Tveggja daga hjólahátíð framundan
Næsta föstudag og laugardag fer fram hjólakeppnin Tour of Reykjavík (ToR). Skipuleggjendur leggja í ár aukna áherslur á þátttöku almennings þótt meistaraflokkskeppnin verði áfram á sínum stað. Hjólafréttir ræddu við Leif Geir Hafsteinsson, einn þeirra sem sér um mótsstjórn, um breytingar í ár og hvernig hann sér keppnina fyrir sér almenningshluta keppninnar.
Áður en við byrjum er ágætt að fara stutt yfir sögu og fyrirkomulag keppninnar.
Keppnin er haldin af Íþróttabandalagi Reykjavíkur (ÍBR) sem sér meðal annars um Reykjavíkurmaraþonið, Laugavegshlaupið og Reykjavík international games (RIG). Þetta er þriðja árið sem keppnin fer fram, en skipuleggjendur vildu frá upphafi að ToR yrði fjöldaga götuhjólakeppni þar sem þátttakendur gætu hjólað af öryggi á götum borgarinnar og að fá inn sterka erlenda keppendur. Þá var von til að með tíð og tíma myndi keppnin byggjast upp svipað og Reykjavíkur maraþonið sem er orðin að eins konar hjólahátíð fyrir alla fjölskylduna.
Keppt er yfir tvo daga. Fyrri dagleiðin er um 125 kílómetrar og sú síðari um 50 kílómetrar. Á fyrri dagleið er hjólað á Þingvelli og til baka, en seinni dagleiðin fer fram innan borgarmarka Reykjavíkur með lokunum á götum og öðru tilheyrandi.
Fjórar stórar breytingar milli ára
Fyrsta stóra breytingin milli ára er að Tour of Reykjavík er nú í fyrsta skiptið haldin í júní, en áður var hún haldin í september. Leifur segir að í fyrra hafi margir götuhjólreiðamenn hreinlega verið komnir í haustfrí eftir vor- og sumartímabilið. Þá hafi veðrátta á þessum tíma geta sett strik í reikninginn.
Önnur stór breyting er að nú verður tveggja daga keppnin bæði í A og B flokki. Er A flokkurinn fyrir þá sem eru öflugir keppnishjólreiðamenn, meðan B keppnin er fyrir alla aðra. Með þessu segir Leifur að fleiri ættu að finna sér stað í keppninni og að sérstaklega í lengri dagleiðinni ætti fólk ekki að lenda í því að þurfa að hjóla eitt stóran hluta leiðarinnar.
Auk þess að geta keppt í tveggja daga keppni getur fólk skráð sig einungis í fyrri eða seinni dagleiðina. Byrjar B flokkur í tveggja daga keppninni með öðrum í B flokki sem aðeins fara aðra dagleiðina. A flokkurinn er hins vegar bara fyrir þá sem taka þátt báða dagana.
Þriðja stóra breytingin er kynjaskiptingin. Í 50 kílómetra keppninni, sem er innanbæjarkeppnin, munu konur og karlar keppa á mismunandi tíma. Er þetta gert eftir athugasemdir frá kvennkeppendum síðustu ár sem bentu meðal annars á að hröðustu karlarnir væru að ná að hringa hægfarari konur með tilheyrandi hættu, enda þeir fyrstu oft á gífurlega miklum hraða.
„Þetta er auðvitað frábært“
Að lokum leiðinni í 125 kílómetra keppninni verið breytt aðeins, bæði til að fá aukna spennu í keppnina og til að bæta öryggi keppenda. Hjólað er yfir Mosfellsheiði eins og í fyrra, en í stað þess að taka hring á Þingvöllum (eins og í Þingvallakeppninni) er nú beygt upp Uxahryggjaveg hjá þjónustumiðstöðinni og hjólað upp nokkuð bratta brekku á Meyjarsæti og svo til baka, gegnum Grafning og upp Nesjavallabrekkuna og Nesjavallaleið í bæinn. Í stað þess að enda svo niðrí bæ verður í ár endað í Víðidal. Með þessu segir Leifur að öryggi keppenda eigi að aukast talsvert sem og utanumhald löggæslu.
„Við ætlum að efla þessa keppni,“ segir Leifur og bætir við að keppnin sé mjög góð þjónusta við hjólasamfélagið. „Að fá svona góða tveggja daga keppni og nánast miðnæturhjólakeppni um Þingvelli. Þetta er auðvitað frábært,“ segir hann.
Sér fyrir sér yfir þúsund keppendur
Spurður hvað hann telji raunhæft að sjá marga keppendur í móti sem þessu segir Leifur að hann sjái fyrir sér að þegar fram líði stundir og keppnin þroskist þá muni yfir þúsund manns taka þátt. Segir hann að allir sem taki til dæmis þátt í Wow cyclothon ættu að geta tekið þátt í þessu móti, lengri og styttri daginn. Bæði ætti fólk að vera í formi fyrir keppnina og þá sé þetta góð upphitun fyrir hringinn. Til viðbótar bæti þátttaka í mótum sem þessu alla tæknihlið hjólreiða þar sem fólk læri að drafta og að hjóla í hópi. „Þetta er flott æfingaáreiti og þú hefur svo góðar þrjár vikur til að vinna úr því.“ Þá bendir Leifur á að keppni sem þessi sé ekki síður góð fyrir þríþrautarfólk sem vilji bæta hjólaformið.
B keppnin er að hans sögn fyrir hjólreiðafólk sem er ekki endilega í hörðum keppnishugleiðingum, en samt í fínu hjólaformi. „Þetta er meðal annars fyrir þá se mvilja taka aðeins meiri samvinnugír en þeir sem eru í A flokki og hugsa mest um árásir og bellibrögð,“ segir Leifur. Hann bætir við að þeir sem hafi tekið þátt í B keppnum á götuhjólamótum í ár og síðustu ár og endað í efstu sætum eigi hiklaust að fara í A flokkinn.
Eins og í fyrra er unnið að því að fá erlenda keppendur og þegar þetta er skrifað segir Leifur að það stefni í að það verði nokkur fjöldi þeirra, allavega fleiri en í fyrra. „Þetta gæti orðið hörkukeppni hjá þeim bestu,“ segir hann.
Laugardagurinn ein stór hjólaskemmtun fyrir alla fjölskylduna
En laugardagurinn er ekki bara 50 kílómetra keppnin. Dagurinn byrjar klukkan 15:00 með 40 mínútna fjölskylduhjólamóti. Þar getur öll fjölskyldan farið tveggja kílómetra hring saman. Svo klukkan 16:00 verður ræst í kvennaflokki og eru hringir frá Laugardal niður á Sæbraut og niður í miðbæ hjólaðir. Klukkan 18:00 verða svo karlarnir ræstir og því ljóst að dagurinn er í heild ein stór hjólaskemmtun fyrir alla fjölskylduna að sögn Leifs.
Eins og undanfarin ár verða götulokanir vegna mótsins og segir Leifur að það sé alveg einstakt fyrir hjólreiðafólk að fá slíka þjónustu þegar komi að mótum hér á landi. „Það er geggjað að geta hjólað út úr bænum á lokuðum götum,“ segir hann um löngu dagleiðina. Bætir hann við að ekki sé síðra að geta í innanbæjarkeppninni getað hjólað um lokaðar götur án þess að þurfa að hafa áhyggjur af bílum. Getur fréttaritari tekið undir með honum að slíkt séu í raun forréttindi fyrir keppendur hér á landi og þeim mun meiri ástæða til að taka þátt.
Sem fyrr segir hefst ToR á föstudaginn og er ræst klukkan 18:00 fyrir 125 km leiðina. Á laugardaginn er svo ræsing í kvennaflokki klukkan 16:00 og í karlaflokki klukkan 18:00.
Skráning fer fram á heimasíðu keppninnar sem finna má hér.
One Reply to “Tveggja daga hjólahátíð framundan”