Hindranir, holur og aðrar hættur

Samgönguhjólreiðar eru ekki hættulausar eins og margir hjólreiðamenn hafa fengið að kynnast af eigin reynslu eða verið nálægt því að lenda í slysi. Orsakir slysa geta verið margþættar; aðgátsleysi hjólreiðamannsins sjálfs, aðgátsleysi annarra vegfarenda, hjólabúnaðurinn, veður, undirlagið og merkingar. Undirlag og merkingar eru þeir þættir sem ætti að vera hvað einfaldast að koma í veg fyrir og í raun er oft einkennilegt hversu lítið er gert til að koma í veg fyrir algjörar slysagildrur.

Undirritaður var á ferð Reykjavíkurhringinn í gær og tók meðfylgjandi myndir af nokkrum þeirra staða þar sem mætti bæta öryggi og aðgengi hjólreiðafólks umtalsvert með ekkert of mikilli fyrirhöfn.

Við byrjum við Ánanaust eins og sjá má af fyrstu myndinni hér að ofan. Fyrir framan Olís bensínstöðina þar hafa þessar framkvæmdir verið í gangi síðan um 20. mars. Það er reyndar umdeilt hvort segja eigi að framkvæmdirnar séu í gangi því lítið sem ekkert hefur verið gert þarna í allavega einn og hálfan mánuð. Á meðan þarf hjólreiðafólk að fara inn á bílastæðið við Olís og virðast ökumenn sjaldan eiga von á því hjólandi umferð þar.

Næst förum við að Hörpu. Þar er tjörnin/lækurinn á planinu ein mesta slysagildran í Reykjavík. Fjöldi manns hefur greint frá því á hjólasíðum á Facebook undanfarin ár að hafa farið þarna ofan í, bæði í björtu og dimmu. Hafa sumir slasast á meðan aðrir hafa aðeins tjónað hjólin. Reyndar er planið allt hættulegt fyrir þá blönduðu umferð sem þar fer um. Í fyrsta lagi er mjög erfitt fyrir hjólandi að sjá lækinn og hvar eigi að fara yfir hann. Þá eru merkingar fyrir umferð bíla takmarkaðar sem veldur því að hætta getur skapast gagnvart bæði hjólandi og gangandi. Þegar dimma tekur eða þegar mikil rigning er er þetta svæði sérstaklega hættulegt.

För okkar heldur áfram í efri byggðum Kópavogs. Ein helsta leið hjólandi úr Kóra- og Hvarfahverfum Kópavogs yfir til Reykjavíkur, hvort sem það er Elliðaárdalinn og niður í neðri hverfin, eða meðfram Árbæ í austur og norðurátt, er um Fornahvarf og svo Dimmahvarf og inn á göngu- og hjólastíg sem liggur að brúnni yfir Elliðaárnar við Breiðholtsbraut. Brúin sjálf hefur lengi verið umtöluð og er komin á hjólreiðaáætlun Reykjavíkurborgar, en það er annar stuttur kafli sem hefur ekki síst verið slæmur hjólreiðafólki lengi. Við botn Dimmuhvarfs er engin þægileg leið til að komast upp á göngu- og hjólastíginn eins og meðfylgjandi mynd sýnir. Annað hvort þarf að fara yfir malarkafla sem er alla jafna með smá polli í eða hoppa upp nokkuð skarpan kant. Þarna hefur lokakafli göngustígsins verið ókláraður í nokkur ár á meðan umferð hjólandi þarna eykst ár frá ári.

20180520_171751
Við botn Dimmahvarfs í Kópavogi.

Í Skerjafirði er annar staður sem hefur verið óbreyttur um langt skeið. Fyrir nokkrum árum var hjólastígur aðskilinn frá göngustígnum við Skildinganes. Var hjólastígurinn fluttur á göturnar Skeljanes og Einarsnes. Að mörgu leyti fín lausn þar sem fyrri stígur var heldur þröngur, en tenging hjólastígsins við Skeljanes er ekki upp á marga fiska. Um er að ræða plan sem strætó notar sem stoppistöð áður en þeir snúa við. Gatan er malbikuð, en axlirnar, sem báðar eru mjög ríflegar, eru með möl. Mölin af þeim fer alla jafna yfir á malbikið, en akkúrat á þessum kafla þurfa hjólreiðamenn að hægja á sér og taka nokkuð skarpa beygju. Með því að malbika þarna í kring væri hægt að auka öryggi umtalsvert.

20180530_130602
Tenging Skerjaness og hjólastígsins sem liggur í átt að Nauthólsvík.

Í Elliðaárdal hefur undanfarið verið unnið mikið starf til að bæta aðgengi og öryggi hjólreiðafólks og ber að fagna því. Á gatnamótunum við Fossvogsdal er hins vegar alltaf til staðar nokkur hætta vegna fólks sem kemur úr undirgöngunum. Eflaust mæti setja upp betri merkingar sem gerðu umferð þarna um öruggari, en athugasemd mín er þó um hættulega hæð sem er að finna rétt við gangamunninn að austan. Þar hefur líklegast flóð orsakað það að myndast hefur nokkuð groddaraleg bunga. Sé farið yfir hana á hjóli, jafnvel þó það sé á litlum hraða, er ekki ólíklegt að það skerði jafnvægi viðkomandi talsvert. Ætti að vera forgangsmál að jafna þetta út á jafn fjölförnum stað.

20180520_175038
Bungan er hægra meginn á þessari mynd, á milli bláa reiðhjólamerkisins og vegavinnumerkisins.

Þetta eru aðeins fáein dæmi. Það ætti ekki að þurfa marga hjólatúra um höfuðborgarsvæðið til að sjá að víða er pottur brotinn, þótt Grettistaki hafi verið lyft í málefnum hjólreiða á undanförnum árum. Þessi grein er því sett fram sem hvattning til þess að bæta úr þessum málum en ekki sem einhver blame-game. Á næstunni munu Hjólafréttir skrifa meira um þessi mál og eru lesendur hvattir til að benda okkur á staði þar sem aðgengi og öryggi er ábótavant. Nýlegar myndir af þeim stöðum eru einnig vel þegnar. hjolafrettir@hjolafrettir.is

Previous Article
Next Article

Leave a Reply

Hjólafréttir

Markmið hjólafrétta er að auka veg og vanda hjólreiða sem sports og samgöngumáta. Við vonum að þú lesandi góður hafir gagn og gaman af lestrinum. Um vefinn.

Samstarfsaðilar