TT stigakeppni í götuhjólaflokki – engin TT-hjól eða TT-búnaður

Aiport direct liðið mun halda utan um stigasöfnunina í sumar fyrir götuhjóla TT.

Keppnissumarið fer loksins af stað nú í þessari viku með crit-móti á morgun, tímatökumóti á Vatnsleysuströnd á fimmtudaginn og downhillmóti í Vífilstaðahlíð á laugardaginn. Heldur betur nóg í gangi fyrir alla.

Óskar Ómarsson og félagar í Airport direct hafa fyrir bikarmótin í tímatöku skellt upp smá stigakeppni til hliðar við hefðbundnu bikarkeppnina. Verður þar aðeins tekinn saman tíminn hjá þeim sem eru á götuhjólum og uppfylla reglur götuhjólreiða.

Skráningarformið er að finna hér

Óskar segir í samtali við Hjólafréttir að hugmyndin sé að fá fleiri til að taka þátt og búa til vettvang fyrir þá sem ekki vilji fara í þann dýra pakka að koma sér upp tímatökuhjóli að geta keppt á jafningjagrundvelli.

Óskar segir að tímatakan sé í grunninn frábært keppnisform. Hins vegar séu ekki allir til í fjárfestinguna í búnaði og hjóli til að ná fram sem bestum árangri. „Til að geta keppt á jöfnum grundvelli vantaði götuhjólaflokk,“ segir hann.

Í flestum tímatökumótum er reyndar í boði svokallaður B-flokkur, en slíkur flokkur bannar þó ekki að fólk keppi með plötugjarðir og aero-hjálma. Óskar segir að félagarnir í Airport direct hafi í einhvern tíma talað um að setja eitthvað svona form upp, “en þetta hafa ekkert verið mjög háværar raddir sem kalla eftir þessu,” segir hann hlægjandi.

Nú í vor kom þessi hugmynd fram á ný og segir Óskar að þeir hafi meðal annars rætt við Maríu Sæmundsdóttur, mótshaldara fyrir hönd Breiðabliks, og henni hafi þótt þetta góð hugmynd og viðbót. „Hugmyndin er að þetta trufli ekki keppnina og hvetji bara fleiri til að taka þátt,“ segir Óskar.

Þeir sem vilja taka þátt í þessari óformlegu stigakeppni þurfa að skrá inn tíma sinn eftir hverja keppni í google docs skjal sem finna má hér, en þar þurfa viðkomandi einnig að staðfesta að þeir hafi ekki verið með annan búnað en leyfilegur er í götuhjólakeppnum.

Spurður út í hvað geri tímatöku spennandi keppnisform segir Óskar að þetta sé í fyrsta lagi ákveðið „pureista sport“. Þarna skipti formið öllu sem og aero-fræðin, en ekki taktík og jafnvel heppni eins og í hefðbundnum götuhjólakeppnum. Þetta sé því fullkominn vettvangur fyrir byrjendur jafnt og þá sem vilji reyna sjálfa sig við klukkuna og aðra keppendur.

Fyrir áhugasama um tímatöku voru Hjólafréttir með umfjöllun um keppnisformið fyrir tveimur árum síðan sem stendur fyrir sínu.

Previous Article
Next Article

Leave a Reply

Hjólafréttir

Markmið hjólafrétta er að auka veg og vanda hjólreiða sem sports og samgöngumáta. Við vonum að þú lesandi góður hafir gagn og gaman af lestrinum. Um vefinn.

Samstarfsaðilar