Vilja lækka hámarkshraðann á hjólastígum í 15 km/klst

Gróttuhringurinn hefur lengi verið vinsæl hjólaleið meðal hjólreiðamanna og -kvenna, enda fallegt að fara með sjávarsíðunni. Á síðasta kjörtímabili bættist við á norðurströnd Seltjarnarness flottur hjólastígur (þó deila megi um ágæti þess hvernig hann endar við Gróttu) sem bætir til muna öryggi hjólreiðafólks og gangandi, en samhliða hjólastígnum er gamli göngustígurinn.

Samkvæmt auglýsingu Sjálfstæðisflokksins á Seltjarnarnesi, sem hefur verið í meirihluta undanfarna áratugi, á að halda áfram að byggja upp hjólastíga sem er einstaklega ánægjulegt að heyra.

Nánar: Umfjöllun Hjólafrétta um hjólreiðar og kosningar

Það vekur þó athygli að auk þess að boða aukna uppbyggingu boðar flokkurinn að hámarkshraði verði settur á hjólastígana upp á 15 km/klst. Hjólafréttir vita ekki til þess að slíkar hraðatakmarkanir hafi áður verið settar á sérstaka hjólastíga.

Stígarnir sem eru aðgreindir frá annarri umferð hafa bætt öryggi sérstaklega mikið. Ljóst er að stór hluti þeirra sem hjólar um Gróttu í dag fer á meiri hraða en 15 km/klst og líklega stærstur hluti á yfir 20 km/klst á hjólastígunum.

Ath. að myndin hér að ofan er af sameiginlegum stíg yst á Gróttu, en ekki á nýju séraðgreindu hjólastígunum.

Previous Article
Next Article

2 Replies to “Vilja lækka hámarkshraðann á hjólastígum í 15 km/klst”

  1. Birgir Birgisson

    Getur ekki einhver íbúi á Seltjarnarnesi bent Sjálfstæðisflokknum þar á, að ef hámarkshraðinn á sérstökum hjólastígum verður settur svona neðarlega, er hætt við að hjólreiðafólki á götum Seltjarnarness fjölgi verulega. Stígurinn var góð viðbót og gerði hjólreiðafólki kleift að komast um nesið án þess að taka götur í notkun, nema kannski að litlu leyti alveg yst á nesinu (þar sem enginn sérstakur hjólastígur er). Þetta er því augljós afturför.

  2. Jóhann Thorarensen

    Það er ljóst að ef hraði á hjólastígum má ekki fara yfir 15 km/klst þurfa þeir sem hjóla hraðar að hjóla götuna. Það er ekkert að því.

Leave a Reply

Hjólafréttir

Markmið hjólafrétta er að auka veg og vanda hjólreiða sem sports og samgöngumáta. Við vonum að þú lesandi góður hafir gagn og gaman af lestrinum. Um vefinn.

Samstarfsaðilar