Skjálfandamótið fer fram á laugardag
Á laugardag fer fram Skjálfandamótið, fyrsta stigamót í götuhjólreiðum á þessu ári. Eftirvæntingin er alltaf mikil fyrir fyrsta stóra götuhjólamót hvers sumars og biðin í ár hefur verið löng. Mótið er skipulagt af Hjólreiðafélagi Akureyrar sem ætla að bjóða keppendum upp á frábæra leið. Alls skráðu sig 88 til leiks.

Krefjandi hjólaleið frá Akureyri til Húsavíkur
Augun munu beinast að A-flokki karla og kvenna þar sem spennandi verður að sjá hvernig form keppenda verður fyrir fyrsta stóra mótið. Í A flokki karla er hjóluð 126 km leið, þar sem byrjað er á Eyjafjarðahring áður en farið er á aðalleiðina, sem liggur um Víkurskarð, Fnjóskadal og svo í átt að Húsavík gegnum Kísildal. Í A flokki kvenna (ásamt Junior KK, B flokki karla og Masters) er svipuð leið hjóluð nema Eyjafjarðahringnum í upphafi er sleppt, alls 104,7 km. Þetta eru krefjandi hjólaleiðir sem munu gefa keppendum tækifæri að slíta hópinn á nokkrum stöðum eða bjóða upp á breik setji tíma á Pelotonið.
Alls er um 1800m hækkun á báðum þessum leiðum og þar á einnig finna þrjú krefjandi klifur. Fyrsta er sjálft Víkurskarðið, 4,6 km af 6% meðalhalla með þónokkrum köflum þar sem brattinn er í tveggja stafa tölu. Hraðasti tíma þar upp eru tæpar 13 mín hjá körlum og um 18 mín hjá konum. Annað klifur er að finna á Þjóðveginum áður en beygt er af Þjóðvegi 1 í átt að Húsavík, um 3,5 km í 5% meðalhalla en þar er hraðasti tími um 8 mín hjá körlum og tæpar 11 mín hjá konum. Síðasta klifrið er um 20 km frá endamarkinu á Hvammavegi (Þetta klifur er ekki á leiðinni sem hjóluð er í U17, Junior KVK, B flokki kvenna Master kvenna). Klifrið er 2,6 km í 5% meðalhalla með nokkrum bröttum römpum.
Einnig er boðið upp á 78 km leið fyrir Almenningsflokk sem fer í gegnum Vaðlaheiðargöng og þar er Víkurskarðinu sleppt ásamt því að ekki er farið upp klifrið við Hvammaveg.
Sjá nánar um leiðir, kort og strava filea hér á síðu HFA.
Skákar einhver Ágústu og Ingvari?
Ingvar Ómarsson og Ágústa Edda Björnsdóttir hafa komið inn í sumarið í toppformi og eru bæði skráð til leiks. Bæði hafa þau landað sigri í fyrstu Criterium keppni sumarsins og er Ágústa ósigruð í TT keppnum sumarsins. Einnig landaði Ingvar sigri í Morgunblaðshringnum fyrr í vikunni og fyrstu TT keppninni á Vatnsleysuströnd.
Eins og greint var í samantekt okkar nýverið sigraði Ingvar fyrstu Criterium keppnina með því að fara í solo árás snemma í keppninni og því ljóst að hópurinn þarf að vera vakandi eigi slíkt ekki að endurtaka sig. Verður þar áhugavert hvort Íslandsmeistarinn Birkir Snær og Airport Direct liðið hans séu með einhver plön um hvernig eigi að bregðast við slíkum árásum. Brautin mun bjóða upp á nokkra staði sem gætu hentað Ingvari í slíkar árásir. Brautin er einnig ákjósanleg fyrir breik, þar sem einhverjir gætu reynt að losna frá hópnum strax á fyrstu kílómetrum og ná sér í tíma upp Víkurskarðið.
Í A flokki kvenna eru 12 keppendur skráðir og hjólar sá flokkur með B-karla, Masters og Junior Karla. Íslandsmeistarinn Ágústa Edda mun þar m.a. etja kappi við þrjár heimakonur úr HFA og Bríeti Kristý sem endaði í þriðja sæti í fyrstu Criterium keppninni. Veðrið gæti haft einhver áhrif á keppnina. Veðrið í keppninni stefnir í að vera með besta móti, heitt, þurrt en mögulega gæti mótvindur dottið inn í Víkurskarði og á fyrri hluta keppninnar og þannig haldið hópnum frekar saman. Haldist hópur saman inn yfir Hvammaveginn er mögulegt að keppnin geti endað í endaspretti.