Úrslit í Reykjanesmótinu

Reykjanesmót Nettó og 3N í götuhjólreiðum fór fram í dag og stóðu þau Ingvar Ómarsson og Ágústa Edda Björnsdóttir uppi sem sigurvegarar í Elite-flokknum þar sem hjólaðir voru um 106 kílómetrar. Í B-flokki, þar sem hjólaðir voru 64 kílómetrar, voru þau Davíð F. Albertsson og Karen Axelsdóttir hlutskörpust.

Keppendur fengu frábært veður til að hjóla í í dag, en auk þess settu nokkrir árekstrar mark sitt á keppnir í 64 og 32 km keppnunum.

106 km

Eins og oft áður kepptu þeir Ingvar Ómarsson og Hafsteinn Ægir Geirsson um efsta sæti í Elite-flokki karla. Á lokakaflanum tók Ingvar sprett og stakk Hafstein af og endaði rúmlega 6 sekúndum á undan honum. Tæplega mínútu síðar kom svo hópur 9-10 hjólara. Sigurtími Ingvars var 02:34:17,6. Tóku 53 keppendur þátt í flokknum.

32222541_10211633043003517_8705807518246371328_n
Keppendur í Elite-flokki karla tilbúnir á ráslínu. Ljósmynd/ Hleiðar Gíslason

Ágústa kom í mark sex og hálfri mínútu á undan Kristrúnu Lilju Júlíusdóttur sem kom næst í mark í Elite-kvennaflokki. Var tími Ágústu 03:06:36,6. Í þriðja sæti var Rannveig Anna Guicharnaud á 03:17:48,1, en Bríet Kristý Gunnarsdóttir var í fjórða sæti 8 sekúndum þar á eftir. Alls voru sex sem tóku þátt í flokknum.

Í 106 km keppninni átti að hjóla frá Sandgerði fram hjá Grindavík með stuttum hring um Reykjanesvirkjun, en fyrir mistök varð ekkert af þeim hring hjá fyrsta hóp og var því ákveðið að allir í Elite-hópnum slepptum þeirri lúppu.

32247322_10211633044643558_3576674259587563520_n
Keppendur í Elite-flokki kvenna tilbúnir á ráslínu. Ljósmynd/ Hleiðar Gíslason

64 km

Í B-flokknum var hörð keppni fram að marklínu, þar sem um 25-30 manna hópur var enn saman þegar um 500 metrar voru í mark. Þegar um 200 metrar voru eftir eftir varð hins vegar árekstur og flugu um 10 hjólarar út fyrir brautina, sumir í heljarstökki. Samkvæmt þeim upplýsingum sem Hjólafréttir hafa fengið frá nokkrum þeirra sem lentu í árekstrinum þveraði einn hjólari brautina á þessum kafla, en samkvæmt reglum skulu hjólreiðamenn halda línu á endaspretti. Slösuðust nokkrir, en ljóst er að hjálmur bjargaði miklu fyrir tvo einstaklinga.

Fremstu og öftustu menn í þessum hópi virtust komast frá árekstrinum og endaði sem fyrr segir Davíð í efsta sæti á tímanum 01:37:00,2 og var Kristófer Gunnlaugsson annar tveimur sekúndubrotum síðar. Svanur Daníelsson var þriðji og Guðlaugur Egilsson fjórði. Alls hóf 71 keppni í flokknum, en fjórir luku ekki keppni.

20180510_113654
Endaspretturinn í 64 km keppninni. Í bakgrunni má ógreinilega sjá þann hóp sem lengi í árekstrinum.

Annar árekstur varð einnig fyrr í keppninni eftir um 13 kílómetra. Var pelotonið nokkuð stórt, 40 hjólarar á að giska. Á beinum vegi án hindrana hægðist allt í einu mikið á einum hjólara sem varð þess valdandi að næstu keppendur negldu niður og að endingu varð árekstur þar sem um 10 hjólarar fóru niður í götuna. Engin alvarleg slys urðu á mönnum, en allavega eitt hjól er ónýtt og önnur löskuð. Þrír keppendur þurftu að hætta keppni vegna þessa og einhverjir töpuðu af pelotoninu.

Í kvennaflokki í 64 keppninni var Karen Axelsdóttir fyrst á tímanum 01:55:11,5. Þær Kristín Vala Matthíasdóttir og Steinunn Erla Thorlacius voru næsta um fjórum mínútum á eftir Kareni og Berglind Berndsen þar á eftir. Alls tóku 10 þátt í þessum flokki.

32 km

Bjarki Sigurjónsson var fyrstur í 32 km keppninni, en hann vann eftir endasprett milli 17 hjólara sem komu allir í mark á innan við 6 sekúndum á eftir Bjarka. Var tími Bjarka 00:48:46,1. Björgvin Pálsson var í öðru sæti og Vignir Hafsteinsson í þriðja sæti. 59 tóku þátt í þessum flokki.

Í kvennaflokki kom Guðlaug Sveinsdóttir fyrst í mark í 32 km keppninni á tímanum 00:48:56,2, eða aðeins 10 sekúndum á eftir fyrsta karlmanni. Þuríður Árnadóttir var önnur og Inga Hrund Gunnarsdóttir þriðja. 35 konur tóku þátt í þessum flokki.

Samkvæmt upplýsingum Hjólafrétta varð einnig slys í 32 km keppninni þegar snúið var við. Ekki eru nánari upplýsingar um þetta atvik að svo stöddu.

Það skal tekið fram að fréttaritari er hjólafélagi tveggja þeirra sem lentu í árekstrinum í 64 km keppninni við endamarkið og lenti sjálfur í árekstrinum eftir 13 km.

Fleiri myndir verða settar inn síðar í dag.

Previous Article
Next Article

Hjólafréttir

Markmið hjólafrétta er að auka veg og vanda hjólreiða sem sports og samgöngumáta. Við vonum að þú lesandi góður hafir gagn og gaman af lestrinum. Um vefinn.

Samstarfsaðilar