Föstudagssamantektin – Nóg að gerast í næstu viku
Keppnistímabilið er að komast á fullt og verður nóg að gerast í næstu viku. Áskorun Hjólafrétta er að klárast en á móti eru keppnir að byrja af fullu og fyrir þá sem ekki taka þá er tilvalið að skella sér að fylgjast með mótum.
Dagskrá næstu viku
14. Júní – Ungdúró
Enduro keppni fyrir krakka fædda 2001-2010. Enn hægt að skrá sig. Fer fram í Heiðmörk.
15. Júní – Morgunblaðshringurinn – bikarmót #1
XCO – Ólympískar fjallahjólreiðar. Enn hægt að skrá sig. Fer fram í Hádegismóum á Mánudag kl 18:00. Hjólað í nágrenni Rauðavatns og við Hólmsheiði. Auðvelt að koma og fylgjast með, en farnir eru nokkrir stuttir hringir þannig að hægt verður að sjá hvern keppenda á sama stað allt að fimm sinnum.
18. Júní – TT Bikarmót #2
TT – Tímataka Tinds. Fer fram á Þorlákshafnarvegi. Einstaklega flöt braut og þarna munu heildarwött og “aero” skipta öllu máli. Ræst og endað á Suðurstrandavegi, rétt við Þorlákshöfn. Hjólað í vestur um 11km og snúið við á keilu. Heildarhækkun aðeins 25m.
20. Júní – Skjálfandamótið – bikarmót #1
RR – Götuhjól. HFA og Völsungs. Enn hægt að skrá sig. Hjólað frá Akureyri til Húsavíkur. Fyrsta götuhjólamót ársins og hluti af bikarkeppninni. Ca 80-130km leiðir í boði eftir flokkum. Gott klifur upp Víkurskarð fyrir alla nema almenningsflokk (78km leiðin) sem fer í gegnum Vaðalaheiðagöng!).
21. júní – Kópavogsþríþraut Breiðabliks
Breiðablik heldur árlegt þríþrautarmót sitt á Kársnesi á sunnudaginn eftir viku. Bæði fyrir byrjendur sem lengra komna. Vegalengdir eru 400 m sund, 10,3 km hjól og 3,5 km hlaup.
Til viðbótar við keppnirnar verður Lauf með opið hús á þriðjudaginn 16. júní frá 16-19, en þar verður nýtt sýningarrými kynnt.
Sama dag, þriðjudaginn 16. júní, verður Fjallahjólaklúbburinn með samhjól þar sem áhugasamir geta kynnst skógarstígum efra Breiðholts. Byrjar kl 19:30.