Hringur í hrauninu í boði Erlu Sigurlaugar
Malarvegir, eldfjall með útsýni, einstigi og hraunbrölt. Sem sagt fullt af allskonar. Þetta er það sem er í boði á fjallhjólaleiðinni sem Erla Sigurlaug Sigurðardóttir býður okkur upp á, en Hjólafréttir heyrðu í henni og báðu hana um að segja frá sinni uppáhalds leið.
Sjá Einnig – Uppáhaldsleið Maríu Agnar
Erla er ekki ókunn í hjólaheiminum hér á landi, því hún á að baki nokkra Íslandsmeistaratitla, meðal annars í götuhjólreiðum, fjallahjólreiðum og maraþonfjallahjólreiðum. Þá hefur hún komið að ýmsum hjólatengdum málum síðustu ár og er í dag með Hjólaskólann ásamt Þóru Katrínu Gunnarsdóttur.
Leiðin sem Erla valdi er nálægt hennar heimahögum í Hafnarfirðinum, eða uppland Hafnarfjarðar og Garðabæjar og Helgafellssvæðið.
Nafn: Hringur í hrauninu
Lengd: 17,3km
Hækkun: 227m
Staðsetning: Hvaleyrarvatn-Búrfell-Helgafell
Erfiðleikastig: 3,5/5 (Samt alltaf hægt að ganga smá búta og fara af hjólinu. Meirihluti leiðarinnar passar fyrir öll getustig).
Strava route: https://www.strava.com/activities/3543229097
Frásögn um Vöfflumix-leiðina hennar Maríu Agnar í síðustu viku naut mikilla vinsælda og ljóst að hjólara hungrar í skemmtilegar leiðir utan malbiksins, hvort sem þær eru hér við höfuðborgarsvæðið eða lengra í burtu. Við munum því halda áfram að birta slíkar fréttir á komandi misserum.
En aftur að leiðinni hennar Erlu. Hún segir að þetta sé í raun leið sem henti fyrir xc hjól, hardtail eða fulldempað xc hjól, sem og all mountain hjólum.
„Þetta er mitt allra mesta uppáhald, bæði á XC hjólinu og eins í meira brölti á enduro hjólinu. Það er líka endalaust hægt að sauma við þennan hring,“ segir Erla. Þá tekur hún fram að almennt séu fáir á ferli á þessu svæði, fyrir utan stuttan kafla að Búrfelli.
Leiðin hefst nálægt hesthúsunum í nágrenni Hvareyrarvatns í Hafnarfirði. Ef komið er á bíl er hægt er að leggja honum á fyrsta litla bílastæðinu efst á hæðinni, stuttu eftir að beygt er inn afleggjarann að vatninu. Hjólað er inn skóginn efst á Hvaló og á malarveginum yfir í Sléttuhlíð, en þar er sumarbústaðabyggð. Þá tekur við sameiginlegur malarvegur fyrir bíla, hesta og hjól, sem liggur að Búrfelli, en hjólað er upp á fellið.
Slóðinn frá Búrfelli að Helgafelli/Kaldárseli er einstigi með þó nokkuð tæknilegum hraunköflum. Frá Helgafelli/Kaldárseli er svo hjóluð hraunleið sem Erla lýsir sem sem æðislegu og gefandi hraunbrölti, en með miklu flæði svo inn á milli. Endar það í hálfhring í kringum Stórhöfðann, sem er lítið fell við Hvaleyrarvatn.
„Þessi leið er því allt af öllu – muna að taka sér nautnapásur og anda öllu útsýninu inn og horfa og taka orkuna frá hrauninu og álfunum sem þar búa með sér heim!“ segir Erla.
Ef fólk vill lengja leiðina er hægt að bæta við hring í kringum Helgafellið eftir að komið er niður af Búrfellinu. Slíkt tekur um 45 mín aukalega að sögn Erlu og er „mistísk og gefandi viðbót á fjölbreyttum slóða.“
Svo má auðvitað alltaf gefa sér góðan tíma í viðbót til að njóta náttúrunnar með nesti í skóginum eða á slóðunum allt í kringum Hvaleyrarvatn þegar búið er að hjóla hringinn.