Flugeldasýning á morgun

Á morgun fer fram þriðja bikarmótið í crit mótaröðinni. Eins og venjulega hefur Bjartur veg og vanda af mótinu sem fer fram á Völlunum í Hafnarfirði. Búast má við því að flestir betri hjólarar landsins verði á staðnum, en óháð keppendalistanum má búast við flugeldasýningu.
Þeir Hörður Ragnarsson og Sigurður Karl Guðgeirsson, aka Hödd machine og Siggi í Bikefit, slógu heldur betur í gegn á laugardaginn þegar þeir skelltu í þrusugóða beina lýsingu frá síðasta klukkutímanum í bikarmótinu í götuhjólreiðum í Skagafirði. Það er ekki oft sem maður fær að upplifa spennu frá íslenskum mótum beint í æð heima í stofu, en þarna fengu áhorfendur svo sannarlega að gera það.
Og nú ætla þeir félagar að bæta um betur og skella í beina útsendingu frá crit keppninni á morgun, live með dróna. Ekki nóg með það heldur verða þeir einnig með beina lýsingu frá keppninni. Það stefnir sem sagt í epískt hjólapartí, hvort sem fólk verður á Völlunum eða að fylgjast með á netinu.
Útsendingin verður á Keppnisspjalli hjólreiðafólks á Facebook, þannig að fylgist vel með.
Áætlaðir tímar eru ca svona:
19:00 – Yngri flokkar
19:25 – Elite kvenna og Master karla
20:00 – Elite karla
Í samtali við Hjólafréttir segir Hörður að þetta sé ákveðin prófun í þetta skiptið, sjá hvort allt gangi hnökralaust upp og rafhlaðan endist í drónanum – rafhlaðan er með 35 mín endingu og fyrstu tvö hollin eru 20 mín hvort og elite karla svo 30 mín. Það verður því fróðlegt að sjá hvernig þetta fer.

Eftir fyrstu tvö mótin er Eyjólfur Guðgeirsson efstur í elite flokki karla. Óskar Ómarsson er annar og Ingvar Ómarsson þriðji.
Í kvennaflokki er Ágústa Edda Björnsdóttir efst, Elín Björg Björnsdóttir önnur og Hrefna Sigurbjörg Jóhannsdóttir þriðja.
Hægt er að sjá heildarstöðuna eftir tvö mót á meðfylgjandi síðu
Við hvetjum alla til að mæta og taka þátt (skráningu lýkur á miðnætti!!) og ef ekki mæta og horfa á. Það er spáð flottu hitastigi, þurru veðri og litlum vindi. Fullkomið hjólaveður.
