Hver er stefna flokkanna varðandi hjólreiðar?

Flest framboð til borgarstjórnarkosninga í Reykjavík vilja auka hlutdeild hjólreiða í samgöngum borgarbúa á komandi kjörtímabili. Þá segjast mörg framboðanna vilja fjölga aðgreindum hjólastígum og bæta merkingar. Píratar leggja til róttækustu hugmyndirnar um breytingar í málefnum hjólreiðafólks, en einnig leggja flokkar til hugmyndir um hvatagreiðslur til að nota vistvænar samgöngur, bættar merkingar, aukinn mokstur og draga úr hraðaakstri.

Hjólafréttir höfðu samband við alla flokkana sem bjóða fram í Reykjavík og bað um svör við fimm spurningum sem tengjast hjólreiðum og öryggi hjólreiðafólks. Munum við stikla á stóru í svörum flokkanna, en einnig birta svörin í heild hér að neðan.

Spurningarnar:

  1. Tejið þið að stefna skuli að því auka hlutdeild hjólreiða í samgöngum í borginni?
  2. Munið þið beita ykkur fyrir framkvæmdum við sérstaka og aðgreinda hjólastíga og þá hvaða leiðum?
  3. Teljið þið rétt að hjólreiðafélög séu styrkt af sveitarfélögum líkt og með mörg íþróttafélög?
  4. Hvað viljið þið gera til að auka öryggi reiðhjólafólks?
  5. Er eitthvað annað sem þið viljið að gert verði í málefnum hjólreiða almennt í borginni?

Allir vilja auka hlutdeild hjólreiða

Allir flokkar sem svöruðu sögðust vilja stefna að aukinni hlutdeild hjólreiða í samgöngum í borginni. Miðflokkurinn tekur þó fram að hann hefði ekki sett sér sérstaka hjólreiðastefnu, heldur muni skoða þau mál betur eftir kosningar.

Sögðust Höfuðborgarlistinn, Píratar, Samfylking, Sjálfstæðisflokkur, Viðreisn og Vinstri græn munu beita sér fyrir því að byggja upp sérstaka aðgreinda hjólastíga. Alþýðufylkingin og Miðflokkurinn höfðu ekki tekið afstöðu í þessum efnum og Borgin okkar og Flokkur fólksins ætla ekki að beita sér fyrir slíkri uppbyggingu.

20180509_175644

Reykjavíkurborg samþykkti hjólreiðaáætlun árið 2015 til fimm ára. Kom fram í skýrslu umhverfis- og skipulagssviðs borgarinnar að áætlað væri að 350 milljónum yrði varið árlega í málaflokkinn, nema árið 2016 þegar 285 milljónir voru áætlaðar. Í fjárhagsáætlun borgarinnar fyrir árin 2018 til 2022 eru áætlaðar 450 milljónir í göngu- og hjólastíga og 30 milljónir í hjólastanda og upplýsingaskilti fyrir hjólreiðar. Til samanburðar er heildarkostnaðar vegna gatnagerðamála (göngu- og hjólastígar meðtaldir) á áætlun árið 2018 12,4 milljarðar. Þar eru einnig taldar með framkvæmdir í nýjum hverfum.

Áhersla á aðgreinda hjólastíga hjá nokkrum framboðum

Í svörum sínum sögðust Píratar vilja hækka upphæð til uppbyggingar fyrir hjólandi umferð upp í 800 milljónir á ári auk þess að setja fjármuni í endurhönnun borgargatna. Viðreisn sagðist vilja setja 50 milljónir aukalega á ári hverju.

Samfylkingin segir að fylgt verðihjólreiðaáætlun borgarinnar áfram og vilja leggja hjólastíga um alla borg og endurgera götur. Nefnir flokkurinn sérstaklega brú yfir í Kársnes sem framkvæmd á plani. Höfuðborgarlistinn segist horfa til að byggja upp sérstaka hjólastíga við allar stofnbrautir. Vinstri græn segja brýnt mál að fjölga aðgreindum hjólastígum og Framsóknarflokkurinn segist ætla að beita sér í þeim málum.

Sjálfstæðisflokkurinn segir aukningu í innviðafjárfestingu vegna hjólreiða skila árangri og muni vinna áfram með hjólreiðaáætlunina. Í svarinu er það sögð góð framtíðarsýn sé að gera óslitin Reykjavíkurhring á aðskildum stíg. Sama gildi um Vesturlandsveg að Hvalfirði. Markmið sé að hafa samfelldan hjólastíg frá Kjalarnesi til Reykjavíkur.

uppb 2006-14
Uppbygging hjólastíga árin 2006-2014 í Reykjavík.
uppb 2014-20
Uppbygging hjólastíga árin 20014-2020 í Reykjavík.

Myndir af vefnum Hjólaborgin.is þar sem hjólreiðaáætlun Reykjavíkur er kynnt.

Hvað er hægt að gera til að bæta öryggið?

Þegar horft er til öryggis hjólreiðafólks og hvernig hægt er að bæta það nefna fjölmargir flokkar aðgreinda stíga. Alþýðufylkingin segir að hámarkshraði þurfi að vera á hjólastígum og að passa þurfi upp á að slitlagið sé got. Borgin okkar nefnir að draga þurfi úr almennum umferðahraða sem gagnist hjólreiðafólki líka.

Flokkur fólksins vill byggja göngubrýr í stað gönguljósa og talar fyrir notkun hjálma á meðan Framsókn vill bæta viðhald hjólastíga og passa upp á að öryggisstöðlum sé fylgt. Höfuðborgarlistinn nefnir að loka fyrir bílaumferð þegar hjólamót eigi sér stað auk þess að aðgreina hjólandi umferð.

Píratar, Samfylkingin, Sjálfstæðisflokkurinn, Viðreisn og Vinstri græn nefna öll aðgreindar akreinar. Þá tala Píratar og Samfylking fyrir lægri umferðarhraða. Samfylkingin vill bæta merkingar og aðra innviði, Sjálfstæðisflokkurinn auka vitund annarra í umferðinni um hjólandi umferð og Viðreisn segir að almenn fjölgun hjólafólks leiði til aukins öryggis. Vinstri græn nefna einnig bættar merkingar sem og að huga vel að mokstri og hálkuvörnum.

Hjólreiðafélög verði á sama stað og almenn íþróttafélög

Spurð út í hvort hjólreiðafélög eigi að vera styrkt í samræmi við önnur íþróttafélög segja Alþýðufylkingin, Flokkur fólksins, Framsókn, Höfuðborgarlistinn, Samfylking og Sjálfstæðisflokkurinn að svo eigi að vera. Píratar segjast vilja efla grasrótarstarf en ekki hafi verið samþykkt neitt um þetta atriði. Vinstri græn segja það koma til greina og Viðreisn, Miðflokkurinn og Borgin okkar hafa ekki tekið afstöðu til málsins.

Styrkir fyrir rafhjól, yfirbyggð hjólastæði, bætt viðhald stíga og merkingar og nöfn á hjólastíga

Með opinni spurningu um hvort það sé eitthvað fleira sem flokkarnir horfi til varðandi málefni hjólreiðafólks segir Framsóknarflokkurinn að hann ætli að koma upp hvatningargreiðslum til nemenda til að fá þá til að nota vistvænar samgöngur, meðal annars hjól. Miðflokkurinn segist vilja hækka upphæð frístundakorts í grunnskólum, en að valdboð að ofan virki ekki og íþróttir eigi að vera sjálfsprottnar.

Píratar tala fyrir því að styrkja íbúa borgarinnar til að kaupa rafhjól, byggja upp sérstakar hjólahraðbrautir og finna samstarfsaðila um hjólaleigukerfi í öllum hverfum borgarinnar. Samfylkingin  segist vilja efla hjólreiðir barna og bæta aðstöðu við skóla sem og að hafa yfirbyggð hjólastæði við stofnanir og víðar. Þá að hjólastæði verði skilyrði í byggingarleyfum.

20180509_085920

Sjálfstæðisflokkurinn segir að hjólreiðar eigi að vera raunhæft val allt árið og leggur áherslu á viðhald stíga, stofnstígar séu ruddir um leið og stofnæðar og að stígakerfið sé sópað fyrr á vorin. Viðreisn vill setja upp sérstök nöfn á hjólastíga, líkt og er á almennum götum

Vinstri græn nefna aukið samstarf við hjólreiðafólk við lagningu stíga og við merkingar og að hugsa þurfi hjólastíga fyrir fjölbreyttan hóp hjólafólks.

Ekki bárust svör frá Frelsisflokknum eða Íslensku þjóðfylkingunni. Þá voru spurningarnar upphaflega sendar áður en búið var að tilkynna formlega um framboð Karlalistans, Kvennahreyfingarinnar og Sósíalistaflokksins. Gafst þeim þar af leiðandi mun styttri tími til svara en hinum flokkunum.

Svör flokka í Reykjavík í heild sinni (PDF)

Previous Article
Next Article

One Reply to “Hver er stefna flokkanna varðandi hjólreiðar?”

Leave a Reply

Hjólafréttir

Markmið hjólafrétta er að auka veg og vanda hjólreiða sem sports og samgöngumáta. Við vonum að þú lesandi góður hafir gagn og gaman af lestrinum. Um vefinn.

Samstarfsaðilar