Engar frekari upplýsingar um óhöpp í Reykjanesmótinu

Engar frekari upplýsingar hafa borist dómara eða mótastjórn Reykjanesmóts 3N og Nettó varðandi þau óhöpp sem áttu sér stað í keppninni þann 10. maí. Munu því úrslit standa í 64 km keppninni. Eitt myndband barst hins vegar sem sýndi einn keppanda í 32 km keppninni brjóta af sér varðandi miðlínuregluna og var hann dæmdur úr leik fyrir það.

Loka úrslit eins og þau koma frá á vefsíðu Tímatöku.net standa því. Þetta kemur fram í svari mótastjórnar 3N við fyrirspurn Hjólafrétta.

Lesa meira um úrslit í Reykjanesmótinu

Talsverð umræða skapaðist eftir keppnina vegna óhappa sem í henni urðu. Sérstaklega í lokasprettinum í 64 km keppninni og í snúningi í 32 km keppninni. Þegar 200 metrar voru eftir af brautinnni í 64 km keppninni flugu um 10 hjólarar út fyrir brautina eftir árekstur. Deilt var um hvort að einn hjólari hefði haldið línu á endasprettinum, en samkvæmt reglum eiga keppendur að gera það. Óskuðu dómari og mótastjórn eftir myndböndum eða myndum til að varpa frekara ljósi á þetta óhöpp og önnur.

Á Keppnisspjalli hjólreiðafólks hófst talsverð umræða um hvernig vinna megi í því að auka öryggi hjólreiðafólks framvegis og var meðal annars greint frá því að HFA á Akureyri væri byrjað með óformlega mótaröð til að æfa að hjóla í hóp, hvernig taktík virkar í keppnum o.s.frv., en sérstaklega átti að fara yfir reglur fyrir hvert mót.

Þá var meðal annars hent fram þeirri hugmynd að keppa ætti um tíma en ekki sæti í almenningsflokkum. Slíkt myndi ýta undir að fólk myndi vinna saman og mögulega draga úr vægi endasprettsins. En umfram allt virtust flestir sammála um að fólk þyrfti að fá mun meiri reynslu af keppnum og að hjóla í hóp. Bent var á að fá mætti talsverða reynslu af því á æfingum hjá hjólafélögum.

Hjólafréttir fagna framtaki HFA og taka heilshugar undir það að fólk sem er að stíga sín fyrstu skref í hjólreiðakeppnum ætti að sækja aukna reynslu í útiæfingar hjólreiðafélaga áður en það ætlar að reyna að vera framarlega í pelotoni í keppnum. Það er hægt að koma sér í form með að hjóla inni, en reynslan af hóphjóli fæst ekki nema með að taka þátt í slíku. Slík reynsla bætir öryggi allra keppenda.

Previous Article
Next Article

2 Replies to “Engar frekari upplýsingar um óhöpp í Reykjanesmótinu”

  1. Birgir Birgisson

    Væri ekki hugmynd að Hjólafréttir, t.d. í samstarfi við einhver hjólreiðafélög, myndi birta greinaröð sem útskýrir helstu atriðin í hóphjólreiðum? Kemur ekki í staðinn fyrir reynsluna, en ýtir fólki kannski af stað í þá átt að sækja sér reynsluna. Auðveldara að gera ef maður er aðeins búinn að kynna sér undirstöðuatriðin fyrst.

Leave a Reply

Hjólafréttir

Markmið hjólafrétta er að auka veg og vanda hjólreiða sem sports og samgöngumáta. Við vonum að þú lesandi góður hafir gagn og gaman af lestrinum. Um vefinn.

Samstarfsaðilar