Birkir nýr Íslandsmeistari og Ágústa ver titilinn
Birkir Snær Ingvason er nýr Íslandsmeistari í götuhjólreiðum karla og Ágústa Edda Björnsdóttir varði titil sinn í kvennaflokki, en Íslandsmótið fór fram í Skagafirði nú fyrr í dag. Hjólaður var hringur um Skagafjörð með viðkomu á Hofsósi áður en elite kvk endaði á spretti við Sauðárkrók, en elite kk fór aukalega upp klifur á Þverárfjallsveg og upp í Tindastól.
Birkir var ásamt fjórum öðrum (Hafsteini Ægi Geirssyni, Thomas Skov Jensen, Stefáni Orra Ragnarssyni og Guðmundi Sveinssyni) í breiki snemma í keppninni og á Hofsósi voru þeir með um 5 mínútna forskot. Þeir héldu því að mestu á bakaleiðinni frá Hofsósi þar sem beygt var inn á Sauðárkróksbraut, en þaðan eru 13 km eftir inn á Sauðárkrók.
Eftir að hafa farið yfir Hegranesið og í gegnum Sauðárkrók var breikið komið niður í Birki, Hafstein og Stefán og forskotið í sex manna hóp sem elti (Ingvar Ómarsson, Óskar Ómarsson, Eyjólfur Guðgeirsson, Kristófer Gunnlaugsson, Kristinn Jónsson og Bjarni Garðar Nicolaisson) komið niður í 4:15.
Ingvar, sem varð Íslandsmeistari í fyrra, er alltaf öflugur í brekkunum og í dag var engin undantekning. Hann sleit sig frá sex manna hópnum og reyndi að elta þá Birki, Hafstein og Stefán. Náði hann bæði Stefáni og Hafsteini, en Birkir varði stöðu sína og endaði á tímanum 03:15:27, meðan Ingvar varð í öðru sæti, 52 sekúndum á eftir. Hafsteinn var svo 1 mínútu á eftir Birki.
Í elite-flokki kvenna voru þær Ágústa, Bríet Kristý Gunnarsdóttir og Hafdís Sigurðardóttir komnar í hóp ásamt átta úr masters-flokki karla þegar komið var á Hofós, en þessir hópar fóru sömu leið og gátu unnið saman í keppninni. Voru þær með um þriggja mínútna forskot á næsta keppenda í flokknum og jókst munurinn eftir því sem leið á keppnina.
Þegar beygt var inn á Sauðárkróksbraut voru þær enn saman í hóp, en yfir Hegranesið og á leiðinni á Sauðárkrók sleit Ágústa sig frá þeim Bríet og Hafdísi, en hún var í hópi með fjórum úr masters karla. Kom hún í mark á 03:00:34, en Bríet var 02:31 á eftir henni og Hafdís 03:49 í þriðja sæti.