Tímaþraut: Þú, hjólið og wöttin

Það styttist í að fyrsta tímaþrautskeppni ársins fari fram, en það er Breiðablik sem stendur fyrir henni á Krýsuvíkurveginum miðvikudaginn 17. maí. Að sögn Hákons Hrafns Sigurðssonar, núverandi Íslandsmeistara, er tímaþrautin heiðarlegasta hjólakeppnin sem hægt er að hugsa sér EF, og það er heldur stórt ef,allir eru á eins hjóli. Tímaþrautin er nefnilega bara þú sjálfur og hjólið, en ekkert peloton, aðstoð eða draft frá öðrum keppendum. Hreinn og beinn kraftur og svo loftmótstaða.

Hjólafréttir ræddu við Hákon um tímaþrautina, stöðu hennar og keppnina framundan, en sjálfur viðbeinsbrotnaði Hákon nýlega og mun ekki geta keppt fyrr en þegar líða tekur á sumarið.

Krýsuvíkurkeppnin er að hans sögn þessi klassíska tímaþraut hér á landi. „Það er búið að keppa á sömu braut í 10 ár og hún er alltaf eins. Núna er reyndar búið að bæta við hringtorgi við Sorpu sem við förum í gegnum,“ segir hann og bætir við að snúið sé við á næsta hringtorgi.

4c030af755bde0694f80a1bae2dca385
Klassísk Krýsuvíkurkeppni hefst við Bláfjallaafleggjarann, hjólað er upp að gryfjum og niður í Hafnarfjörð. Svo er farið aftur upp að gryfjum og þaðan niður að Bláfjallaafleggjara.

„Tímaþrautin er ólík venjulegum götuhjólreiðum. Í fyrsta lagi eru keppendur ekki ræstir saman í hóp heldur einn og einn með mínútu millibili. Þá er algjörlega bannað að nýta sér skjól frá öðrum keppendum. „Því  er ekki mikil taktík, heldur reynir þú að halda álagi eins jöfnu og lengi og þú getur,“ segir hann. „Kannski rétt yfir FTP.“ Í götuhjólreiðunum er aftur á móti meira um að menn sprengi inn á milli og taktík leikur stóran þátt, sérstaklega upp brekkur. Oftast er þó lítið um brekkur hér á landi í tímaþraut og skiptir því heildarkrafturinn mestu máli.  „Á flötum brautum eins og í Krýsuvík er það eiginlega bara sá sem wattar mest sem vinnur,“ segir Hákon.  „Um leið og brekkur koma inn fara W/kg að skipta máli.“

Nú í sumar verður haldin ein keppni þar sem þarf að fara upp nokkrar brekkur, en það er Íslandsmótið sem haldið verður við Kleifarvatn. Segir Hákon að gaman verði að sjá hvort það muni hafa einhver áhrif á toppsætin, en undanfarin ár hafa um fimm einstaklingar í karlaflokki setið að efstu sætunum. Það eru auk Hákons þeir Hafsteinn Geir Ægisson, Rúnar Örn Ágústsson, Bjarni Garðar Nicholaisson og Viðar Bragi Þorsteinsson. Nokkrir fleiri hafa þó verið að berja á dyrnar þar undanfarin ár.

a?gu?st edda Vorti?mataka Breiðbliks
Ágústa Edda Björnsdóttir ríkjandi Íslandsmeistari á fleygiferð.

 

Í kvennaflokki er Ágústa Edda Björnsdóttir ríkjandi Íslandsmeistari, en auk hennar hafa þær Rannveig Anna Guicharnaud og Margrét Pálsdóttir verið hvað öflugastar síðustu tvö ár, en þær voru einmitt í öðru og þriðja sæti Íslandsmótsins sem og vormóti Breiðabliks í fyrra. Áður var  Birna Björnsdóttir fremsta tímaþrautskona landsins, en hún var Íslandsmeistari frá 2013-2016, en hefur ekki keppt í móti undir HRÍ síðan þá.

Það er þó ekki bara heildarkrafturinn sem skiptir öllu máli í flötum brautum, heldur spilar loftmótstaðan gríðarlega stórt hlutverk. Þar komum við að því að í tímatöku er keppt á sérstökum TT-hjólum (þríþrautarhjólum) sem eru ekki leyfileg í venjulegum götuhjólakeppnum. Þar er mikið lagt upp úr að þau séu sem mest straumlínulaga, eða „aero“.

Á meðan mikið er lagt upp úr því með venjuleg götuhjól að hafa þau sem léttast er ekki óalgengt að sögn Hákons að TT-hjólin séu allavega 0,5 kílóum og yfir 1 kíló þyngri en góð venjuleg götuhjól. Eru þau t.d. með mjög djúpum gjörðum til að minnka loftmótstöðuna. „Tveggja milljóna TT-hjól getur verið 7,5 til 8 kíló,“ segir hann og bætir við að hönnuðir hjólanna leyfi hjólunum að vera þyngri þar sem auka búnaður er á þeim til að gera þau enn meira aero. Þegar menn bæta svo plötugjörðum að aftan getur munurinn í þyngd orðið enn meiri.

Þeir sem ekki eiga TT-hjól geta þrátt fyrir það tekið þátt í flestum tímaþrautum ársins, en oft er sérstakur almennur flokkur eða götuhjólaflokkur. Er það tilvalið tækifæri til að prófa sig áfram og skoða hvernig maður stendur í samanburði við aðra hjólreiðamenn. Hákon segir þá sem þetta gera þó eiga nokkuð langt í land með að vera ofarlega á lista í meistaraflokknum, enda geti munað tugum sekúndna mjög fljótt séu gjarðir grynnri og hjólið minna aero en góð TT-hjól. „Ef þú vilt vinna þarftu að vera á góðu TT-hjóli.“

20170625_195549
Þrír efstu menn í karla­flokki á Íslandsmótinu í fyrra. Rún­ar Örn Ágústs­son, Há­kon Hrafn Sig­urðsson og Haf­steinn Ægir Geirs­son. Allir með djúpar gjarðir og plötugjarðir að aftan.

Þar sem hönnun hjólanna og loftmótstaða skiptir svona miklu máli leiðir það til þess að til að eiga góðan séns á að vera ofarlega í tímaþraut er nauðsynlegt að setja talsverða fjármuni í TT-hjól. Þetta er ákveðin hindrun og þess valdandi að margir þeirra sem eru á fullu í venjulegum götuhjólamótum fara aldrei yfir í tímaþrautina að sögn Hákons.

Áður fyrr var þó ekki þannig. Fyrst var bikarmótaröðin í götuhjólreiðum bæði með tímaþrautum og hefðbundnum götuhjólamótum. Það er ekki ósvipuð hugmyndafræði og þegar horft er til stóru túranna, eins og Tour de France, þar sem keppt er í einni til þremur tímaþrautum af þeim 21 dagleið sem hjólaðar eru. Þeir sem vilja vera efstir þurfa því að vera góðir á víðu sviði hjólreiða, bæði þegar kemur að heildarwöttum og W/kg.

Fyrir nokkrum árum var þessu fyrirkomulagi breytt og tímaþrautin tekin út og er nú keppt í sjálfstæðri bikarmótaröð og Íslandsmóti. Hákon segir að hann vilji sjá þessu breytt til baka. Það myndi líka þýða að þeir sem eru í tímaþrautinni þyrftu að fara á fullt í götuhjólreiðar ef þeir væru það ekki þegar. „Það eru skiptar skoðanir um þetta, en ég tel að tímaþrautin eigi heima í götuhjólunum líka,“ segir Hákon, en bætir við að hann skilji vel sjónarmiðið að góðir götuhjólamenn vilji ekki fjárfesta í rándýru og sérhæfðu TT-hjóli.

Auk Krýsuvíkurkeppninnar verða allavega fimm aðrar tímaþrautir. Þann 29. maí fer fram Cervelo TT keppnin, en hún er við Seltjörn á Reykjanesi. 13. júní er svo fyrsta af þremur Cube prolouge keppnum ársins, en þar er farið niður Krýsuvíkurveginn en ekki upp aftur. Sem sagt fín keppni fyrir þá sem vilja stíga sín fyrstu skref og þar ættu W/kg að þvælast enn minna fyrir fólki.

Sjá nánar: Keppnisdagatal 2018

20. júní fer svo fram Íslandsmótið og eins og fyrr segir verður keppt við Kleifarvatn. Er ræsingin frá Seltúni (nálægt hverasvæðinu) og hjólað norður þangað sem malbikið endar og mölin tekur við. Þar er snúið við og endað á upphafsstað. Á leiðinni þarf að hjóla upp nokkrar styttri brekkur yfir höfðana þrjá á leiðinni. Gæti það að sögn Hákons vel hrist upp í keppninni og að gaman gæti verið að sjá hvort að einhver ný andlit stígi á pall þá.Cube prologue II er svo 18. júlí og Cube prologue III þann 15. ágúst.

Breiðablikskeppnin, Cervelo og síðasta Cube Prologue keppnin eru í bikarmótaröðinni.

Previous Article
Next Article

One Reply to “Tímaþraut: Þú, hjólið og wöttin”

Leave a Reply

Hjólafréttir

Markmið hjólafrétta er að auka veg og vanda hjólreiða sem sports og samgöngumáta. Við vonum að þú lesandi góður hafir gagn og gaman af lestrinum. Um vefinn.

Samstarfsaðilar