Allt um rafhjól

Vinsældir rafmagnshjóla hafa aukist gríðarlega undanfarið.

Um áramótin tóku gildi ívilnanir vegna kaupa á umhverfisvænum samgöngutækjum. Með því urðu reiðhjól og rafhjól undanþegin virðisaukaskatti upp að 48 þús. fyrir reiðhjól og 96 þús. fyrir rafhjól. Þetta merkir að hægt sé að kaupa rafhjól fyrir upp að 400 þús. krónum án þess að greiddur sé virðisaukaskattur, eða 200 þús. fyrir hefðbundin reiðhjól. Þessar ívilnanir eru ein af ástæðum þess að sprenging hefur orðið í sölu á rafhjólum fyrir þetta sumarið og hægt að gera mjög góð kaup í mörgum verslunum hér á landi. Hjólafréttir hafa fengið fyrirspurnir um ráðleggingar um hjólakaup, þ.m.t. rafhjólakaup og tókum við saman nokkur atriði sem gott er að hafa í huga. 

Mikil þróun hefur orðið í rafhjólum á undanförnum árum. Úrvalið hefur aukist verulega, framleiðendum hefur fjölgað og tæknin er orðin fullkomnari. Búnaðurinn er því orðinn léttari, með meiri drægni, betri endingu og á hagstæðu verði. Fyrir þá sem vilja njóta hjólreiða, stunda fjölbreytta útiveru eða umhverfisvænar samgöngur geta rafdrifin hjól verið frábær kostur.  

Hvernig virka rafhjól?

Rafhjól eru reiðhjól búin stuðningmótor. Þau virka þannig að þegar pedölum er snúið, styður hjálparmótorinn þannig að álagið á hjólarann verður minna. Í flestum tilfellum getur hjólarinn valið hversu mikinn stuðning hann vill frá hjálparmótornum. Við ákveðinn hraða, 25 km/klst, hættir svo mótorinn að vinna en það merkir t.d. að stuðningur frá mótornum er meiri upp brekkur en á flötu. 

Líkt og við val á reiðhjólum er margt sem þarf að hafa í huga við val á rafhjóli. Úrvalið er mikið og auðvelt að týnast í þeim frumskógi sem er í boði. Hins vegar er auðvelt að þrengja valið verulega ef þú hefur ákveðið hvernig hjólreiðar þú ætlar að stunda og svo hvaða verðflokk ætlunin er að miða á.

Í hvað á að nota hjólið?

Fyrsta sem þarf að hafa í huga er hvernig hjólreiðar er hjólinu ætlað að vera notað í. Er verið að leita að samgönguhjóli, ferðahjóli eða götuhjóli eða er ætlunin að geta farið af malbikinu? Er ætlunin að hjóla yfir sumarið, eða á að hjóla allt árið?  Er ætlunin að fara í langa túra eða stutta?

Staðreyndin er sú að ekkert eitt hjól hentar fullkomlega í allt en ef þú hefur góða hugmynd um hvað þú ætlar að nota hjóla í, er auðveldara að taka réttu ákvörðunina.

Klassískt borgarhjól úr Reiðhjólaverzluninni Berlín

Hin hefðbundnu borgarhjól eru tilvalin í styttri ferðir á malbiki og fyrir þá sem vilja ekki skipta yfir í hjólafötin. Þau bjóða upp á þægilega stöðu fyrir stuttar vegalengdir, þar sem stýrið er hátt og hjólarinn situr beinn í baki. Þessi borgarhjól eru eru fáanleg bæði í karla og kvenna stelli. Aðrir kjósa sérhæfðari hjól fyrir stuttar ferðir í borginni, t.d. samanbrjótanleg rafhjól, sem auðvelt er að taka í bíl eða almenningsamgöngur.

Samanbrjótanlegt Rafhjól frá Mate úr Ellingsen

Fyrir lengri ferðir, hvort sem er ferðalög eða í samgöngur gæti verið gott að skoða ferðahjól (e. touring / trekking hjól). Borgarhjól eru ekki hentug í lengri ferðalög. Ferðahjól eru sterkbyggð, stöðug  og hugsuð fyrir lengri ferðir, gjarnan með farangri, og staða hjólara á þeim er hönnuð með þægindi í huga. Þau koma yfirleitt með diskabremsum og dempara að framan og því ágætis vinnuþjarkar við íslenskar aðstæður. 

Cube Touring Hybrid Pro úr TRI

Fyrir þá sem vilja fara lengra út fyrir borgina, og á malarvegi gæti hentað frekar að vera á fjallahjóli. Áhugi á fjallahólreiðum hefur vaxið undanfarin ár og með rafdrifnum fjallahjólum opnast nýir heimar fyrir marga hjólara, þ.e. lengri túrar og ferðalög um malarvegi og fjallaslóða um land allt. Kosturinn við fjallahjól er að fá meiri fjöðrun og betra grip við þessar erfiðu aðstæður. Sumir kjósa fjallahjól og rafmagns fat bike fyrir samgöngur, en þá ertu fær í jafnvel erfiðustu vetrarfærðina.  

Specialized S-Works rafdrifið fjallahjól úr Kríu

Minna hefur farið fyrir rafdrifnum götuhjólum (racerum) hér á landi, en þau eru einnig fáanleg fyrir þá sem vilja létt rafhjól, með hrútastýri og vilja vera á malbiki. Mjög auðvelt er að ná götuhjóli á 25 km hraða og því ákveðinn ókostur að mótorar slái út við 25 km/klst. Því er hætta á að mótorinn nýtist lítið við íslenskar aðstæður á rafdrifnu götuhjóli. Brekkurnar hér eru stuttar og hraði á racer fer oft yfir þann hraða. Rafdrifið götuhjól er því mun hentugra þar sem langar brekkur eru til staðar, t.d. hjá þeim sem búa nálægt fjallendi á Spáni og Ítalíu en þar myndi mótorinn nýtast í löng klifur. 

Samgönguhjól er hjólið sem þú ætlar að nota milli staða, hvort sem er í og úr vinnu eða milli punkts A og B í borginni. Fyrir íslenskar aðstæður er ekki auðvelt að skilgreina hvað sé í raun samgönguhjól. Sá sem hjólar allt árið úr útjaðri höfuðborgar mun þurfa annað en sá sem hjólar hluta úr ári í miðbænum. Í stuttar ferðir milli staða í miðbæ Reykjavík væru hefðbundin borgarhjól eða jafnvel samanbrjótanleg hjól Mate boðið upp á hentuga lausn. Fyrir þá sem vilja þægilegt rafhjól í lengri samgöngur og lengri ferðir væru ferðahjól góður valkostur. Fyrir þá sem vilja geta komist upp á fjöll og í vinnuna í gegnum erfiðustu vetrarfærðina væri rafdrifið fjallahjól eða fat bike málið.

Hvaða verðflokkur ?

Þegar þú veist hvað þú vilt nota hjólið í er næsta áskorunin að ákveða hvaða hjól eigi að kaupa og hvað það eigi að kosta. Það sama gildir með rafhjól líkt og önnur reiðhjól að mikið getur fengist fyrir peninginn umfram ódýrustu hjólin á markaðnum og það getur margborgað sig að eyða aðeins meira. Það á við um gæði mótors og endingu batterís, gæði ýmissa íhluta t.d. gíra, gjarða o.s.frv. 

Cube rafhjól með Bosch mótor í drifinu

Algengt er að mótorar séu svokallaðir mid-drive (í drifinu) eða hub-drive (í gjörðinni). Ódýrari rafhjól hafa gjarnan mótorinn í gjörðinni á meðan dýrari rafhjólin eru með hann í drifinu. Eiginleikar mid-drive eru almennt taldir skemmtilegri, með betra viðbragði og meiri tilfinningu um að hjólari drífi hjólið en ekki að mótorinn geri það. Annað sem þarf að varast með ódýrustu rafhjólunum er að komi upp bilun, er ekki tryggt að varahlutir fáist auðveldlega og getur viðhald því verið kostnaðarsamt ef búnaðurinn er ekki frá traustum framleiðenda. 

Annað sem þarf að hafa í huga er að fjárfesta í mótor og batterí sem hentar notkun, enda vill enginn lenda í því að hafa ekki hleðslu til að klára túrinn. Þyngri hjólarar þurfa því öflugri mótor en léttari, og þeir sem ætla í langar ferðir þurfa hleðslu og afl sem hentar í slíkar hjólreiðar. 

Að lokum

Fyrir marga eru rafhjólin mun dýrari en gamla fjallahjólið og því ekki óvitlaust að skoða hvaða valkostir eru í boði í tryggingum fyrir rafhjól. Líklegt er að notkunin á nýja rafhjólinu verða langtum meiri en á gamla reiðhjólinu og mun því margborga sig að kaupa rafhjól af söluaðila innanlands sem bíður góða þjónusta. Einnig er líklegt að kaup á rafhjóli verði til þess að lengja hjólatúra og fjölga þeim. Það er því afar mikilvægt að fá góða leiðsögn um val á stelli og stærð sem hentar og passa upp á þægindi.

Previous Article
Next Article

Leave a Reply

Hjólafréttir

Markmið hjólafrétta er að auka veg og vanda hjólreiða sem sports og samgöngumáta. Við vonum að þú lesandi góður hafir gagn og gaman af lestrinum. Um vefinn.

Samstarfsaðilar