Ágústa Edda og Rúnar Örn endurtóku leikinn

Ágústa Edda Björnsdóttir og Rúnar Örn Ágústsson endurtóku leikinn frá því á fyrsta bikarmóti ársins í TT og unnu elite-flokka kvenna og karla í Cervelo TT í kvöld. Um var að ræða annað bikarmótið og staða þeirra því orðin sterk fyrir síðasta bikarmótið sem fram fer 15. ágúst.

Farnir voru tveir hringir á vegi ÍAV við Seltjörn á Reykjanesi. Ágústa Edda, sem keppir fyrir Tind, hafði fimm sekúndur á Rannveigu Önnu Guicharnaud, sem keppir fyrir Breiðablik og var í öðru sæti, eftir fyrsta hring, en Ágústa var á 17:57 og Rannveig á 18:02. Á seinni hringnum bætti Ágústa við forskotið og endaði 25 sekúndum á undan Rannveigu á tímanum 36:24. Telma Matthíasdóttir í 3SH var í þriðja sæti á 40 mínútum sléttum.

_MG_5807
Sigurvegararnir í kvennaflokki. F.v. Telma Matthíasdóttir í 3SH, Ágústa Edda Björnsdóttir í Tindi og Rannveig Anna Guicharnaud í Breiðabliki.

Rúnar Örn í Breiðabliki var sem fyrr segir í efsta sæti í elite-flokki karla. Hann hóf keppnina af miklum krafti og fór fyrri hringinn á 15:08, en til samanburðar vann hann keppnina í fyrra (þegar aðeins var farinn einn hringur) á 15:21,5. Með snúningi tók hann svo síðari hringinn á 15:23 og því samanlagt á tímanum 30:31.

_MG_5602
Rúnar Örn Ágústsson á fullri ferð í brautinni í kvöld.

Ingvar Ómarsson úr Breiðabliki var í öðru sæti á rétt tæplega mínútu lakari tíma en Rúnar. Hákon Hrafn Sigurðsson, einnig úr Breiðabliki, var þriðji á tímanum 31:40, en vegna ruglings í byrjun og mismunandi útgáfa af startlista þurfti hann að byrja í talsverðu snatri ekki að fullu undirbúinn. Var af þeirri ástæðu meðal annars stuðst við flögutíma en ekki byssutíma.

_MG_5814
Rúnar Örn og Hákon Hrafn. Á myndina vantar Ingvar Ómarsson sem var í öðru sæti.

Nánari umfjöllun Hjólafrétta um TT

Í junior-flokki karla var Eyþór Eiríksson úr HFR efstu á tímanum 17:25. Sæmundur Guðmundsson úr HFR var í öðru sæti á 18:23 og Sólon Nói Sindrason, einnig úr HFR, var í þriðja sæti á 18:34.

_MG_5799
Sigurvegarar í junior-flokki karla.

Elísabet Helga Jónsdóttir sigraði í junior-flokki kvenna á 29:05. Í báðum junior-flokkunum var hjólaður einn hringur, eða 11,5 km.

Á almenningskeppninni, þar sem farinn var einn hringur, var Helgi Berg úr BFH fyrstur í karlaflokki. Var hann á tímanum 18:16, en Hlynur Harðarson í Víkingi var annar á tímanum 18:26. Sigurður Bergmann úr UMFG var í þriðja sæti á 18:43.

_MG_5803
Almenningsflokkur karla.

Í kvennaflokki í almenningskeppninni var Erla Sigurlaug Sigurðardóttir úr Tindi fyrst á tímanum 19:30. Kolbrún Dröfn Ragnarsdóttir úr HFR var í öðru sæti á 19:52 og Magnea Guðrún Karlsdóttir úr Bjarti var í þriðja sæti á 20:32.

Keppnin átti upphaflega að fara fram í gær, en vegna veðurspár, þar sem meðal annars mátti gera ráð fyrir talsvert harkalegum vindhviðum, var ákveðið að fresta henni um einn dag. Voru sennilega fæstir ósáttir með það, enda lék veðrið við keppendur, þurrt og lítill vindur sem keppendur fengu aðeins í bakið á leiðinni til baka.

_MG_5801
Almenningsflokkur kvenna.
Previous Article
Next Article

Leave a Reply

Hjólafréttir

Markmið hjólafrétta er að auka veg og vanda hjólreiða sem sports og samgöngumáta. Við vonum að þú lesandi góður hafir gagn og gaman af lestrinum. Um vefinn.

Samstarfsaðilar