„Þetta gekk vel og ég er kominn heim heill heilsu“

Arnór Gauti Helgason kláraði í gær hringferð sína um landið eftir talsverða baráttu við veðurguðina alla leiðina. Síðasti leggurinn var frá Hellu í gær og gekk hann mjög vel þrátt fyrir mikla rigningu, en Arnór Gauti fékk í staðinn meðvind í bakið. Hann segir ferðina í heild hafa verið mjög skemmtilega og góða og sér hafi aldrei leiðst. Aftur á móti hafi komið kaflar sem hafi verið alveg hræðilegir og ef hann hefði aðeins verið að hjóla fyrir sjálfan sig hefði hann líklegast hætt. Fór hann hringinn til að vekja athygli á sölu á SÁÁ álfinum.

„Þetta gekk vel og ég er kominn heim heill heilsu,“ segir Arnór Gauti fyrst þegar hann er spurður hvernig hafi verið. Hann endaði för sína við Vog klukkan um þrjú í gær og segir að sér hafi verið gríðarlega vel tekið af starfsfólkinu þar sem hafi fylgst með ferðalagi hans. Síðasti dagurinn var í ausandi rigningu, en vegna góðs meðvinds hélt hann 30 km/klst meðalhraða frá Hellu. „Ég notaði alla orkuna þá, enda var ég ekkert að fara að hjóla daginn eftir [í dag],“ segir Arnór Gauti hlægjandi.

Sjá nánar: Fer hringinn á gulu þrumunni

Hann er þó ekki kominn með upp í kok af hjólreiðum og var á leið út í hjólatúr með konunni þegar blaðamaður náði af honum seinni partinn. „En það verður bara 20-30 km rúll.“ Arnór Gauti segist hafa sofið 14 klukkustundir eftir að hann kom heim og að í dag hafi hann verið rosalega hægur, „eiginlega eins og maður sé þunnur.“

20180507_185819
Dagurinn á leið að Jökulsá á Fjöllum frá Akureyri var sá skemmtilegasti, en einn sá leiðinlegasti tók svo við í framhaldinu. – Ljósmynd/Arnór Gauti

Spurður út í næstu markmið segir hann allavega að hringurinn sé yfirstrikaður í listanum yfir þá hluti sem þurfi að gera og að wow cyclothon lið geti alveg sleppt að hringja í hann. „Búinn með þetta núna,“ segir hann.

Eins og Hjólafréttir höfðu sagt af í fyrri frétt byrjaði ferðalagið ekkert of ákjósanlega hjá Arnóri Gauta. Fékk hann snjókomu og leiðinlegt fyrsta daginn. Svo þegar hann vaknaði á degi tvö við Laugbakka var nýfallinn snjór á leiðinni. Besti dagurinn hafi svo verið frá Akureyri fram hjá Mývatni að Jökulsá á Fjöllum. „Það var fyrsti dagurinn sem var snjólaus,“ segir hann.

20180509_132249
Gula þruman (Sensa Aquila sl) reyndist vel á leiðinni.

Við tók þó erfiðasti kaflinn að hans sögn – Möðrudalsöræfin. „Ég var andlega búinn á Egilsstöðum, það var engin orka eða slíkt eftir.“ Lýsir hann því þannig að hann hafi fengið gríðarlegan mótvind á leiðinni og líka niður Jökuldalinn og hafi aðeins verið á um 15-16 km/klst meðalhraða og í heild hjólað 100 kílómetra á 6-7 klukkustundum. Þá sé lítið um bíla og fátt um kennileiti á þessum kafla. Þar með sé erfitt að búa sér til áfanga, hvort sem það er beygja, hæð eða sveitabær. „Það er bara sandur, sandur og sandur og allt eins,“ segir hann.

„Þarna um miðbik ferðarinnar. Ef ég væri ekki að gera þetta fyrir sjálfan mig væri ég löngu hættur,“ segir Arnór Gauti þegar hann rifjar upp ferðina. Hann hafi þó ákveðið að halda áfram, enda væri málefnið gott.

Stuttu eftir Djúpavog, þegar hann var kominn framhjá Hvalnesskriðum segir Arnór Gauti að honum hafi fundist að brekkan væri alltaf niður á við. Reyndar tekur hann fram að sá kafli hafi verið einn sá flottasti að hjóla. Með fjallið á hægri hlið og klettabrúnina á vinstri hönd og beint ofan í sjó.

20180509_112200
Kominn á Austurlandi – Ljósmynd/Arnór Gauti.

Dagleiðin frá Djúpavogi að Skaftafelli var lengsta dagleiðin sem hann tók á hringnum, eða 214 kílómetrar. Var hann þá 7,5 klukkustundir í hnakknum. Eftir langa daga segir Arnór Gauti að hvað mikilvægast hafi verið að finna sundlaugar og sérstaklega kalda potta til að fá vöðvana í lag á ný fyrir átök komandi dags.

Þegar komið var að Skaftafelli segir Arnór Gauti að hann hafi verið orðinn mjög þreyttur. Daginn eftir var mótvindurinn mjög sterkur og hann hafi tekið þá ákvörðun að fara með bílnum það sem hafði verið áformað að hjóla þessa dagleið og byrjaði því næsta dag á Hellu. Sem fyrr segir gekk svo ferðin frá Hellu mjög vel. Segist hann ánægður með ferðina í heild og gaman að hann hafi getað farið hana í góðum tilgangi og styrkt starf SÁÁ.

Previous Article
Next Article

Leave a Reply

Hjólafréttir

Markmið hjólafrétta er að auka veg og vanda hjólreiða sem sports og samgöngumáta. Við vonum að þú lesandi góður hafir gagn og gaman af lestrinum. Um vefinn.

Samstarfsaðilar