Mætti með tvær hugmyndir um hvernig hægt væri að slíta

Ingvar Ómarsson stóð uppi sem sigurvegari í Elite-flokki á Reykjanesmóti Nettó og 3N í götuhjólreiðum sem fram fór í Sandgerði. Ingvar hafði betur í endaspretti við Hafstein Ægi Geirsson en þeir slitu sig frá fremsta hópi á Festarfjalli og héldu því bili allt til enda.

Sjá einnig: Úrslit í Reykjanesmótinu

Við spjölluðum við Ingvar að lokinni keppni og spurðum hann út í hvernig keppnin þróaðist. „Ég mætti í keppnina með tvær hugmyndir um hvernig hægt væri að slíta hópinn en veðrið setti ákveðið strik í reikninginn. Aðstæður buðu ekki upp á mikið og Ísólfsskálabrekkan var eiginlega eini staðurinn þar sem var hægt að gera eitthvað,“ segir Ingvar aðspurður um uppleggið fyrir keppnina í dag.

Gerðu árás á Festarfjalli

Ingvar Ómarsson - KOM upp Ísólfsskálabrekku
Konungur fjallsins. Ingvar Hjólaði á 403 wöttum og tæplega 27 kílómetra hraða upp Ísólfsskálabrekku og setti í leiðinni besta tíma sem mælst hefur þar á Strava.

Í Elite-flokki er hjólað í gegnum Grindavík, upp Festarfjall þar sem snúið er við og haldið aftur sömu leið baka í Sandgerði þaðan sem keppnin er ræst. Þegar að fjallinu var komið var fremsti hópur enn nokkuð fjölmennur. „Menn byrjuðu að stilla sér upp þegar brekkan nálgaðist en þá töluðum við Haffi [Hafsteinn Ægir] okkur saman og gerðum árás,“ segir Ingvar. Á toppi fjallsins höfðu Ingvar og Hafsteinn búið til bil á næstu menn og tóku þeir niðurleiðina hratt. Birkir Snær Ingvason og Bjarni Garðar Nicolaisson komu þar á eftir en hópurinn var að öðru leyti nokkuð splundraður á þessum tímapunkti. Þegar í Grindavík var komið var bilið á milli þeirra og næsta hóps orðið 20-30 sekúndur.

Í meðfylgjandi myndbandi sem Bjarni Már Svavarsson tók má sjá þegar Ingvar og Hafsteinn eru á leið upp Ísólfsskálabrekku og verulega hefur teygst á hópnum.

[iframe style=”border: none; overflow: hidden;” src=”https://www.facebook.com/plugins/video.php?href=https%3A%2F%2Fwww.facebook.com%2Fbjarnims%2Fvideos%2F10155725655544071%2F&show_text=0&width=560″ width=”560″ height=”315″ frameborder=”0″ scrolling=”no” allowfullscreen=”allowfullscreen”][/iframe]


Sjá einnig:
Reykjanesmótið handan við hornið

„Sáum að hópnum var að takast að loka bilinu á okkur“

Ingvar kveðst hafa horft reglulega til baka til að meta hversu langt væri í hópinn. „Þegar við erum að nálgast beygjuna við Reykjanesvirkjun lítum við til baka og sáum að hópnum var að takast að loka bilinu á okkur. Við ákveðum þá að gefa aftur í og nokkru síðar þegar við erum búnir að beygja inn á Hafnarveg sáum við að bilið hafði aukist verulega aftur og þá vissum við svona nokkurn veginn að þeir myndu ekki ná okkur,“ útskýrir Ingvar fyrir fréttaritara sem hlustar spenntur á. Eins og fyrr segir náðu þeir Ingvar og Hafsteinn að halda bilinu allt til enda, í hvorki meira né minna en 53 kílómetra, en Ingvar hafði betur í endaspretti og komu félagarnir um einni mínútu í mark á undan hóp af u.þ.b. 10 hjólurum.

Ingvar Ómarsson - Fjallahjólreiðar
Ingvar er atvinnumaður í fjallahjólreiðum. Mynd: Martin Paldan

Keppir í heimsbikarnum í fjallahjólreiðum

Ingvar, sem er atvinnumaður í fjallahjólreiðum, er búsettur í Danmörku þaðan sem hann „gerir út“. Hann mun taka þátt í heimsbikarmótum í Þýskalandi 20. maí og aftur í Tékklandi 27. maí og er því í nógu að snúast hjá kappanum. En stefnir Ingvar á að taka þátt í mörgum mótum hér heima í sumar? „Ég stefni á að taka þátt í einhverjum mótum hér í sumar. Það getur verið smá erfitt að plana mótin hérna heima en ef það hittir þannig á að ég er á landinu og er ekki að keppa úti þá tek ég yfirleitt þátt.“ Hann segist fókusera á að taka þátt í Íslandsmeistaramótum en fyrir þau fást alþjóðleg UCI stig sem nýtast honum erlendis en stigasöfnun hefur áhrif á röðun í rásmarki í þeim keppnum sem hann tekur þátt í og þar getur munað miklu um að byrja framar.

Ingvar Ómarsson
Mynd: Ingvar Ómarsson / onyourleft.fjarhus.is

Aldrei verið í betra formi

Aðspurður segir Ingvar formið aldrei hafa verið betra en akkúrat núna. Ingvar segist í vetur hafa breytt nokkuð til í æfingum. Hann hætti að þjálfa með hjálp einkaþjálfara og byrjaði að þjálfa sjálfan sig. Hann segist hafa átt góð og slæm undirbúningstímabil síðustu ár en þetta árið hafi allt gengið upp með skipulag og taktinn  þar sem hann varð betri með hverri vikunni. Það virðist hafa skilað sínu því Ingvar gerði sér lítið fyrir og sigraði Fitness DK Marathon keppnina í Danmörku og náði þar að auki sínum besta árangri í annari UCI keppni í Danmörku þar sem hann hafnaði í 4. sæti. Það verður því gaman að fylgjast með Ingvari í þeim verkefnum sem framundan eru.

Aðalmynd fréttarinnar tók Hleiðar Gíslason. Hjólafréttir þakka kærlega fyrir leyfið til að nota hana.

Previous Article
Next Article

Leave a Reply

Hjólafréttir

Markmið hjólafrétta er að auka veg og vanda hjólreiða sem sports og samgöngumáta. Við vonum að þú lesandi góður hafir gagn og gaman af lestrinum. Um vefinn.

Samstarfsaðilar