Júlí og ljóst að keppnin verður afar hörð um pláss á verðlaunapalli, hvort sem er i karla eða kvennaflokki. Þetta eru frábærar fréttir fyrir aðdáendur keppnishjólreiða á Íslandi.
Árangur Íslendinga var frábær á síðasta ári, og áttum við fulltrúa á verðlaunapalli í bæði karla og kvennaflokki og verður spennandi að sjá hvort Íslendingar muni skipa sér í hóp hinna bestu í 2020 útgáfunni.
Colin Strickland ætlar að reyna að verja titilinn
Allir sem náðu á verðlaunapall á síðasta ári í karlaflokki munu mæta aftur til leiks í Riftið. Það merkir að Ingvar Ómarsson mun endurnýja kynnin við þá Ted King og Colin Strickland sem lentu í fyrsta og öðru sæti á síðasta ári. Þar með er ekki öll sagan sögð, því samkeppnin mun verða harðari á næsta ári. Hér eru nokkrir sem munu gera atlögu að fyrsta sætinu:
Peter Stetina mun mæta til leiks en hann stundað malarhjólreiðar af fullum krafti á þessu ári og sýnt frá ferlinu á Instagram. Stetina hætti sem atvinnumaður í götuhjólreiðum fyrir þetta tímabil en hann var liðsmaður Trek Segafredo liðsins á síðasta ári. Stetina hefur áður tekið þátt í malarkeppnum, en hann var í 2. Sæti í Dirty Kanza á síðasta ári.
Asthon Lambie er fyrrum heimsmeistari í track hjólreiðum (innanhús) og hefur gefið það út að hann muni hafa malarkeppnir að markmiði eftir að hafa misst af keppnissæti á ólympíuleikunum í Tokyo. Fleiri stór nöfn munu mæta og má þar nefna Mat Stephens, TJ Eisenhart og Burke Swindlehart sem eru einnig frá Bandaríkjunum. Til viðbótar við þessa má enn búast við því að stór nöfn geti bæst í hópinn er nær dregur keppni og hefur fyrrum liðsmaður Team Sky og Katusha Alpecin, Ian Boswell verið orðaður við þátttöku.
Aukin samkeppni í kvennaflokki
Líkt og í karlaflokki, munu þrír efstu keppendur síðasta árs mæta til leiks að nýju. Það merkir að María Ögn mun aftur mæta sigurvegara síðasta árs Alison Tetrick og bronsverðlaunahafanum Sami Sauri.
Líkt og í karlaflokkinum mun Riftið að laða að sér fleiri sterka keppendur sem hafa verið að raða sér í efstu sætin í stærstu malarkeppnum heims. Þar ber helst að nefna Amanda Nauman en hún sigraði Dirty Kanza árin 2015 og 2016, Kae Takeshita, fyrrum sigurvegari Gravel Worlds og Lauren Stephens sem hjólar með world tour liðinu TIBCO.
Sarah Sturm sem sigraði Belgian Waffle Ride á síðasta ári og hefur verið kölluð rísandi stjarna malarhjólreiðanna mun koma og tekur með sér lið sitt, Specialized Gravel liðið.