Lokastaðan eftir 9 umferðir og vinningshafi síðustu viku

Rafstöðvarbrekkan var síðasta segmentið í þessari törn.

Tveimur mánuðum og níu áskorunum seinna er komið að lokapunktinum fyrir segment áskorun hjólafrétta í þetta fyrsta skiptið. Við höfum séð fjölmörg KOM og QOM falla, þátttakan hefur verið framar björtustu vonum og við fengum keppni fram á lokaumferð meðal þeirra sem voru í efstu sætunum.

Í lokaumferðinni lá leiðin á hefðbundnar slóðir í Elliðaárdal, réttara sagt upp Rafstöðvarbrekkuna góðu. Stutt brekka þannig að wöttin eru keyrð alveg í botn í skamman tíma. Fram að þessu höfðum við reynt að hafa þetta fjölbreytt og verið með stutta spretti, TT leið, rúllandi malarkafla, aðrar stuttar brekkur og jafnvel langa brekku við Nesjavelli.

Í Rafstöðvarbrekkunni sáum við þau sem voru leiðandi keppendur bæði í karla- og kvennaflokki halda sínu striki og sigla heildarsigrinum í höfn.

Sjö QOM í níu áskorunum

Hjá konunum var Erla Sigurlaug Sigurðardóttir á besta tímanum, eða 1:45. Var það aðeins 1 sek lakari tími en núverandi QOM, sem einmitt Bríet Kristý, aðalkeppinautur hennar í áskorununum, setti í fyrra. Hélt Erla 425 wöttum í 1:45.

Í öðru sæti var Margrét Indíana Guðmundsdóttir á 1:58 og Margrét Pálsdóttir var á 2:02. Hrefna Jóhannsdóttir var á 2:04 og Helga Guðrún var á 2:05 í fimmta sæti.

Með þessum árangri náði Erla sjötta toppsætinu í áskorunum Hjólafrétta. Bríet Kristý tók fyrstu tvær áskoranirnar, en Ágústa Edda tók svo þá þriðju sem var TT leið á Álftanesinu. Erla setti eftir það í fluggírinn og tók næstu sex. Þar af setti hún fjögur QOM, en í heildina voru sett sjö QOM hjá konunum í þessum níu áskorunum, eða 78% árangur!

Erla Sigurlaug sigrar í kvennaflokki

Erla Sigurlaug endar með 173 stig í heildarkeppninni, en Bríet Kristý var önnur með 145 stig. Margrét Indíana varð þriðja með 131 stig og Margrét Arna Arnardóttir fjórða með 118 stig. Hægt er að nálgast nánari úrslit úr hverri áskorun og í heildarkeppninni hér.

Erla Sigurlaug stóð uppi í fyrsta sætinu eftir níu umferðir.

Ingvar tekur karlaflokkinn

Í karlaflokki varð Ingvar Ómarsson á besta tímanum. Hann skellti í 528 wött í 1:35 min og það dugði honum til sigurs. Eyjólfur Guðgeirsson varð annar á 1:37 og Bjarki Sigurjónsson þriðji á 1:38. Guðni Ásbjörnsson var fjórði á 1:40 og Björgvin Pálsson fimmti á 1:41.

Ingvar náði með þessu sínum fjórða sigri og setti hann eitt KOM í þeim, í mölinni í Heiðmörk. Samtals voru sett fjögur KOM hjá körlunum í heildina í þessum níu áskorunum. Hann hélt forystunni yfir allar áskoranirnar, jafnvel þótt hann hafi misst út eitt skiptið.

Ingvar landaði sigri í heildarkeppninni karlameginn.

Þeir aðrir sem áttu besta tíma í ákveðnum áskorunum voru; Pálmar Gíslason og Stefán Orri Ragnarsson saman í Seltjarnarnessprettinum, Eyjólfur á Álftanesi og í Klettagörðum og Dennis Van Eljk í bæði Vífilstaðabrekkunni og Nesjavallabrekkunni.

Ingvar endar með 138 stig í heildarkeppninni, en Jón Arnar Óskarsson varð annar með 112 stig og Guðni Ásbjörnsson varð þriðji með 101 stig. Björgvin Pálsson varð fjórði með 91 stig og Jón Arnar Sigurjónsson fimmti með 90 stig.

Heildarstaðan í Segment áskoruninni.

S-Works Turbo dekk frá Kríu dregin út

Það fórst eftir síðustu áskorun að draga út vinningshafa, en í útdráttarverðlaun eru par af S-Works Turbo götuhjóladekkjum  sem hafa meðal annars fengið glæsilega dóma á Bike radar og Road.cc.  

Vinningshafinn í þetta skiptið er Gunnar Þorvarðarson. Gunnar má heyra í okkur í message á facebook til að nálgast verðlaunin.

Nokkur hundruð tóku þátt

Samtals komust 43 konur á stigalista og 61 karl, en í heildina tóku nokkur hundruð manns þátt í áskorununum og skráðu samtals 633 sig í Hjólafréttahópinn á Strava.

Fyrir hönd Hjólafrétta langar okkur að þakka kærlega fyrir þessa miklu þátttöku og áhuga sem þetta litla project fékk. Í upphafi áttum við ekki von á miklu, en strax í byrjun varð ljóst að áhuginn var til starðar, sérstaklega í ljósi sérstakra aðstæðna vegna covid-19 og breytinga á keppnistímabilinu.

Við munum klárlega henda í aðra svona áskorun við tækifæri, en við sjáum þá til með fjöldann, hvort sem það verða stakar áskoranir eða nokkur stykki.

Öflugir styrktaraðilar

Þá viljum við sérstaklega þakka öllum þeim styrktaraðilum og samstarfsaðilum sem tóku vel í að gera þetta að enn skemmtilegra giggi. Þetta voru Þriðja hjólið, Tri, Lauf, Opin Kerfi og Kría. Takk kærlega fyrir stuðninginn.

Previous Article
Next Article

Leave a Reply

Hjólafréttir

Markmið hjólafrétta er að auka veg og vanda hjólreiða sem sports og samgöngumáta. Við vonum að þú lesandi góður hafir gagn og gaman af lestrinum. Um vefinn.

Samstarfsaðilar