Æfingabúðir ungmenna á Reykjanesi um helgina

Fjallahjólahópurinn tilbúinn í morgun.

Í dag hófust æfingabúðir HRÍ fyrir ungmenni undir nafninu hæfileikamótun, en hugmyndin er að bjóða öllum ungmennum á aldrinum 15-22 ára hjá öllum félögum að taka þátt. Eru æfingabúðirnar ákveðinn grunnpunktur þar sem fulltrúar landsliðsnefndar fylgjast með og koma að þjálfun, en formaður HRÍ segir að í framhaldinu verði skoðað með framtíðarverkefni fyrir þennan aldurshóp.

Samtals eru 27 þátttakendur í æfingabúðunum, en auk þess voru tveir sem áttu ekki heimangengt, annað hvort vegna vinnu eða veru erlendis. Gist er á Northern Light hótelinu í Svartsengi, en æfingarnar fara fram á svæðinu og víðar um Reykjanesið.

Bjarni Már Svavarsson, formaður HRÍ, segir í samtali við Hjólafréttir að hópnum sé skipt upp í götuhjólahóp og svo All mountain-Downhill hóp. Götuhjólahópurinn mun æfa undir stjórn þeirra Ármanns Gylfasonar, Ásu Guðnýjar Ásgeirsdóttur og Hákons Hrafns Sigurðssonar. Þau Helgi Berg Friðþjófsson og Þórdís Georgsdóttir halda hins vegar um spottana í all mountain-downhill hópnum.

Eftir morgunmat saman í dag hélt götuhjólahópurinn út í langan túr um Reykjanesið, en þar verða meðal annars teknar endasprettsæfingar. Þá verða fyrirlestrar í hádeginu og brekkuæfingar seinni partinn. Fjallahjólahópurinn fer hins vegar í fjallið Þorbjörn í teknískar æfingar í allan dag.  Hópurinn tekur svo kvöldmat saman í kvöld.

Á morgun verða það áfram ýmisskonar teknískar æfingar hjá fjallahjólahópnum, en hjá götuhjólahópnum verður tímatöku æfing um morguninn, fyrirlestrar í hádeginu og lengri rólegri túr seinni partinn.

Spurður út í framtíðaráform unglingalandsliðanna og hvort æfingabúðirnar núna séu hluti af þeim segir Bjarni að það sé á höndum landsliðsnefndarinnar. Hins vegar er landsliðsnefndin skipuð þeim Ármanni, Hákoni Hrafni og Thomasi Skov Jensen, auk einum úr stjórn HRÍ og því ljóst að hún fylgist vel með framgangi í búðunum núna.

Previous Article
Next Article

Leave a Reply

Hjólafréttir

Markmið hjólafrétta er að auka veg og vanda hjólreiða sem sports og samgöngumáta. Við vonum að þú lesandi góður hafir gagn og gaman af lestrinum. Um vefinn.

Samstarfsaðilar