Uppselt á tveimur dögum og stefnir í spennandi einvígi

Uppselt er í Bláa lóns þrautina (BLC), en aðeins tók 2 sólarhringa að selja þau 750 sæti sem í boði eru. Mótstjórinn Jón Gunnar Kristinsson, betur þekktur sem Nóni, segir að aðstandendur keppninnar hafi búist við því að selja upp, en aldrei að það myndi ganga svona vel. Útlit er fyrir að hjólreiðafólk fái úr því skorið í ár hvort fjallahjól eða malarhjól henti betur til árangurs í keppninni, því fluttur verður inn sterkur keppandi til að fara leiðina á malarhjóli og mun hann meðal annars keppa við Ingvar Ómarsson og fleiri sem hafa verið sterkir í keppninni undanfarin ár og fara á fjallahjólum.

Síðustu þrjú ár hefur verið hámark á fjölda keppenda, eða 750 miðar. Nóni segir að það sé sett því aðalstyrktaraðili mótsins, Bláa lónið, treysti sér ekki til að taka á móti fleirum með góðu móti á þessum tíma. Segir hann að það skipti bæði mótshaldara og lónið öllu máli að upplifunin og skemmtunin sé í hámarki og því vilji menn halda sig við þessa tölu, en á árum áður fór fjöldi keppenda upp í um 1000 manns.

Frá Bláa lóns þrautinni í fyrra. Ljósmynd/Albert Jakbosson

Bjóst ekki við þessum viðbrögðum

Í fyrra var uppselt í keppnina, en það var þó alls ekki strax eftir að skráning hófst. Svipaða sögu má segja um síðustu ár. „Þetta var miklu meira en ég bjóst við. Það var uppselt síðast og við bjuggumst alveg við að selja upp, en aldrei svona öflugum viðbrögðum,“ segir Nóni.

Hann segir að íþróttafélög og fyrirtæki hafi fengið um 150 miða, en þar á meðal eru hjólreiðafélög sem tak afrá miða handa sínu íþróttafólki. Þá séu Landvættir með tryggða 100 miða, þannig að 500 miðar voru í almennri sölu.

Frá Bláa lóns þrautinni í fyrra. Ljósmynd/Albert Jakbosson

„Miðlífskrísukarlarnir“ enn fjölmennastir en sér fram á breytingu

Skráning eftir aldri er nokkuð afgerandi, en árgangarnir 72-76 eru lang stærstu árgangarnir og ná einir og sér milli fjórðung og fimmtung heildarfjöldans. Spurður hvað skýri þennan mikla áhuga fólks á þessum aldri segir Nóni að hjólreiðar séu auðvitað enn þá ung íþrótt hér á landi. Þá hafi fólk á miðjum aldri, og er hann ekkert hræddur við að benda á sig sem dæmi þar um, oft tekið hjólreiðum fagnandi þegar kemur að því að finna sér áhugamál sem tengist hreyfingu. „Við miðlífskrísukarlarnir erum alltaf lang fjölmennasti hópurinn,“ segir hann hlægjandi.

Hann segist samt gera ráð fyrir því að eftir því sem á líði og það fjölgi í íþróttinni muni teygjast úr aldrinum og fleiri undir 30 og jafnvel í kringum 20 ára fara að taka þátt.

Frá Bláa lóns þrautinni í fyrra. Ljósmynd/Albert Jakbosson

Verður veldi fjallahjólanna ógnað?

Frá upphafi BLC árið 1996 hafa sigurvegarar í bæði karla- og kvennaflokki hjólað leiðina á fjallahjóli. Undanfarin ár hafa reglulega nokkrir reynt að fara leiðina á cyclocross hjóli og síðustu ár á malarhjólum. Hingað til hafa þó sprungin dekk á grófustu köflunum ávallt komið í veg fyrir að slíkt takist sem og að öflugustu hjólararnir hafa oftast eða jafnvel alltaf verið á fjallahjólum. Nú gæti hins vegar orðið breyting á.

Hjólafréttir hafa fengið staðfest að Asthon Lambie, fyrrverandi heimsmeistari í track hjólreiðum (innanhús) verði meðal keppenda, en hann kemur á vegum Lauf og verður á True grit hjóli í keppninni. Hann missti af keppnissæti á ólympíuleikunum í Tókíó síðar á þessu ári og hefur því ákveðið að helga sig malarhjólreiðum í ár og mætir einnig í Riftið í júlí.

Asthon Lambie mætir til leiks í BLC í ár.

Ingvar Ómarsson, sigurvegari síðustu tveggja ára, ætlar að mæta til leiks, en hann lýsir þessari stöðu sem einskonar einvígi milli fjallahjóla og malarhjóla á þessari leið, en sjálfur verður hann á Trek fjallahjóli og lofar spennandi keppni.

Nóni segir að sjálfur hafi hann oft hugsað hvað sé besta hjólið til að fara leiðina og velt fyrir sér af hverju cyclocross og malarhjólum hafi ekki gengið betur. Bendir hann á að stærstur hluti leiðarinnar sé malarvegur og því ætti að vera forskot fyrir þann sem er á mjórri dekkjum og meira aero. Hins vegar virðist grófasti kaflinn vera það sem skipti höfuðmáli og margir hafi sprengt þar sem séu á minni dekkjum. Hann segir þetta allavega fyrirheit fyrir spennandi keppni og að forvitnilegt verði að sjá hvernig fer.

Þetta er þriðja árið sem Nóni kemur að mótstjórn, en fjögur árin þar á undan tók hann þátt sem keppandi. Hann segir að í það heila verði um 50 manns sem komi að því að halda mótið, en það þarf meðal annars fólk í gæslu, tímatöku, afhendingu verðlauna og fleiri verkefni. HFR ber hitann og þungann af keppninni, en auk þeirra er fengin aðstoð frá björgunarsveitum í Hafnarfirði og Grindavík.

Previous Article
Next Article

Leave a Reply

Hjólafréttir

Markmið hjólafrétta er að auka veg og vanda hjólreiða sem sports og samgöngumáta. Við vonum að þú lesandi góður hafir gagn og gaman af lestrinum. Um vefinn.

Samstarfsaðilar