Hjólaleið upp í Hvalfjörð komin á deiliskipulag
Það fór ekki mikið fyrir nokkuð stórum fréttum í síðustu viku fyrir hjólreiðafólk, en á fundi skipulags- og samgönguráðs Reykjavíkur var samþykkt að uppfæra deiliskipulag fyrir Vesturlandsveg. Er nú meðal annars komið inn í skipulagið tillaga að göngu- og hjólaleið frá Leirvogsá upp í Hvalfjörð.
Skoða má breytingu á deiliskipulagi nánar hér
Í samantekt með deiliskipulaginu stendur nú „Bætt er við þeim möguleika að gera sérstakan göngu- og hjólastíg, eftir því sem aðstæður leyfa, sem kæmi þá í stað göngu- og hjólaleiðar á vegöxl hliðarvega. Lögð er áhersla á að til verði samfelld og örugg göngu- og hjólaleið meðfram Vesturlandsvegi. Leitast verður við að stígarnir séu 3-3,5 metra breiðir”
Ekki er þó öruggt að um alveg sérstakan hjólastíg verði að ræða, en samkvæmt deiliskipulaginu er verið að plana að leggja nýjan hliðarveg samhliða Vesturlandsvegi. Er hugmyndin með honum meðal annars að draga úr fjölda vegamóta og þannig safna umferð af stærra svæði saman fyrir færri gatnamót.
Í deiliskipulaginu kemur fram að göngu- og hjólaleið yrði „annað hvort á vegöxl hliðarvega eða að gerður verður sérstakur göngu- og hjólastígur meðfram hliðarvegunum, eftir því sem aðstæður leyfa.Þar sem engir hliðarvegir eru er gert er ráð fyrir sameiginlegum göngu- og hjólastígum með malbikuðu yfirborði. Leitast verður við að stígarnir séu 3-3,5 m breiðir svo nægt rými sé fyrir gangandi og hjólandi að mætast.“
Þá segir einnig að nýir stígar verði frá Mosfellsbæ og að Esjuvegi, frá nýjum hliðarvegi norðan Vesturlandsvegar og inn í Hvalfjörð. Fram kemur að með þessu sé lögð sé áhersla á að gera samfellda og örugga göngu- og hjólaleið meðfram Vesturlandsveginum.