Vel heppnað Drangeyjarmót

Elite flokkur karla á fullri ferð

Drangeyjarmótið fór fram í Skagafirðinum í gærkvöldi. Fyrirfram var útlit fyrir besta veður, heitt, þurrt og stillt. Þegar kom að keppni var ljóst að meiri vindur yrði niður í fjörðinn en búist hafði verið við. Vindáttinn vann með keppendum fram að Varmahlíð og svo út að Blönduhlíð en eftir það mætti keppendum mótvindur og hliðarmótvindur mikinn hluta af því sem eftir var. Þessar aðstæður drógu úr líkum á að breik myndu reyna fyrir sér í byrjun, enda hefði þá slíkt breik fljótlega þurft að mæta krefjandi mótvindi þegar minna en helmingur væri búinn. Fyrir vikið héldust fremstu hópar nokkuð lengi saman.

Áður en lengra er haldið er rétt að mæla með því fyrir lesendur að kíkja á þessa epísku útsendingu sem þeir Sigurður Karl (aka Siggi í Bikefit) og Hörður Ragnarsson voru með ca síðasta klst keppninnar. Ég segi það og skrifa, epísk lýsing og það hlýtur að vera komin heilmikil pressa á þá félaga að endurtaka leikinn aftur í næstu keppnum sumarsins.

Ágústa heldur áfram á sigurbraut

Í Elite kvenna voru fjórar konur í fremsta hóp þegar komið var aftur inn á Sauðárkrók og héldu þær hópinn upp að lokabrekkunni. Þetta voru þær Ágústa Edda Björnsdóttir, Hafdís Sigurðardóttir frá HFA, Bríet Kristý Gunnarsdóttir og svo Kristín Edda Sveinsdóttir. Þetti merkir að einvígið um toppsætin fór fram í brekkunni upp Tindastól en þar var það Ágústa Edda sem varð fljótust, og tryggði sér sigurinn með því að 13 mín og 30 sek upp lokaklifrið. Næst á eftir henni kom Hafdís Sigurðardóttir, 1 mín og 17 sek á eftir Ágústa en þriðja varð Bríet Kristý, 1 mín og 36 sek á eftir Ágústu.

Ingvar sneggstur upp Tindastól

Í karlaflokki þróaðist keppnin með svipuðum hætti. Eitthvað var um árásir á leiðinni, en flest bil voru fljótlega brúuð. Nokkuð stór hópur var saman allt fram að lokabrekkunni, eða samtals ellefu manns. Þarna mátti sjá nokkrar öflugar kempur, en einnig nokkra yngri sem hafa verið að koma upp.

Fljótlega eftir að beygt var upp Tindastólinn duttu nokkrir úr hópnum og svo tók Ingvar af skarið og skellti sér af stað. Enginn lokaði bilinu, en Eyjólfur Guðgeirsson, Birkir Snær Ingvason og Hafsteinn Ægir Geirsson skelltu sér á eftir og slitu sig einnig frá hópnum. Komu þeir að endingu í mark í þessari röð, en ekki langt þar á eftir kom Kristófer Gunnlaugsson og Óskar Ómarsson.

Í skoðun hvort mótið verði aftur á næsta ári aftur

María Sæmundsdóttir var mótsstjóri annað árið í röð, en keppnin var sett af stað í fyrra. Í samtali við Hjólafréttir segir hún að helsta breytingin hafi auðvitað verið að færa endamarkið fyrir alla upp í fjall, en í fyrra voru það aðeins elite flokkur karla og junior sem enduðu þar. „Þetta var miklu betra,“ segir hún. Bæði hafi allir fengið að spreyta sig við brekkuna og þá bæti það stemningu heilmikið að geta haft alla á einum stað í sama endamarki.

Að keppni lokinni var öllum boðið í kjötsúpu. „Það er ómissandi þáttur af Drangeyjarmótinu,“ segir María.

Spurð hvort Drangeyjarmótið verði aftur á dagskrá á komandi ári segir María að það sé til skoðunar hvort endurtaka eigi mótið að ári eða jafnvel hafa það annað hvert ár og því halda það eftir tvö ár. Bendir hún á að Drangey sé eitt minnsta hjólreiðafélag á landinu, en þrátt fyrir það hafi vel tekist til að halda mót með samtals 103 keppendum.

Úrslit er hægt að nálgast hér.

Ljósmyndir/Bríet Guðmundsdóttir

Previous Article
Next Article

Leave a Reply

Hjólafréttir

Markmið hjólafrétta er að auka veg og vanda hjólreiða sem sports og samgöngumáta. Við vonum að þú lesandi góður hafir gagn og gaman af lestrinum. Um vefinn.

Samstarfsaðilar