Hvar verður spennan í Tour of Reykjavík?

Í kvöld fer fram Tour of Reykjavik en þar er á ferðinni ein metnaðarfyllsta hjólreiðakeppni landsins. Þar verður boðið bæði upp á hjólreiðar í mögnuðu landslagi Þingvalla og Nesjavalla ásamt lokuðum brautum í Reykjavík. Keppt er yfir tvo daga. Fyrri dagleiðin er um 125 kílómetrar og sú síðari um 50 kílómetrar. Á fyrri dagleið er hjólað á Þingvelli og til baka, en seinni dagleiðin fer fram innan borgarmarka Reykjavíkur með lokunum á götum og öðru tilheyrandi.

Sjá nánar umfjöllun okkar um Tour of Reykjavik.

Þetta er í þriðja sinn sem Tour of Reykjavik fer fram og leiðin hefur tekið breytingum á hverju ári. Fyrsta árið var leiðin 110 km löng byrjað á Nesjavallavegi og Mosfellsheiðin tekin á heimleiðinni. Sigurvegarinn í karlaflokki það árið var hinn danski Tobias Mörch frá Amager Cykle Ring sem tókst að sigra eftir solo-breakaway snemma á leiðinni. Hann hjólaði því mestmegnis einn og kom í mark á tímanum 2 klst 49 mín. Í öðru sæti var Magnus Klaris frá sama félagi og Ingvar Ómarsson kom þriðji í mark. Í kvennaflokki sigraði Erla Sigurlaug Sigurðardóttir frá Tindi en á eftir henni komu Ágústa Edda Björnsdóttir og María Ögn Guðmundsdóttir.

Í fyrra þróaðist keppnin í tvær dagleiðir og var sú fyrri lengd í 125 km. Nú var byrjað að hjóla í átt til Þingvalla yfir Mosfellsheiði, hringur tekinn í Þingvallaþjóðgarði og svo hin alræmda Nesjavallabrekka tækluð á leiðinni heim. Seinni dagleið var 50 km hringur í Reykjavík. Erlendum keppendum fjölgaði á síðasta ári bæði í karla og kvennaflokki og tókst þeim að taka nær öll verðlaunasætin ef frá er talið þriðja sæti í kvennaflokki þar sem Erla Sigurlaug Sigurðardóttir tók bronsið.

1
150 km keppnin fer upp á Þingvelli og Nesjavallaleið til baka.

Enn á ný eru gerðar smávægilegar breytingar á leiðinni, bæði fyrri dagleið og seinni. Fyrri dagleið er líkt og í fyrra 125 km leið þar sem hjólað er í átt að Þingvöllum gegnum Mosfellsheiði. Nú verður hinsvegar ekki tekinn hringur í þjóðgarðinum heldur hjólað um Uxahryggjaveg þar til snúið er við, hjólað um Grafning og Nesjavallaleiðin hjóluð í endamarkið sem verður staðsett í Víðidal.

Þegar litið er yfir keppendahópinn má búast við harðri keppni. Í karlaflokki mæta til leiks margir af sterkustu hjólurum Íslands, en bæði Ingvar Ómarsson og Hafstein Ægir Geirsson eru skráðir en þeir voru fyrstu menn í Reykjanesmótinu. Munu þeir meðal annars etja kappi við keppendur frá hinu danska Team Integra Advokater – Giant og frá hinu hollenska Global Cycling Team. Í kvennaflokki er skráð til leiks Ágústa Edda Björnsdóttir sigurvegari úr Reykjanesmótinu en í kvennaflokki eru einnig keppendur frá hinu danska Team Integra Advokater – Giant.

2
50 km keppnin í Reykjavík.

Þetta er krefjandi leið og búast má við góðri keyrslu á hópnum upp á Mosfellsheiði. Ágætis veðurspá er fyrir keppni morgundagsins, norðvestan 4-5 m/s merkir að keppendur fá hliðarmeðvind upp á Mosfellsheiði. Hjólafréttir telja því líklegt að keyrt verði á mjög háu pacei inn á Þingvelli. Leiðin upp á Mosfellsheiði er um 16 km af hækkun og svo um 16 km lækkun niður að þjónustumiðstöð. Af skráningu að dæma eru margir sterkir keppendur skráðir til leiks og því ekki ólíklegt að hópurinn sem mæti inn á Þingvöll verði nokkuð stór (Allt að 20-30 keppendur). Vindurinn mun breytast í hliðarmótvind þegar keppnin snýst á Uxarhryggjavegi og því líklegt að hópurinn komi  til með að þynnast á leið upp að Grafningi. Þegar komið er inn á Grafningsveg munu keppendur fá meðvind og því ljóst að hjólarar með há w/kg munu reyna að nýta sér brekkurnar á Grafningsvegi til að slíta hópinn. Brekkurnar á Grafningsvegi eru ekki langar en þær eru brattar og líklegar til að hafa áhrif á þreyttar lappir. Nesjavallabrekkan er síðan flestum hjólreiðamönnum vel kunnug. Hún er um 3 km að lengd, byrjar rólega þegar beygt er af Grafningsvegi þar til klifrið skellur á af fullum þunga. Næsti kílómeter rífur vel í þegar hallinn er á bilinu 10-17% þar til komið er á sléttu. Að lokum er það 700 m klifur í 10-18% halla upp á toppinn. Niðurferðin er síðan tæknileg þar til lokabrekkan tekur við, 400 m klifur með 12% meðalhalla. Þá tekur við bein leið í bæinn.

Hjólafréttir settu sig í samband við Helga Berg Friðþjófsson, hjólreiðamann og könnuðu hvernig hann sæi fyrir sér keppnina. Helgi hefur fylgst vel með keppninni undanfarin ár og lýst henni í beinni útsendingu síðustu tvö ár. Í ár mun hann vera með lýsingu á keppninni ásamt Alberti Jakobssyni á facebook síðu Tour of Reykjavik. Helgi sagði ljóst að erlendir keppendur hafi sýnt mikinn styrk í Tour of Reykjavik undanfarin ár. Þeir hafi margir hverjir gríðarlega reynslu þrátt fyrir ungan aldur, mikinn skilning á keppnishjólreiðum og geti lesið reicið afar vel. Hann minntist sérstaklega á solo-breakið hjá Tobias árið 2016 og svo árásir á Grafningsveginum í fyrra.  Helgi á von á að brekkurnar á Grafningsvegi muni hafa töluverð áhrif á keppnina líkt og í fyrra og taldi líklegt að léttari keppendur muni reyna að splitta upp keppninni fyrir Nesjavallabrekkuna. Í ljósi sögunnar verði því erlendir keppendur að teljast sigurstranglegir þó svo að hann þekki ekki erlendu keppendurna sérstaklega.

Hjólafréttir hvetja þá sem ekki ná að hjóla til að fylgjast með beinni útsendingu sem verður á Facebook síðu Tour of Reykjavik. Mesta spennan verður þó líklega að mæta á topp Nesjavallabrekkunar og sjá keppnina í beinni. Á facebook síðu Tour of Reykjavik er þannig boðið upp á ferðir á topp Hengilsins fyrir áhorfendur, sjá hér.

Tour of Reykjavík_wide_8-eign_IBR
Tour of Reykjavík hefst í dag og verður einnig á laugardaginn.
Previous Article
Next Article

Leave a Reply

Hjólafréttir

Markmið hjólafrétta er að auka veg og vanda hjólreiða sem sports og samgöngumáta. Við vonum að þú lesandi góður hafir gagn og gaman af lestrinum. Um vefinn.

Samstarfsaðilar