Ágústa og Ingvar með tvennu í fyrstu mótum sumarsins

Fyrstu hjólreiðamót sumarsins fóru fram í þessari viku, fyrst stigamót í criterium sem fór fram í Dofrahellu í Hafnarfirði og svo Vortímataka Breiðabliks sem fór fram í gærkvöldi á Vatnsleysuströnd. Mikil eftirvænting er búin að ríkja um fyrstu mótin en sökum Covid-19 hefur ekki verið hægt að sjá keppnisformið á hjólreiðafólki fyrr en núna og keppnirnar ollu ekki vonbrigðum.
Magnaður solo sigur Ingvars

Í Elite flokki karla hjóluðu keppendur í 30 mín. Við ræsingu tók Stefán Orri Ragnarsson strax sprett en hópurinn náði honum fljótlega. Stærsta flugeldasýningin kom í kjölfarið, þegar Ingvar Ómarsson fór strax í að prófa lappirnar og býr í kjölfarið til gat á hópinn. Hann segir í samtali við Hjólafréttir að planið hafi verið að prófa það í amk einn hring, enda hafi hann upphaflega ætlað að vera passívur og sjá hvernig keppnin myndi spilast. Hann hafi verið viss um að hann fengi ekki að sleppa frá hópnum en fljótlega hafi bilið vaxið og því hafi hann ákveðið að committa á árásina. Ingvar hjólaði því einn nær alla keppnina og það dugði til sigurs. Fyrstu hringina náði eltihópurinn að halda bilinu í skefjum en á níunda hring dró úr kraftinum og Ingvar stækkaði bilið umtalsvert. Hjólafréttir spurðu Ingvar hvort hann búist ekki við að pelotonið hafi meiri gætur á honum í sumar eftir þessa frammistöðu. Hann svarar að það hafi verið fylgst með honum í götuhjólakeppnunum síðustu ár og hann sé því vanur því að hafa skotmark á bakinu. Úr eltihópnum var það Eyjólfur Guðgeirsson sem kom fyrstur í mark og endaði því annars en Óskar Ómarsson endaði þriðji.

Meiri spenna var í Elite flokki kvenna sem hjóluðu með B-flokki og Masters flokkum karla. Fjórar konur voru í fremsta hóp þegar keppnin var hálfnuð, þær Ágústa Edda Björnsdóttir, Kristín Edda Sveinsdóttir, Bríet Kristý Gunnarsdóttir og Elín Björg Björnsdóttir. Þegar keppninni lauk var það hins vegar Ágústa sem stóð uppi sem sigurvegara en næst á eftir henni kom Kristín Edda. Bríet Kristý hafnaði í þriðja sæti.
Úrslit í heild sinni má sjá á https://timataka.net/criterium2020_1/
Fjölmennt í Vortímatökunni
Mikill fjöldi var skráður til leiks í Vortímatöku Breiðabliks eða alls 119 keppendur. Eflaust hefur framlag Airport Direct liðsins í að halda utan um tíma keppenda á götuhjólum hvatt fleiri til að taka þátt. Brautin er alls 21,8 km löng, hjólað er eftir Vatnsleysustrandavegi um 11 km leið og snúið við á hringtorginu við Reykjanesbraut og sama leið hjóluð til baka. Eins og oft mætti keppendum mótvindur á leiðinni út eftir en góður meðvindur á leiðinni til baka. Ræst var í nokkrum flokkum. B-flokkana sigruðu Jón Arnar Óskarsson og Bríet Kristý Gunnarsdóttir. Master 60+ sigruðu Jón Arnar Sigurjónsson og Martha Arnadottir. Master 50-59 sigruðu Anna Helgadóttir og Ólafur Þór Magnússon. Pétur Árnason og Helen Ólafsdóttir sigruðu Master 40-49 ára.
Í Elite flokki kvenna sýndi Íslandsmeistarinn, Ágústa Edda Björnsdóttir þónokkra yfirburði og var um þrem mínútum á undan Kristínu Eddu Sveinsdóttur sem endaði í öðru. Í þriðja sæti var fyrrum Íslandsmeistarinn Rannveig Guicharnaud.
Í Elite flokki karla mátti búast við nokkurri spennu. Einungis munaði 15 sek. á milli Ingvars Ómarssonar og Rúnars Arnar Ágústssonar í Íslandsmótinu 2019 þegar Ingvar tók sigurinn og því viðbúið að augun myndu beinast að keppni þeirra á milli, en báðir í sérflokki í tímatöku. Eftir hálfa brautina, var 14 sek munur á milli þeirra, Ingvari í vil og breikkaði það bil í 22 sek við endamarkið. Ingvar því með tvö gullverðlaun í vikunni. Í þriðja sæti kom svo Eyjólfur Guðgeirsson og er það einnig í annað skipti í vikunni sem hann endar á palli.
Úrslit í heild sinni má sjá á https://timataka.net/tt2020_1/