Íslandsmótið í götuhjólreiðum framundan
Á sunnudaginn fer fram Íslandsmótið í götuhjólreiðum og verður það haldið í Skagafirði af Hjólreiðafélaginu Drangey. Viku síðar fer svo fram Íslandsmótið í tímatöku en það verður haldið á Vatnsleysuströnd.
Núverandi íslandsmeistarar í götuhjólreiðum eru þau Ágústa Edda Björnsdóttir og Ingvar Ómarsson en þau sigruðu á síðasta ári þegar keppt var á Suðurstrandaveginum. Þau eru jafnframt bæði skráð til leiks til að verja titilinn og vonandi tryggja sér fánalitina eitt ár í viðbót. Búast má við skemmtilegri keppni á sunnudaginn þegar hjólaður verður Skagafjarðarhringur í því sem útlit er fyrir ágætis veður. Gangi spáin eftir verður þokkalegt veður, hiti yfir 10°c og hæglátur vindur sem mætir keppendum á fyrsta hluta leiðarinnar. Þá munu keppendur leggja af stað frá Sauðarkróki í átt að Varmahlíð þegar beygt verður í átt að Blönduhlíð og svo norður að Hofsósi. Á Hofsósi er snúið við og stefnan tekin aftur að Sauðarkróki. Endamarkið verður þó á tveim stöðum, en Elite kvenna enda á Strandvegi á Sauðarkróki (alls 108 km) en Elite karla munu hjóla í átt að skíðasvæðinu Tindastóli (alls 124 km).
Aðrir flokkar enda á sama stað og Elite kvenna en hjóla mislangar leiðir. Masters Karla, Junior Karla og U23 Kvenna hjóla með Elite kvenna 108 km leiðina. Masters KVK, Junior KVK, U17 og Almenningsflokkar hjóla 67 km leið og sleppa þá að beygja inn í átt að Hofsósi.
Brautin er að mestu nokkuð flöt, ef frá er talin lokabrekkan í Elite KK, en þó er þar að finna nokkrar styttri brekkur sem gætu sprengt upp keppnina. Þá er ljóst að vindur gæti haft talsverð áhrif á keppnina, en ef hann kemur að vestan eða austan verða nokkuð langir kaflar með hliðarvind sem lið sem vinnur saman gæti nýtt sér.
Fyrst ber að nefna kaflann við Reynistað, en þar er farið niður frá Staðarrétt og framhjá Reynisstað áður en stutt brekka tekur við sem gæti reynst góður staður til að gera fyrstu árás. Stuttu síðar þegar búið er að hjóla Langholtið kemur beygja upp til vinstri meðfram Reykjarhólnum við Varmahlíð. Þar er einnig mögulegt svæði til að gera árás, en strax í kjölfarið kemur svo niðurkafli að Varmahlíð og beygjan í átt að Blönduhlíð.
Í Blönduhlíð er svo ein brekka sem hægt er að vinna með, en hún kemur eftir tæplega 45 km af heildarleiðinni. Eftir að snúið er við frá Hofsósi er svo haldið í átt að Sauðárkróki yfir Hegranesi. Þar gefst annað tækifæri til árásar á góðum tímapunkti, eða þegar rúmlega 20km eru eftir. Ekki er um mikið meira en 40-50m hækkun að ræða, en nokkuð brattan kafla í hluta brekkunnar. Slétt er í gegnum Sauðárkrók, þar sem flestir flokkar klára, en Elite KK heldur svo áfram í lokaraunina.
Lokabrekkan mun þó setja svip sinn á keppnina og synd að hún verði ekki endamarkið hjá Elite kvenna enda óalgengt að keppnir hérlendis endi á klifri en einnig fyrir áhorfendur að geta ekki fylgst með endaspretti hjá fleiri en einum flokki.
Hvað lokabrekkuna varðar mun hækkunin í raun byrja strax þegar hjólað er úr bænum upp á Þverárfjallsveg en fyrstu 12 kílómetranna er ekki um mikla hækkun að ræða, einungis um 250m. Eftir afleggjarann upp á Skíðasvæði munu hinsvegar flugeldarnir byrja, þegar um 1800 metrar eru eftir, þá eykst brattinn verulega og nær um 19% á köflum.
Keppnirnar hafa verið spennandi í sumar. Í Elite karla sigraði Ingvar Ómarsson fyrsta bikarmótið á Reykjanesi en Birkir Snær Ingvason tók næstu tvö mót, Samskipamótið og Tind Classic. Ásamt hinum fyrrnefndu eru Óskar Ómarsson og Eyjólfur Guðgeirsson einnig ofarlega í bikarstigum eftir fyrstu þrjú bikarmótin en þeir eru allir skráðir til leiks á sunnudag.
Ingvar verður að teljast sigurstranglegur, enda er hann líklega öflugasti klifrari landsins þegar kemur að lengri klifrum. Verði hann í fremsta hóp þegar kemur að brekkunni eftir Sauðárkrók á hann því góða möguleika á að verða fyrsti maður upp. Hins vegar sáum við líka að Birkir var með gríðarlegan sprengikraft í Suðurstrandarmótinu fyrr í ár. Ef Airport direct nær að skýla honum upp að brattasta kafla Tindastóls gæti slíkur sprengikraftur veitt Ingvari harða samkeppni.
Það á svo eftir að koma í ljós hverning taktík keppendur og lið verða með á fyrstu 100 km. Ef allir ætla að keyra á fullu með það markmið að þreyta líklegustu menn gæti það breytt miklu varðandi kraftinn sem er fyrir lokabrekkuna, eða þá ef breik nær að myndast á leiðinni sem er með eitthvað almennilegt forskot.
Að lokum er rétt að hafa í huga að þetta er Íslandsmótið, lang stærsta mót ársins út frá því hvað menn telja eftirsótt að vinna. Geta þeir í framhaldinu kallað sig Íslandsmeistara næsta árið og skartað fánalitum á keppnistreyjum sínum. Þetta er því það mót þar sem keppendur eru líklegastir til að sjálfir vilja komast á pall þótt þeir séu hluti af liði.
Í Elite kvenna hafa fyrstu þrjú mótin boðið upp á þrjá sigurvegara en Björk Kristjánsdóttir sigraði á Reykjanesinu, Karen Axelsdóttir sigraði Samskipamótið og Ágústa Edda Björnsdóttir sigraði Tind Classic. Af þeim fyrrnefndu er það einungis Ágústa sem er skráð til leiks þegar þetta er skrifað og verður hún að teljast sigurstranglegust miðað við núverandi skráningu, þó að aldrei megi afskrá aðra keppendur.